26.11.1986
Efri deild: 15. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 1168 í B-deild Alþingistíðinda. (1006)

186. mál, Húsnæðisstofnun ríkisins

Flm. (Þórður Skúlason):

Virðulegi forseti. Ég gæti að sjálfsögðu, eins og býsna margir aðrir í þessari hv. deild, haldið langa ræðu um byggðamál, byggðastefnu og þróun málefna á landsbyggðinni, hvernig þau mál hafa þróast til hins verri vegar á allra síðustu árum og hver hlutur stjórnarstefnunnar er í þeirri þróun. Ég get tekið þátt í því á við hvern annan. Ég held að þessi þróun, þó hún hafi verið slæm nú, hafi á síðustu árum verið síst verri en hún var t.d. á viðreisnarárunum.Ég man það langt. Ég bjó úti á landi á þeim tíma. Ég held að þó ástandið sé slæmt núna hafi það verið enn þá verra þá, einmitt þegar Sjálfstfl. og Alþfl. sátu saman í ríkisstjórn, því þá var reglulega hart vegið að landsbyggðinni á margan hátt.

Ég er nokkuð undrandi á þeim viðtökum sem það mál fær sem hér er til umræðu. Þær forsendur sem ég hef gefið mér fyrir því að leggja fram þessa hugmynd hérna virðast allir taka undir. Hins vegar eru menn ákaflega vantrúaðir á að þessi lausn, sem ég hef hérna sett fram, geti raunverulega leyst þann vanda sem við er að eiga. Ég er mjög hissa á þessum viðbrögðum vegna þess að ég hef ekki heyrt að það kæmu fram nein efnisleg rök til að draga þá ályktun af því sem ég hef sett hér fram. Mér finnst þau viðbrögð fyrst og fremst vera sleggjudómar og lítt á rökum byggð.

Það hefur m.a. komið fram athugasemd við það sem ég set fram um að kaupa tiltölulega fáar eignir á hverjum stað, það geti orðið til að leysa markaðinn úr þeirri kreppu sem hann er í. Ég held að þetta sé einmitt mjög raunhæft. Ég held að það sé nauðsynlegt að leita einhverra leiða til að gera þetta. Ég held að þær ástæður sem liggja að baki því áliti sem hér hefur komið fram hjá mönnum, að það sé ekki hægt að gera þetta með þessum hætti, séu raunverulega þær að menn eru svo trúaðir á samkeppnina og markaðinn. Ég held að menn verði að láta af þeirri trú og reyna að finna einhverja lausn til að leiða þessi mál til lykta og það beri að gera með því að reyna að hafa stjórn á markaðnum.

Húsnæðismál eru hér með þeim hætti að húsnæði er mikið í einkaeign og það eru lítil opinber afskipti af því hvernig þessi mál þróast. Ég hygg að það sé með allt öðrum hætti hér en í nálægum löndum. Með því að líta til þeirra, hvernig þetta er gert þar, hvernig sveitarfélögin grípa inn í þetta í nálægum löndum, með aðstoð ríkisvaldsins jafnvel, tel ég að sé hægt að komast að þeirri niðurstöðu sem ég hef hér lagt til að yrði til lausnar á þessum vanda. Ég held að menn verði að hverfa frá því að einblína á markaðinn, að hann skuli vera frjáls, og leita lausna í þessu máli sem ég held að geti falist í þeim hugmyndum sem ég hef sett fram.