26.11.1986
Efri deild: 15. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 1167 í B-deild Alþingistíðinda. (1005)

186. mál, Húsnæðisstofnun ríkisins

Valdimar Indriðason:

Virðulegi forseti. Þar sem þessi skýrsla ber með sér að lakasti kosturinn er í minni heimabyggð á Akranesi þykir mér þetta fróðlegt plagg mjög, en ég get jafnframt lýst því yfir að þar sem ég býð mig fram í næstu kosningum í þessu kjördæmi væri fróðlegt að fá á þessu góða lausn og ekki væri ég á móti því að við gætum hækkað þar fasteignaverð með einum sjóði þannig að við gætum boðið upp á í kosningabaráttunni að nú hækkuðu fasteignir verulega. En það er ekki svo vel um þetta mál.

Ég ætla ekki að blanda mér í umræður á milli þeirra sem töluðu áðan. Ég hef ekki lesið þetta grannt, en sjálfsagt er það mjög vel unnið af þeim sem það gerði. En þar er minnst t.d. á Akranes. Það er talað um alls 40 samninga sem þar eru gerðir. Ég veit að t.d. vegna aðstæðna þar hefur verið þar mikil hreyfing í sölu á verkamannabústöðum sem er búið að byggja þar af mikið síðustu árin og þeir hafa verið byggðir mjög ódýrt. Þeir hafa verið keyptir af byggingaverktökum. Stjórn verkamannabústaða hefur ekki byggt þetta á sinn reikning eða þann veg sem gert er víða heldur hefur hún gengið inn í samninga við aðila sem eru á byggingarmarkaðnum og keypt vissan fjölda íbúða í íbúðarblokkum. Þetta hafa verið mjög hagstæð kaup. Þessir kaupsamningar gætu lækkað verulega þá viðmiðun sem taflan byggir á.

Ég er ekki að bera í bætifláka fyrir að íbúðarverð á Akranesi er allt of lágt og það hefur verið það í langan tíma. Ég veit ekki um skýringu á því. Ég veit hana bara ekki eins og er vegna þess að þar hefur verið næg atvinna s.l. ár. Ein skýringin er áreiðanlega sú sem 5. landsk. þm. gat um áðan í sambandi við hitun á íbúðarhúsnæði sem við ræddum í sameinuðu þingi í gær. Þetta verð ég var við að gerir ógurlega erfitt fyrir og fólk hugsar sig um vegna sinnar búsetu. Það er nokkuð sem þarf að takast alvarlega á við. Þó að það fylgi ekki þessu máli er það einn liðurinn. Ég veit það um húseignir eins og vestur á fjörðum að kvartað er ákaflega yfir því að geta ekki selt þær. Þess vegna kemur á óvart í skýrslunni t.d. að Ísafjörður skuli ná allverulega hátt í sambandi við sölumöguleika, um það bil 76% af byggingarkostnaði. Það er hærra en á Akureyri. Ég held því að það þurfi að fara ofan í þetta betur, að það séu hliðstæðir samningar sem miðað er við á hverjum stað.

Ég ætla ekki að leggja dóm á frv. sem slíkt. Því miður er ég hræddur um að þessi aðferð gangi ekki upp. En nefnd mun fjalla um þetta. Ég held að það þurfi þarna að gera ítarlegri breytingar til að jafna það sem þarna er um að ræða. Þetta er mjög mikið vandamál. Fólk flýr staðina hingað suður um, í háa verðið, vílar ekki fyrir sér að kaupa hér á háu verði til að losna frá sínum heimabyggðum. Þetta er það vandamál sem er verið að leita að og við þurfum að takast á við.

En ég legg engan dóm á frv., vildi aðeins að hér kæmi fram hvernig þyrfti, að ég held, að fara nákvæmar ofan í þær skýrslur sem frv. er unnið eftir.