26.11.1986
Neðri deild: 15. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 1175 í B-deild Alþingistíðinda. (1014)

158. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Gunnar G. Schram:

Herra forseti. Ég hef hug á að leggja nokkur orð í belg í þeim umræðum sem staðið hafa um frv. til laga um breytingu á lögum um tekjuskatt og eignarskatt.

Það frv. sem kynnt var hér og rætt allítarlega á síðasta fundi deildarinnar felur í sér tímabærar og verulegar breytingar á skattbyrði einstaklinga að því er tekur til tekjuskattsins. Með því er stigið verulegt skref að því marki sem um hefur verið rætt síðustu þrjú árin, að afnema tekjuskatt af almennum launatekjum.

Kjarni þessa frv. er að mjög er dregið úr því mikla ranglæti sem falist hefur til þessa í álagningu tekjuskatts á nauðþurftartekjur manna og er jafnframt viðurkenning á því að hann hefur á síðari árum fyrst og fremst verið ranglátur launamannaskattur. Þetta markmið frv. kemur greinilega fram ef litið er á það hve verulega það mun hækka skattleysismörk einstaklinga frá því sem verið hefur en það er kannske einna bestur mælikvarðinn á þær ráðstafanir sem verið er að gera með þessu lagafrv. Að meðaltali munu hjón með tvö börn ekki byrja að greiða skatta til ríkisins fyrr en tekjur þeirra hafa náð um 960 þús. kr. á ári eða af um 80 þús. kr. tekjum á mánuði. Þær mánaðartekjur, um 80 þús. kr., hjá slíkri fjölskyldu munu því verða tekjuskattslausar skv. ákvæðum þessa frv. ef það verður að lögum. Hjón með eitt barn munu ekki þurfa að greiða tekjuskatt af um 840 þús. kr. árstekjum og skattleysismörk barnlausra hjóna verða að meðaltali 720 þús. kr. árstekjur sem þýðir að um 60 þús. kr. mánaðartekjur þeirra verða skattlausar. Hér er ástæða til þess að nefna að allt eru þetta meðaltalstölur. Vitanlega geta ýmis dæmi komið öðruvísi út vegna mismunandi frádráttar. En engu að síður er það ljóst af þessum upplýsingum, sem er að finna í grg. frv. og leiðir af efnisákvæðum þess, að hér er um ótvíræðar og verulegar skattalækkanir að ræða.

Á því hefur oft verið vakin athygli í þingsölum, herra forseti, að sá hópur manna sem einna verst er staddur fjárhagslega í þjóðfélaginu eru einstæðir foreldrar. Með þessu frv. er stigið stórt skref til þess að bæta hag þeirra að því er varðar skattamál, með lækkun þess tekjuskatts sem þeir munu þurfa að greiða. Einstætt foreldri með tvö börn á framfæri byrjar ekki að greiða skatt fyrr en við um 740 þús. kr. árstekjur eða um 60 þús. kr. mánaðartekjur. Einstætt foreldri með eitt barn mun ekki greiða tekjuskatt af um 50 þús. kr. mánaðartekjum skv. frv. Þetta er því mikil og tímabær breyting frá því sem verið hefur, breyting sem hefur verið á stefnuskrá ríkisstjórnarinnar frá því hún tók við völdum og til staðið að framkvæma í áföngum.

Í þeim fyrirheitum sem í upphafi voru gefin var markið sett við afnám tekjuskatts af almennum launatekjum eins og það var orðað og margoft hefur verið endurtekið. Það er því fróðlegt í þessu sambandi að bera saman tölur um almennar launatekjur á þessu ári og þau skattleysismörk sem ráðgert er að lögleiða með þessu lagafrv. Skv. upplýsingum sem ég hef nýlega fengið frá kjararannsóknarnefnd gerði nefndin könnun á því í apríl á þessu ári hverjar væru meðaltekjur iðnaðarmanna og verkamanna á landinu. Niðurstöður þeirrar könnunar eru að þá voru meðaltekjur iðnaðarmanna, með inniföldum öllum álögum en án eftirvinnu sem vitanlega er mjög mismunandi, 44 þús. kr. á mánuði. Hjón sem bæði hafa upp undir slíkar tekjur, svo að dæmi sé tekið, munu því engan tekjuskatt greiða af þeim tekjum á næsta ári, skv. ákvæðum frv. Meðallaun verkafólks í apríl, skv. upplýsingum kjararannsóknarnefndar, voru 32 800 kr. á mánuði með inniföldum álögum en án eftirvinnu. Skattleysismörk einstaklinga eru um 400 þús. kr. skv. þessu frv. þannig að slíkar tekjur eiga því að verða tekjuskattslausar eða því sem næst.

Þessar upplýsingar kjararannsóknarnefndar um meðallaun fólks með almennar atvinnutekjur sýna því svo vart verður um villst að í höfuðdráttum má segja að af slíkum tekjum mun tekjuskattur ekki greiðast skv. þessu frv. á næsta ári. Ekki verður því með réttu annað sagt en að með þessari skattalagabreytingu hafi ríkisstjórnin staðið í meginatriðum við þau fyrirheit sem gefin voru um það að almennar launatekjur skyldu gerðar tekjuskattsfrjálsar á þessu kjörtímabili. Ég vek sérstaka athygli á þessu atriði vegna síendurtekinna fullyrðinga, sem sýknt og heilagt hafa verið bornar fram af talsmönnum stjórnarandstöðunnar og raunar einnig af mörgum fylgismönnum stjórnarflokkanna, að ekki hafi verið staðið við þau fyrirheit sem gefin voru við síðustu kosningar um lækkun tekjuskattsins og raunar afnám hans af almennum launatekjum á þessu kjörtímabili. Efni frv. sem er til umræðu og upplýsingar kjararannsóknarnefndar um meðallaunatekjur í landinu sýna að slíkar fullyrðingar eiga ekki við mikil rök að styðjast.

Að því leyti til markar þetta frv. nokkur tímamót með breytingu þeirri sem í því felst á þeim rangláta launamannaskatti sem tekjuskatturinn tvímælalaust er. Það mun vonandi eiga sinn þátt í því að greiða fyrir þeim nýju kjarasamningum við aðila vinnumarkaðarins sem nú standa fyrir dyrum. Við þetta má bæta til enn frekari áherslu á þetta atriði að árið 1983, þegar þessi ríkisstjórn tók við völdum, var hæsti jaðarskattur til ríkisins 50%. Nú verður hæsti jaðarskattur sem menn greiða af tekjum sínum til ríkisins ekki nema 36,6% eftir þessar breytingar og ég er hér að tala um tekjuskattinn ef miðað er við 10% fastan frádrátt við skattframtal. Sú breyting sýnir svart á hvítu hve mikið hefur þó áunnist í því efni að lækka tekjuskattinn á skattgreiðendum þessa lands.

Við þetta má síðan bæta þeim upplýsingum sem á var minnst í umræðu um frv. á fundi deildarinnar í fyrradag að skattbyrði einstaklinga sem hlutfall af þjóðarframleiðslunni mun verða á næsta ári 4,6% en 1982, síðasta heila árið áður en núverandi ríkisstjórn tók við völdum var þessi sama prósenta 6,1%. Hér er verulegur munur á, allt að því 30% munur, sem skattbyrði sú sem einstaklingar greiða til ríkisins verður lægri en hún var árið 1982. Enn má minna á þá staðreynd að nú eru 10 000 fleiri framteljendur en 1983 sem ekki greiða neinn tekjuskatt.

En þótt hér séu stigin mikilsverð skref í skattamálum er þó ýmislegt annað óunnið á þeim vettvangi. Í því sambandi má minna á ályktanir verkalýðshreyfingarinnar og Alþýðusambandsins um skattamál en það er eitt meginmálið sem til umræðu mun verða í þeim kjarasamningum sem nú eru að hefjast.

Ég vil fyrst og fremst nefna þrjú atriði í þessum efnum. Enn ríkir verulegt misrétti að því er varðar skattlagningu tekna heimilisins eftir því hvort bæði hjónin eða aðeins annað vinnur fyrir tekjunum. Á því var vakin sérstök athygli á kirkjuþingi sem nýlokið er og um það birtar þar athyglisverðar tölur. Öll sanngirnisrök mæla með því að skattlagning hjóna verði hin sama af sömu tekjum og annarra, þó að teknu tilliti til kostnaðar við dagvistun barna og annarra slíkra atriða þegar fyrirvinnurnar eru tvær. Það er vitanlega alveg rétt sein á hefur verið bent í umræðum um skattamál, bæði innan þings og utan, að vitanlega er meiri kostnaður samfara heimilisrekstri þegar báðir foreldrar vinna utan heimilisins.

Í öðru lagi er nauðsynlegt að taka upp staðgreiðslu skatta, svo sem verkalýðshreyfingin hefur nýlega ályktað um, en frv. um það efni er í undirbúningi í fjmrn. eins og hæstv. fjmrh. gat um er hann flutti framsöguræðu fyrir frv. þessu í fyrradag hér í deildinni.

Loks má það ekki lengur dragast að ráðstafanir verði gerðar til þess að draga úr þeim skattsvikum sem eiga sér stað í þjóðfélaginu og talin eru í skýrslu sem fjmrh. lagði fyrir síðasta Alþingi nema 2,5-3 milljörðum kr. á ári.

Að þessum verkefnum verður brýnast að vinna í skattamálum á næstunni, samfara þeirri grundvallarbreytingu á skattakerfinu sem nú er unnið að í fjmrn. og raunar einnig utan þess, og gera skattakerfið mun einfaldara og réttlátara en það kerfi sem við búum við í þessum efnum í dag.