26.11.1986
Neðri deild: 15. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 1194 í B-deild Alþingistíðinda. (1023)

193. mál, fasteigna- og skipasala

Landbúnaðarráðherra (Jón Helgason):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til l. um breytingu á lögum um fasteigna- og skipasölu, nr. 34 5. maí 1986, á þskj. 204. Þau lög voru samþykkt á s.l. vori. Þegar að því kom að hefja undirbúning að framkvæmd þeirra þá þótti það ákvæði, sem tekur fram að þeir sem hafa fengið útgefin leyfi til fasteignasölu skv. lögum nr. 47 1938, skuli hafa sett tryggingu þá sem krafist er að þeir setji skv. hinum nýju lögum, ekki nægilega ótvírætt en augljóst var að ætlast er til í lögunum að allir þeir sem slíkt leyfi hafa hafi slíka tryggingu. Af þeim sökum varð það að ráði að endurskrifa 16. gr. laganna, svo og 2. mgr. 21. gr. til þess að taka þarna af öll tvímæli. Að öðru leyti er ekki um breytingu að ræða.

Ég legg til að að lokinni þessari umræðu verði frv. vísað til 2. umr. og hv. allshn.

Umræðu (atkvæðagreiðslu) frestað.