27.11.1986
Sameinað þing: 22. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 1201 í B-deild Alþingistíðinda. (1034)

180. mál, stefnumótun í umhverfismálum

Hjörleifur Guttormsson:

Herra forseti. Það var fyrir um tíu dögum að ég mælti hér í Sþ. fyrir þingmáli 90, sem er till. til þál. um úrbætur í umhverfismálum og náttúruvernd, flutt af þm. úr Alþb., till. sem hefur legið fyrir tveimur fyrri þingum og liggur hér fyrir í þriðja sinn og hefur nú verið vísað til allshn. þingsins. Nú er fram komin till. á þskj. 190 til þál. um stefnumótun í umhverfismálum. Það er ekki óeðlilegt að aðeins sé litið á þessi þingmál í einhverju samhengi og að hve miklu leyti þessi till. frá hv. þm. Sjálfstfl. er ólík þeirri till. sem þegar liggur fyrir í þingnefnd. Eitt er strax ljóst, þegar litið er yfir till. sjálfstæðismanna, að hún er mun almennari og gengur miklu skemur í sambandi við áherslur varðandi þessa stefnumótun, alveg sérstaklega að því er varðar samræmd tök þessara mála í Stjórnarráði Íslands.

Hv. 1. flm., Gunnar G. Schram, sem mælti áðan fyrir þessu máli, tók það enn skýrar fram en lesa má út úr tillögutextanum að flm. eru ekki að hugsa um sérstakt umhverfisráðuneyti eða ráðuneyti sem fari með umhverfismálin heldur fyrst og fremst að reyna að koma á einhverri skipulegri yfirstjórn umhverfismála í Stjórnarráði Íslands og samstarfi aðila, eins og þetta er orðað í tillögutextanum. Þannig sætir þessi till. sannarlega engum tíðindum nema ef það væri fyrir þá sök að hér er verið að leggja til að horfið verði frá þeirri stefnu sem ríkisstjórnin þóttist ætla að hafa og lýsti yfir í upphafi ferils síns að hún ætlaði að hafa í sambandi við umhverfismál og náttúruvernd. Það er verið að leggja til í lok kjörtímabilsins að stíga til baka að þessu leyti og væntanlega móta um það stefnu að stofna ekki umhverfisráðuneyti því að engin áhersla er á það lögð í þessari till. og við hljótum að lesa það svo að sá sé hugur flm. Ef annað væri á döfinni hlytu þeir að leggja það til.

Að öðru leyti er í þessari till. rétt tæpt á nokkrum atriðum sem er tekið miklu ákveðnar og skýrar á í þáltill. á þskj. 90 sem ég mælti fyrir í síðustu viku og drepið í grg. á nokkra áhersluþætti sem tengjast því máli og liggja þegar fyrir í þinginu. Ég ætla sannarlega ekkert að hafa á móti því að menn lýsi skoðunum sínum og flytji tillögur í sambandi við þennan geysilega þýðingarmikla málaflokk, síður en svo, og það væri sannarlega fagnaðarefni ef í þessum tillöguflutningi, sem hér er til umræðu, fælist einhver ný áhersla og einhver von um stefnubreytingu af hálfu Sjálfstfl. í þessum málaflokki. En ætli það sé á döfinni og ætli það sé í boði? Ég inni hv. 2. þm. Reykn. eftir því hver sé afstaða ráðherra Sjálfstfl. í ríkisstjórn til efnis tillögu hans og alveg sérstaklega til þess, sem ég hef flutt tillögur um og Alþb. hefur mótað um stefnu, að sameina helstu þætti umhverfismála í einu ráðuneyti sem a.m.k. bæri heiti umhverfismála ef ekki væri stigið skrefið til fulls, sem við höfum lýst fylgi við, að stofna sérstakt umhverfisráðuneyti.

Hverjar hafa verið undirtektir ráðherra Sjálfstfl. í ríkisstjórninni við þeim veiku tilburðum sem hæstv. félmrh. hefur haft uppi í sambandi við þessi mál og er það efni út af fyrir sig að rekja þau ósköp sem hafa gengið á á þeim bæ eða réttara sagt þær brigður á efndum á yfirlýsingum sem hæstv. félmrh. hefur ítrekað og margoft gefið úr þessum ræðustól ár eftir ár þegar hann hefur verið inntur eftir því hverjar væru efndirnar á loforðum og fyrirheitum í þessum málum. Það hefur alltaf verið að koma, ef ekki í næstu viku þá þeirri þar næstu, sem sagt alveg innan seilingar. Nú höfum við nokkrir hv. þm. í Sþ., fyrstur hv. 7. landsk. þm. Kristín Halldórsdóttir, borið fram fsp. Enn einu sinni er borin fram fsp. til hæstv. félmrh.: Er þess að vænta að það komi fyrir yfirstandandi þing frv. til l. um umhverfismál sem fylli í þær eyður sem eru í þeim efnum í mengunarmálum og fjölmörgum öðrum þáttum og kveði á um stjórnun þessara mála og endurskipun innan Stjórnarráðs Íslands? Hæstv. félmrh. á eftir að svara þessari fsp. sem lögð var fram á þinginu í fyrradag að ég hygg.

Ferill ríkisstjórnarinnar í þessum málum er alveg með fádæmum. Hann er það á mörgum sviðum, en þessi málaflokkur sker sig úr að því leyti að ríkisstjórnin þóttist ætla að taka þarna á honum stóra sínum, þóttist ætla að gera góða hluti, en efndirnar eru nákvæmlega engar og raunar minni en engar í þessum efnum. Það er hægt að fara yfir feril ráðherranna lið fyrir lið og sýna fram á hvernig þeir hafa þæfst fyrir á þeim sviðum sem heyra undir þeirra ráðuneyti. Það er alveg frá toppi og niður úr.

Ég veit ekki hver virðingarröðin er nákvæmlega hjá þessum tíu. En níu ráðuneyti nefndi hv. 2. þm. Reykn. að þessi mál heyrðu undir, umhverfismálin, svo að þetta varðar níu af tíu ráðherrum samkvæmt hans skilgreiningu og allir hafa þeir þæfst fyrir í þessum efnum, gefið yfirlýsingar en svikið með félmrh. í fararbroddi. En ég tek skýrt fram: Hlutur ráðherra Sjálfstfl. er þarna síst betri og ég hef ástæðu til að ætla að enn minni hugur fylgi máli hjá þeim í þessum efnum en hjá ráðherrum Framsfl. sem ég trúi ekki öðru í ljósi flokksyfirlýsinga og annars sem þeir hafa fram haldið í orði að einhver áhugi blundi á bak við og vísa m.a. í samþykkt flokksþings Framsfl. sem var að reyna að lyfta þessu máli á pappírnum og breiða yfir vanefndirnar og aðgerðarleysið.

Ég ætla, herra forseti, ekki að syndga frekar upp á náðina í þessum efnum. Ég get tekið frekari þátt í umræðunni ef ástæða er til, en ég vildi vekja athygli á þessu um leið og ég sannarlega fagna allri hreyfingu í rétta átt í þessum málaflokki og er ekkert að misvirða góðan hug hv. 2. þm. Reykv. til þessara mála sem oft hefur komið fram, bæði í tillöguflutningi í formi frumvarpa til laga og einnig í þessari þáltill. þó að ég telji að hún sé í rauninni spor aftur á bak miðað við það sem menn ættu að vera að glíma við núna.