26.11.1986
Efri deild: 15. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 1172 í B-deild Alþingistíðinda. (1010)

186. mál, Húsnæðisstofnun ríkisins

Egill Jónsson:

Virðulegi forseti. Já, menn gerast málglaðir út af frv. sem er til umræðu. Ég hafði reyndar ekki mikið skoðað þetta mál því að ég held að það sjái hver maður í hendi sinni að þær hugmyndir sem liggja hér að baki eru út í hött.

Ég get vel fallist á að ýmsir erfiðleikar steðja að landsbyggðinni. Við höfum hins vegar verið að heyra núna síðustu dagana að það sé orðin mest eftirspurn eftir vinnuafli þar. Ég held að það sé óumdeilanlegt að auðvitað er landsbyggðin og afkoman þar í takt við atvinnulífið.

Af því að Alþýðubandalagsmenn hafa verið sérstaklega að belgja sig í þessari umræðu má kannske minna þá á að um sama leyti og þeir létu af stjórn, rétt fyrir síðustu kosningar, sögðu þeir að það þyrfti að setja á sérstaka neyðaráætlun til að ná fram bærilegri stöðu í atvinnu- og efnahagsmálum í þessu landi. Það kemur þess vegna úr hörðustu átt þegar þessir virðulegu þm. eru að belgja sig upp eftir að búið er að koma skikk á atvinnulífið í landinu eftir að þeir hafa verið hafðir utan dyra þetta kjörtímabil. En fyrir utan þetta er það reyndar eftir öðru í þessum málflutningi að mér sýnist sú grg., sem hér er lögð fram og er væntanlega grundvöllur að þeim ákvörðunum sem hér eru lagðar til, meira en vafasöm. Um þetta skal ég ekki fullyrða á þessu stigi málsins. Hér kemur t.d. ekki fram hvort raungildi eigna hafi gengið saman úti á landi eða ekki. Það kemur reyndar ekki fram hvort línuritið á bls. 4, um söluverð íbúðarhúsnæðis frá 1966 til 1985, sé yfir markaðinn í Reykjavík eða fasteignamarkaðinn allan. Nú hefur 1. flm. tjáð mér að þetta línurit sé yfir fasteignamarkaðinn í Reykjavík. Ég held að ég hafi tekið rétt eftir. Þá er afar athyglisvert að það er einmitt í stjórnartíð Alþb. sem fasteignamarkaðurinn í Reykjavík, hér í þéttbýlinu, fer að stíga. Það er kannske ekki alveg að ástæðulausu að menn merki það ekki inn á línuritið yfir hvaða byggðarlag það nær. Það er athyglisvert að það er á allra síðustu árum sem fasteignamarkaðurinn er að ganga niður í Reykjavík ef marka má línuritið. Þetta er meira en vafasöm framsetning og tæplega frambærileg á Alþingi. Það er dæmalaust að þm. þess flokks sem hefur verið við stjórnvölinn og farið með þau ráðuneyti sem hafa haft jafnmikil áhrif á efnahagsþróun í landinu og raun bar vitni um frá síðustu ríkisstjórn skuli tala af þeirri heilögu vandlætingu sem hér um ræðir á sama tíma og þeir eru að útbýta í þessari virðulegu deild línuritum og öðrum tiltækum upplýsingum um hvað gerist einmitt þegar þeir eru að stjórna landinu. Þá rýkur fasteignaverðið upp hér á þéttbýlissvæðinu.

Eins og ég sagði áðan hef ég ekki enn getað glöggvað mig á því í þessu plaggi - hef reyndar ekki haft til þess langan tíma - hvort raungildi eigna úti á landi hafi gengið saman eða ekki. Það getur vel verið að það hafi breikkað - Það er reyndar ekki hægt að draga það í efa - bilið á milli fasteignamarkaðarins í Reykjavík og úti á landi. Það er óumdeilanlegt. En ég fæ ekki séð hver er ástæðan fyrir því. Mér sýnist hún vera sú að Alþb. var við stjórn þegar fasteignamarkaðurinn í Reykjavík gekk upp og að fasteignamarkaðurinn sé ekki búinn að taka enn þá að fullu mið af bærilega stöðugu verðlagi í landinu. Þetta sýnist mér vera ástæðan.