27.11.1986
Sameinað þing: 22. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 1205 í B-deild Alþingistíðinda. (1036)

180. mál, stefnumótun í umhverfismálum

Davíð Aðalsteinsson:

Herra forseti. Aðeins örfá orð. Hér hefur verið vikið að ýmsum þáttum umhverfismálanna í tilefni till. til þál. um stefnumótun í þeim málum. Ég vil segja það fyrst að mér kom þessi tillöguflutningur nokkuð á óvart, ekki síst með það í huga að ég geng ekki að því gruflandi að hv. 1. flm. er fullkunnugt um þann ásetning sem a.m.k. á sínum tíma ríkti milli stjórnarflokkanna um meðferð þessa máls.

Ég ætla hins vegar ekkert að átelja hann fyrir að flytja þetta mál. Við stjórnarsinnar leggjum mörg mál í vald þeirrar ríkisstjórnar sem við styðjum þá og þá. En svo getur farið að við verðum langþreyttir á því að bíða eftir úrslitum í þeim málum sem ríkisstjórnir strengja þess heit að fylgja fram. Ég hygg þrátt fyrir allt að þessi till. til þál. sé fram komin einmitt vegna þess.

Um málsmeðferðina vil ég segja það enn fremur að ég hefði þrátt fyrir allt kosið að um slíkt mál yrði breiðari samstaða. Nú get ég vel skilið að hv. alþm. hafi löngun til að hafa frumkvæði í málum og er það vel og það er nauðsynlegt. En ekki síst með í huga umhverfismálin eins og þau koma mér fyrir sjónir vegna umræðna um þau, ekki aðeins úti í samfélaginu heldur líka á meðal alþm., er ekki svo mikið sem skilur á milli okkar þarna. Ég fullyrði það. Ekki síst þess vegna hefði verið ástæða til breiðari samstöðu um flutning slíks máls.

Nú er hægt að velta fyrir sér málsmeðferð. Það er rétt, sem hér hefur verið komið að, að frumvörp hafa komið fram um umhverfismálin á undanförnum árum. Það er líka rétt að það var ákveðið á sínum tíma að umhverfismálin yrðu vistuð, ef ég má svo að orði komast, í félmrn. Raunar á sú ákvörðun rót að rekja til ríkisstjórnarinnar sem sat frá 1974 til 1978, samþykkt sem gerð var innan þeirrar ríkisstjórnar, ef ég man rétt, 18. apríl 1978. Þá lá fyrir fullbúið frv. um umhverfismál og sú ríkisstjórn samþykkti að það frv. skyldi lagt fram og forgöngu um það mál hefði þáv. hæstv. félmrh. Og það var gert. Frv. var lagt fram, en það náði ekki fram að ganga eins og margoft hefur komið fram.

Hér hefur ýmsum verið brigslað um vanefndir og seinagang í þessum málum. Hv. þm. Hjörleifur Guttormsson lét ekki sitt eftir liggja í þeim efnum. Ég tek það fram sérstaklega að ég er hv. þm. hjartanlega sammála um ýmislegt að því er varðar meðferð umhverfismála og bera þau orð mín vitni þess að hér er ekki ríkjandi neinn djúpstæður ágreiningur um meðferð þessara mála. En a.m.k. á tímabili í ræðu hv. þm. fannst mér gæta nokkurs sem stundum hefur verið kallað að kasta grjóti í glerhúsi. Ég minni á að á ríkisstjórnarárunum 1980-1983 voru samin tvö frumvörp um umhverfismál. Að vísu byggðu þau frumvörp bæði að meginhluta til á því frumvarpi sem hafið var að semja 1975 og lagt var fyrst fram 1978. Þessi tvö umræddu frumvörp, sem samin voru ekki síst undir hatti félmrn., það vita allir hver fór með félagsmálin á þeim tíma, komu aldrei fram. Þau voru samin. Líklega hafa þau verið fullbúin að mestu leyti. En þau voru aldrei lögð fram. Ég minni á þetta einfaldlega vegna þess að ég held að það sé ekki góður siður í þessu máli að við séum að kenna hver öðrum um. Við eigum öll vissa sök á því að af brautargengi þessara mála hefur ekki orðið svo sem við vildum að væri.

Ég skal játa að ég hef orðið fyrir miklum vonbrigðum með framgang ríkisstjórnarinnar í þessu máli. Mér er fullkunnugt um að við upphaf ríkisstjórnarinnar voru töluð stór orð og því var heitið að það skyldi allt yfir menn ganga fyrr en þetta mál yrði ekki í höfn. Því miður sér maður ekki fyrir sér á þessari stundu að frv. komi fram. Ég veit þó hins vegar að það er unnið að málinu og það hafa verið gerðar tilraunir til að ná samstöðu.

Nú er sú samstaða ekki einvörðungu að því er varðar ríkisstjórnina sjálfa. Mér er kunnugt um að það hefur verið leitað viðhorfa hjá forsvarsaðilum hinna einstöku ráðuneyta sem fjalla um hina ýmsu málaflokka sem tilheyra umhverfismálum. Það er mala sannast að í ráðuneytunum, það fullyrði ég, sé hver höndin uppi á móti annarri. Sannleikurinn er sá að þar togar hver í sinn skækil.

Spurningin er því þessi: Er ríkisstjórnin af slíkum myndarskap að hún treysti sér að gera um það ákveðna tillögu hvaða málaflokkar, sem tilheyra umhverfismálum, fari í eina og sömu stjórnardeildina. Ég læt liggja á milli hluta hvort stofnað yrði sérstakt umhverfismálaráðuneyti eða hvort þessi mál, eins og samþykkt hefur raunar verið og sú samþykkt er gömul, heyri undir félmrn. Það eru ýmis rök sem mæla með því. Þetta gæti gerst eða þá það að Alþingi beinlínis og þá hugsanlega í tengslum við meðferð þeirra tillagna sem hér liggja fyrir ákvæði hvaða málaflokkar umhverfismálanna færu undir svokallaða stjórnardeild sem færi þá með umhverfismál, Alþingi beinlínis tæki á því máli og ályktaði um það, bryti ísinn. Það er um þetta tvennt að ræða.

Ég er að sjálfsögðu jákvæður gagnvart þeim tillögum sein hér liggja fyrir og sennilega eru fleiri en ég þeirrar gerðar að vera nokkurn veginn sama hvaðan gott kemur. En þekkilegra hefði mér þótt ef hv. flm. till. sem hér er til umræðu, og þá vil ég jafnframt víkja orðum mínum að hv. þm. Hjörleifi Guttormssyni sem stóð fyrir flutningi líkrar tillögu, sem er að vísu miklu fyllri þótt ekki sé þar nefnt allt undir sólinni, hefðu sameinast um flutning tillögu og kannske aflað fulltingis fleiri pólitískra afla á hv. Alþingi.