26.11.1986
Neðri deild: 15. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 1184 í B-deild Alþingistíðinda. (1017)

158. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Halldór Blöndal:

Herra forseti. Ég vil taka undir þau orð sem hv. síðasti ræðumaður sagði áðan að augu manna hafa opnast fyrir því í ríkara mæli á síðustu áratugum að tekjuskatturinn er launamannaskattur. Sá maður sem fyrst setti þá skoðun fram með skipulögðum og sannfærandi hætti var Ólafur Björnsson prófessor fyrir um tveimur áratugum síðan. Það tókst nú að vísu ekki meðan Sjálfstfl. var í ríkisstjórn með Alþfl. á þeim tíma að stíga nógu stór skref í þá átt að lækka tekjuskattinn en hitt man ég að eftir að formaður Alþfl., Gylfi Þ. Gíslason, komst í stjórnarandstöðu flutti hann um það þáltill. að tekjuskattur skyldi með öllu afnuminn. Ég man eftir því að þeir Alþýðuflokksmenn voru mjög stoltir af þessu framlagi þess formanns og ég heyrði á formanni flokksins nú að hann vill enn minna á þessa skoðun Alþfl. í stjórnarandstöðu, að hann sé reiðubúinn til þess að lækka tekjuskattinn þegar aðrir ráða ferðinni.

En hver var reynsla manna af Alþfl. síðast þegar hann átti aðild að stjórnarsamstarfi í septembermánuði 1978? Var reynslan sú að fyrstu breytingarnar sem Alþfl. stóð að á lögum um tekju- og eignarskatt væru þær að lækka tekjuskattinn, minnka hlutdeild hans í þjóðartekjunum? Nei, síður en svo. Fyrsta skref Alþfl. á þeim árum var að ákveða það að útflutningsbætur á landbúnaðarafurðum skyldu að fullu greiddar, að það skyldi m.ö.o. rofið það þak sem Ingólfur Jónsson setti á sínum tíma um það að útflutningsbætur mættu ekki nema hærri tölu en 10% af heildarverði landbúnaðarvara og Gylfi Þ. Gíslason studdi sem viðskrh. í viðreisnarstjórninni að rjúfa þetta þak og teygja sig miklu hærra en Sjálfstfl. hafði áður viljað. Og hvað var það annað sem Alþfl. gerði þá? Hann beitti sér fyrir mjög víðtækum breytingum á lögum um söluskatt og allar þessar breytingar gengu út á að fjölga undanþágum sem er gagnstætt því sem formaður Alþfl. prédikar nú.

En hvernig aflaði Alþfl. fjár á þeim tíma þegar hann fékk tækifæri til að sýna vilja sinn í verki gagnvart tekjuskattinum? Hvernig fjármagnaði hann þau útgjöld og það tjón sem ríkissjóður hafði orðið fyrir? Með því að setja brbl. um það að álagning tekjuskatts og eignarskatts skyldi fara fram öðru sinni á því herrans ári 1978. Alþfl. undi ekki þeirri álagningu sem gerð hafði verið um sumarið, heldur var skattstjórunum gert að leggja nú á landslýð að nýju sérstakan tekjuskattsauka og sérstakan eignarskattsauka. Og það er athyglisvert að þeir menn sem stóðu fyrir þessari sögulegu hækkun tekjuskattsins, kjarni þeirra manna sem stóð fyrir því, eru einmitt það lið sem formaður Alþfl. hefur nú í kringum sig hér í þingsölunum. Við tökum eftir því þegar formaður Alþfl. er að prédika það að hann vilji draga úr heildarskattheimtu ríkissjóðs, við tökum eftir því. Hann talar þeirri tungu, tæpitungulaust, og hann er skýrmæltur og þessi skilaboð berast út um alla landsbyggðina að formaður Alþfl. vilji lækka tekjuskattinn, alveg með sama hætti og formaður Alþfl., Gylfi Þ. Gíslason, vildi lækka tekjuskattinn, meðan þessir tveir menn voru í stjórnarandstöðu. En við heyrum líka hér inni á Alþingi aðrar raddir og þar kveður við annan tón. Þar eru menn að ræða um það að þeir vilji auka hin ýmsu útgjöld ríkisins.

Nú hefur það verið gagnrýnt af formanni Alþfl. að ríkissjóður sé rekinn með halla og við viljum trúa því kannske að hann sé þeirrar skoðunar að hann vilji ekki reka ríkissjóð með halla. Þá verður hann líka um leið að útskýra hvernig hann ætlar að standa undir þeim miklu útgjöldum sem félagar hans í Alþfl. hafa lagt til og vonandi líka í fullri alvöru. Ég hygg að það verði erfiðar stjórnarmyndunarviðræður ef til þess kemur að leitað verði til Alþfl. um það eftir kosningar hvort hann vilji fara í ríkisstjórn. Þá hygg ég að erfiðast verði fyrir Alþfl. að reyna að samræma þessar skoðanir formannsins og hinna sem honum fylgja hvað dyggast í öðrum málum en þeim að lækka ríkisútgjöldin og lækka skattana. Ég hygg að það verði svolítið erfitt.

Við skulum líka koma inn á annað atriði. Hann sagði það, formaður Alþfl., í ræðu sinni á mánudag og ýjaði að því hér áðan að ríkisstjórnin hefði við afgreiðslu síðustu fjárlaga staðið við þál. um skattamál sem kæmi til framkvæmda á þremur árum, á árunum 1985, 1986 og 1987. Þá var til umræðu í deildinni frv. ríkisstjórnarinnar um breytingar á lögum um tekju- og eignarskatt, það frv. og þau lög sem við búum nú við og það sem þessi hv. þm. gagnrýnir nú hvað ákafast. í Alþingistíðindum segir formaður Alþfl. um afstöðu sína til tekju- og eignarskattsfrv. - Þetta er stutt ræða og á ekki að tefja fyrir deildinni - með leyfi hæstv. forseta:

„Herra forseti. Með 3. gr. þessa frv. er lagt til að skattfrelsismörk til eignarskatts verði lækkuð og á þannig að hækka eignarskatt af eignum umfram launahækkanir. Alþfl. telur þetta ranga stefnu og hefur lagt til að þessi skattfrelsismörk verði þvert á móti hækkuð og mun byggja brtt. sínar við frv. til fjárl. 1986 á því. Minni hl. leggur því til að 3. gr. frv. verði felld en mælir með samþykkt frv. að öðru leyti“, sem sagt að öllu því leyti sem veik að tekjuskattinum.

Nú skulum við rifja upp: Hvað var það sem Þjóðhagsstofnun sagði á þeim tíma um hver væri skattbyrði tekjuskattsins á árinu 1985 Og hver væri skattbyrði tekjuskattsins á árinu 1986? Ég tek aftur fram, og ég geri ráð fyrir að þingheimur viti það, að þessi hv. þm. tekur mikið mark á opinberum skýrslum. Ég tala nú ekki um ef það eru skýrslur Þjóðhagsstofnunar og vill nú, vona ég, telja að það sé sama hvar niður er gripið í slíkum áætlunum. Í desemberáætlun segir í vinnuplaggi Þjóðhagsstofnunar að skattbyrði á árinu 1985 verði 4,4%. Á sama tíma telur Þjóðhagsstofnun að tekjuskattsbyrðin miðað við þau fjárlög sem við þá samþykktum yrði 4,6% og eftir gerð kjarasamninga 4,5%. Á þessum tíma frá des. og fram í endurskoðun í maí á s.l. ári telur Þjóðhagsstofnun að skattbyrðin fyrir yfirstandandi ár hafi lækkað úr 4,4 í 4,2%. Nú er ég að tala um skattbyrðina á árinu 1985. Skattbyrðin er síðan í plaggi sem frá Þjóðhagsstofnun kemur 20. nóv. dottin niður í 3,9%, er mér sagt. Ég hef ekki þau plögg hjá mér en ég þykist hafa tekið rétt eftir. Skattbyrðin hefur m.ö.o. lækkað, að mati Þjóðhagsstofnunar, frá sama tíma fyrir einu ári, um 0,5%.

Það vekur líka eftirtekt að á sama tíma og Þjóðhagsstofnun heldur þessu fram hækkaði hún áætlaða skattbyrði yfirstandandi árs og var komin upp í 4,9% í maí s.l., virðist halda sig við þessa sömu skoðun nú í nóvembermánuði. Ég skal ekki um það segja hvað Þjóðhagsstofnun muni um það segja í desembermánuði en ég held að það sé alveg ljóst, eftir því sem ég hef rakið, að ógjörningur er með öllu að ganga út frá því að áætluð skattbyrði einstaklinga eitthvert tiltekið ár að mati Þjóðhagsstofnunar gefi rétta mynd þannig að hægt sé að fara út í nákvæman samanburð fyrr en einu ári eftir að viðkomandi ári lýkur. Það er ekki fyrr en nú í nóvembermánuði að fyrir liggur að skattbyrðin er komin niður í 3,9%. Ég er hér með plagg frá Þjóðhagsstofnun um áætlaða skattbyrði 12. sept. s.l. fyrir árið 1985, þá heldur Þjóðhagsstofnun sig enn við 4,2%. Bara á þessum tveimur mánuðum hefur hún lækkað um 0,3%, ekki alveg um 10% en svona hátt í það, kannske 7,5% eða 8%, eitthvað svoleiðis.

Þetta segir okkur náttúrlega að það er ekki mjög gætilegt ef menn vilja koma nálægt sannleikanum að treysta um of á þennan samanburð. Nú vil ég líka segja að ég efast ekki um að formaður Alþfl. hafi viljað jafnvel fyrir einu ári og nú standa við þá þál. sem hann vitnaði til og ég hef ekki alveg í huganum hvernig er orðuð, það skiptir ekki máli. En ef hann fyrir einu ári taldi að við þál. yrði staðið með því að áætluð skattbyrði á þessu ári yrði 4,6% sem verður að ætla að hann hafi talið úr því að hann sá ekki ástæðu til þess að flytja brtt. um tekjuskattsfrv. á síðasta þingi. Ég tek fram að ég hef flett upp á þeim málum sem Alþfl. hefur flutt varðandi tekjuskattinn og þá kemur í ljós að hann hefur ekkert frv. flutt á síðasta þingi, ekki eitt einasta frv. sem snertir álagningu tekjuskatts í heild. Hann hefur flutt breytingar við lög um tekjuskatt og eignarskatt sem snýr að tannlæknum, ef ég man rétt. Ég held að varaformaður Alþfl. hafi gert það og ég held að ég geti glatt varaformann Alþfl. líka með því að góðar vonir standa til þess að Sigurjón Benediktsson, einkavinur hennar á Húsavík, muni kannske ganga til liðs við hana í næstu kosningum þar sem honum finnst varaformaðurinn sterkur talsmaður tannlækna og er ekki nema gott um það að segja. Þetta er snjall maður og munar um hann hvar sem hann leggur sig fram þannig að ég vil nú óska henni til hamingju með það, honum til hamingju með það herra forseti, það á víst að segja hann um þingmenn en ekki hún, ég bið nú afsökunar á því. Manni verður svona á að kyngreina þingmann. En þannig er nú þetta.

Við stöndum sem sagt í þeim sporum, við þessir áhugamenn um það að lækka tekjuskattinn og viljum kannske sumir ganga lengra en afkoma ríkissjóðs leyfir, við viljum ganga hratt í þessu efni, og ég er áhugamaður um það eins og formaður Alþfl. raunar.

Nú var það svo þegar gengið var til kjarasamninganna á s.l. vetri að ég og ýmsir aðrir töldum að það væri mikið áhugamál launþega að tekjuskatturinn yrði lækkaður. Við höfðum búist við því að svigrúmið sem gæfist til þess yrði kannske fyrst og fremst til þess notað. En þá kom annað atriði upp, sem ég get út af fyrir sig skilið launþegahreyfinguna í, og það var að hún vildi koma til móts við þá sem minnstar tekjur hafa. Ég held að allir þm. séu um það sammála að þær breytingar sem gerðar hafa verið á tekjuskattinum hníga fyrst og fremst að því að hækka greiðslumörkin þannig að sá hópur stækki sem ekki greiðir tekjuskatt. Um leið og við stækkum þann hóp, fjölgum þeim sem ekki greiða tekjuskattinn, þá hefur það þau áhrif að æ stærri hluti ríkistekna fer í það að greiða útsvör fyrir viðkomandi menn. Æ stærri hluti fer til þess að greiða útsvörin, standa undir útsvörunum. Þannig hefur lækkun tekjuskattsins tvöföld áhrif. Þetta hefur valdið því að mjög óhægt er um vik að lækka skattstigana verulega þegar um takmarkað fjármagn er að ræða. Það er af þessum sökum sem athygli manna hefur í vaxandi mæli beinst að því að það kunni að vera skynsamlegt að varpa fyrir róða því tekjuskattskerfi sem við búum nú við, einfalda það. Sumir tala um það að rétt sé að taka upp flatan skatt og ég held að flestir séu nú að verða sammála um það að rétt sé að taka upp staðgreiðslu skatta.

Ástæðan fyrir því að menn eru fúsari til þess nú en áður að taka upp staðgreiðsluskatt er sú að menn hafa ekki lengur það hagræði af verðbólgunni í sambandi við skattbyrðina sem þeir höfðu þegar verðbólgan óx frá einu ári til annars. Á þeim tíma var það einfaldlega þannig að skattbyrðin, byrði beinna skatta, lækkaði í beinu hlutfalli við þá óstjórn sem var í efnahagsmálunum að öðru leyti. Ef verðbólgan vex um 50% þá var augljóst að beinir skattar sem miðast við tekjur fyrra árs lækka mjög verulega. Við getum séð þetta mjög greinilega ef við tölum t.d. um það fé sem sveitarfélögin hafa til umráða. Við munum það að á mestu verðbólguárunum töluðu sveitarstjórnarmenn mjög mikið um það hversu illa þeim nýttist útsvarsstofninn af þessum sökum og ég held að óhætt sé að fullyrða að ýmis sveitarfélög hafi annaðhvort orðið að neita sér um nauðsynlegar framkvæmdir eða stofna til tilfinnanlegra skulda vegna þess hvernig verðbólgan fór með útsvörin. Þetta hefur síðan snúist við og ég held að menn hljóti að vera sammála um það að útsvarstekjur sveitarfélaganna nýtast þeim miklu betur nú en þær gerðu þegar verðbólgan lék lausum hala. Nú getum við rætt um það hvað við viljum gera, hvaða breytingar við viljum helst gera á tekjuskattinum.

Ég tók svo eftir að hv. 3. þm. Reykv., Svavar Gestsson, ég vona að ég fari rétt með, ef svo er ekki þá mun ég sleppa þeim athugasemdum sem ég hef við það að gera, en ég tók eftir að hann hafi sagt það hér áðan að með þeirri einföldu aðferð að fella niður vaxtafrádráttinn þá fengi ríkissjóður 800 millj. í sinn hlut. Var þetta misheyrn hjá mér? (SvG: Haltu áfram.) Ég var að tala um að ef við gerðum þá breytingu á frádráttarreglum einstaklinga þá mundi ríkissjóður hagnast um 800 millj. ef allur vaxtafrádrátturinn yrði ... (SvG: Ef það væri allt skattlagt.) ef það væri allt skattlagt. Nú ætla ég ekki að snúa út úr orðum hv. þm. með því að segja að með því að vekja athygli á þessu hafi hann lýst sig andsnúinn því að komið yrði á móti þeim sem eru að eignast þak yfir höfuðið. Ég held að sú hafi ekki verið meining hv. þm., en þessi staðreynd bendir okkur eigi að síður á eina staðreynd í sambandi við skattamálin sem þm. mættu oftar hugsa um og það er hvað margir eru örlátir á peninga úr ríkissjóði ef þeir vita ekki hver upphæðin er, ef þeir gera sér ekki grein fyrir stærð fjárhæðarinnar. Ég er ekki viss um að við værum reiðubúnir til þess að greiða beinlínis úr ríkissjóði 800 millj. kr. á ári vegna þeirra sem eru að eignast þak yfir höfuðið. Ég er ekki viss um að við getum þannig alveg snúið því við. En sama er, auðvitað mundi það mjög einfalda framkvæmd tekjuskattsins ef vaxtafrádrátturinn yrði felldur niður en aðrar reglur einfaldari teknar upp í staðinn. Í sambandi við flatan skatt vil ég líka segja að það verður að hyggja bæði að húsbyggjendum og sjómönnum sérstaklega ef sá skattur yrði upp tekinn.

Ég er sammála Svavari Gestssyni, hv. 3. þm. Reykv., um að nauðsynlegt sé að nefndarmenn fjh.og viðskn. fái tækifæri til að kynna sér þær hugmyndir sem Alþýðusamband Íslands hefur í sambandi við breytingar á skattalögum. Þetta mál snýr líka að launajöfnuði í þjóðfélaginu. Ef aðilum vinnumarkaðarins tekst það nú í þeim kjarasamningum sem yfir standa að bæta kjör þeirra sem verst eru settir, að bæta kjör þeirra sem engan tekjuskatt greiða, þá mundi það auðvelda slíka samningsgerð ef tækist að koma á móti hinum hópunum með aðgerðum varðandi tekjuskatt, þannig að vel get ég tekið undir með hv. þm. að aðgerðir af því tagi gætu greitt fyrir samningum.

Ég held ég fari rétt með það, nú verð ég líka að játa að það eru tveir dagar síðan ég hlýddi á formann Alþfl. hér, ég held ég fari rétt með það að hann hafi komist svo að orði í sinni ræðu að skattastefna þessarar ríkisstjórnar bitnaði á þeim sem hefðu lægstu tekjurnar. Er það rétt munað? (JBH: Hefði gert í vissu tilviki, já.) Nú veit ég ekki hvað hann kallar lægstu tekjur en ég held að þetta sé algjörlega rangt og ég hefði gaman af því ef hann mundi útskýra, ekki endilega nú í þingsalnum, en þá í fjh.og viðskn., hvar þetta gat er, hvar það kemur fram að skattastefnan hafi íþyngt þeim sem minnstar hafa tekjurnar. Þetta er ekki í samræmi við þá tilfinningu sem ég hef og væri fróðlegt að fá að sjá þetta. Hitt er alveg rétt að þeir sem hafa haft hæstar tekjurnar hafa fengið nokkra þyngingu skattbyrði nú á þessu ári og þá komum við náttúrlega að einu mjög merkilegu atriði í öllum þessum málflutningi, þegar við tölum um heildarskattbyrði, tölum um tekjuskatt og annað, þá komum við að þessu: Gátum við búist við því fyrir fram að hægt yrði að koma verðbólgunni svo niður sem raun ber vitni án þess að nokkur þyrfti að leggja nokkuð á sig í þjóðfélaginu? (JBH: Hún er nú að fara úr böndunum aftur.) Gátum við búist við því?

Falin er í illspá hverri

ósk um hrakför sýnu verri.

Ég heyri að formaður Alþfl. brosir yfir því að verðbólgan fari nú aftur úr böndunum en við skulum vona að það hafi ekki verið þannig meint samt. Nú veit ég að fyrir kosningar gæti verið gaman að því að hafa enn eitt atriðið sem hægt sé að áfellast ríkisstjórnina fyrir en við skulum vona að þeim mönnum sem stríðast á í þjóðfélaginu takist að ná því samkomulagi að verðbólgan haldist í skefjum. Við skulum vona það og reyna að tala a.m.k. út frá þeirri forsendu.

Ég var áðan að tala um það að ekki hafi verið við því að búast að enginn yrði fyrir skakkaföllum þegar verðbólgan er komin svo mikið niður. Við vitum að sumir hafa hagnast á verðbólgunni, aðrir tapað, það er nú eðli verðbólgunnar, og nú hefur tekist að koma henni þetta mikið niður.

Það var niðurstaðan í samningunum að leggja áherslu á lækkun hinna óbeinu skatta. Við vitum líka að sú ákvörðun sem þá var tekin að lækka fyrirframgreiðslu reyndist ekki rétt. Sú staðreynd hversu mikill hluti tekjuskattsins kemur til greiðslu síðari hluta þessa árs veldur því að skattbyrðin er í hugum margra þyngri en hún raunverulega er. Og við getum m.a.s. teygt okkur enn lengra aftur. Fyrirframgreiðsla skatta núna miðast við þær tekjur sem menn höfðu á árinu 1984. Síðan varð mikil raunhækkun tekna á s.l. ári og þá greiddu menn skatta sína af hinum lágu tekjum árið áður og einmitt það ár kom líka til þess að verulegur hluti þegnanna átti í erfiðri kjaradeilu sem enn varð til þess að auka þennan mun. Fyrirframgreiðslan var síðan miðuð við þá skatta sem viðkomandi var gert að greiða á árinu 1985. Þetta veldur því að þunginn af skattgreiðslunum nú síðari hluta ársins er miklum mun meiri en eðlilegt getur talist og einmitt sú reynsla sem við höfum af því hlýtur að ýta mjög undir okkur um það að reyna að ná því máli fram að staðgreiðslukerfi skatta verði upp tekið.

Nú skal ég aftur víkja að áætlaðri skattbyrði einstaklinga á þessu ári. Ég veit ekki hvaða skoðun Þjóðhagsstofnun hafði á því í maímánuði hvernig samningarnir mundu reynast. Ég held á hinn bóginn að flestir eða allir séu sammála um að rauntekjur manna á þessu ári séu mun meiri en gert var ráð fyrir í kjarasamningunum. Hversu mikið veit enginn. En ég held að flestir séu sammála um að launaskriðið sé meira en menn sáu fyrir í maímánuði s.l. Ég held að í mörgum greinum atvinnulífsins hafi uppgrip verið mikil og þar fram eftir götunum. Þegar þessi kurl verða komin til grafar hlýtur að koma í ljós að skattbyrðin sé raunverulega mun minni en felst í hinni gömlu spá Þjóðhagsstofnunar frá því í maímánuði. Þetta vil ég að fram komi. Formaður Alþfl. segir að vísu að deilur um skattbyrði ættu að vera óþarfar ef menn treystu þeim gögnum sem birtar eru af opinberri hálfu. Ég hef ekki nýjasta vinnuplagg Þjóðhagsstofnunar en ég þykist hafa gengið úr skugga um að þegar talað er um skattbyrðina í ár sé enn miðað við endurskoðunina í maí.

Ég veit ekki, herra forseti, hvort ástæða er til að hafa um þetta fleiri orð. Fyrir liggur að skattbyrðin í heild hefur lækkað í tíð þessarar ríkisstjórnar. Menn geta talað um að það sé minna en þeir höfðu vænst eða meira en þeir höfðu vænst, það hlýtur ævinlega að vera álitamál, en hitt liggur fyrir að skattbyrðin hefur lækkað. Það liggur líka fyrir að skattbyrði tekjuskattsins hefur lækkað frá því sem var áður en þessi ríkisstjórn tók við völdum. Ég er ekki í vafa um að sú niðurstaða Þjóðhagsstofnunar sé rétt að skattbyrðin s.l. ár af beinum sköttum sé minni en nú, einfaldlega vegna þess að tekjumunur þessara ára var mun meiri en tekjumunurinn nú og í fyrra, það er eðli eftirágreiddra skatta. En ég held að óhætt sé að fullyrða að skattbyrðin er ekki jafnmikil og kom fram í spá Þjóðhagsstofnunar í maímánuði s.l