27.11.1986
Sameinað þing: 22. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 1207 í B-deild Alþingistíðinda. (1037)

180. mál, stefnumótun í umhverfismálum

Eiður Guðnason:

Herra forseti. Hér er sannarlega ekki um neitt pólitískt ágreiningsmál að ræða. Ég hygg að allir þeir flokkar sem fulltrúa eiga á hinu háa Alþingi geti tekið undir og geti stutt efni þessarar tillögu vegna þess að hér er um að ræða mál sem búið er að ræða býsna lengi. Um efnishlið málsins hygg ég að sé ekki ágreiningur á Alþingi, enda þótt ríkisstjórnin hafi guggnað á því að leysa þetta mál sem var þó býsna ofarlega á verkefnalista hennar, þegar hún tók til starfa fyrir senn fjórum árum. Þetta er staðreynd sem er umhugsunarefni fyrir okkur alþm.

Um efnislega hlið þessa máls er ekki ágreiningur. Hins vegar mætti sitthvað segja um þau vinnubrögð sem hv. 1. flm. og félagar hans hafa viðhaft í þessu máli. Um það mætti setja á töluvert langar ræður og hvort það er málinu vænlegast til framgangs að bera sig si svona að eins og hér hefur verið gert. Það held ég að sé ekki. Auðvitað er það út af fyrir sig athygli vert og umhugsunarefni að þessir sjö þm. Sjálfstfl., annars ríkisstjórnarflokksins, skuli þurfa að flytja hér till., skora á sína eigin ríkisstjórn að gera það sem þeirra eigin ríkisstjórn lýsti yfir í upphafi kjörtímabilsins að hún ætlaði að gera. Auðvitað hefði það, eins og hér hefur verið á bent, verið miklu vænlegra málinu til brautargengis að skapa um þetta breiðari stuðning. Ég hygg að það hefði ekki staðið á þm. úr öðrum flokkum að skrifa upp á tillögu þessa efnis. Ég er alveg sannfærður um það. En hvers vegna kusu þessir sjö sjálfstæðismenn að fara þessa leið? Var það til að tryggja að málið yrði ekki samþykkt, liggur manni við að spyrja? Ef það hefði verið ætlunin að ná þessu máli hér fram og skapa um það breiðan stuðning hefði átt að leita fulltingis alþm. úr fleiri flokkum.

Um þessi mál er búið að ræða árum saman og bent hefur verið á alla þá ágalla sem eru samfara því að þessi mál heyra undir mörg ráðuneyti. Þingmenn, sem sóttu alþjóðlega ráðstefnu Norðurlandaráðs um loftmengun yfir landamæri, kynntust því m.a. þegar farið var að athuga afstöðu Íslendinga til þeirra mála hvernig þar rak sig eitt á annars horn í afstöðu ráðuneytanna og hve furðulega afstöðu það ráðuneyti, sem mestan tiltrúnað hefur nú hlotið í þessu sambandi, félmrn., hafði í sambandi við afstöðu okkar til undirskriftar eða staðfestingar á sáttmála um loftmengun sem kenndur er við Helsinki. Það kom satt að segja á óvart og þurftu ýmsir að láta segja sér tvisvar eins og ákveðin persóna í sögunum til að trúa. Það var með ólíkindum og bar satt að segja vott um að þeir embættismenn, með fullri virðingu fyrir þeim, sem mótað höfðu þá afstöðu, vissu raunar ákaflega lítið, að mínu mati, um hvað málið snerist.

Við höfum séð að undanförnu hvað er að gerast á Norðurlöndunum í þessum efnum. Við höfum séð þann vanda sem Danir eiga við að glíma vegna mengunar af völdum tilbúins áburðar og af völdum mykju raunar líka sem notuð er sem áburður ekki síður. Við höfum séð, síðast í sjónvarpinu fyrir fáeinum kvöldum, hvernig selastofninn í Eystrasalti er nú kominn. Ég vona að sem flestir hv. þm. hafi séð þá mynd þar sem um 60-70% af selastofninum í Eystrasalti, sem telur ekki lengur nema 15 þúsund dýr, eru að drepast vegna mengunar og vegna sjúkdóma sem eru afleiðing af þeim óþverra sem mannskepnan hefur losað í þetta haf.

Það skulum við vita að þó að við búum í eylandi úr alfaraleið, eins og sumir segja, erum við ekkert fjarri þeirri mengun eða loftmengun sem á sér stað og sköpuð er í Evrópu. Hún kemur hingað. Öll vandamál Evrópuþjóðanna, hvort sem það er Norðurlandaþjóðanna eða annars staðar í Vestur-og Mið-Evrópu, berast hingað með einhverjum hætti. Það tekur bara misjafnlega langan tíma. Þessi vandi er ekki orðinn áleitinn. Hann er ekki orðinn alvarlegur hér enn þá þótt hans sjái víða vott. Þess vegna eigum við tækifæri til þess að takast á við þessi mál með kannske betri árangri en ýmsum grönnum okkar hefur tekist. Þess vegna þurfum við að samræma stjórn þessara mála. Ég er hiklaust þeirrar skoðunar að þar sem mikilvægi umhverfisverndar á örugglega eftir að fara ört vaxandi væri skynsamlegast fyrir okkur að vera ekki að klína þessum málum á mörg ráðuneyti, illa mönnuð, illa búin, sem hafa þegar ærið á sinni könnu. Við eigum að viðurkenna hvers eðlis þetta mál er og við eigum að fela það einu, nýju ráðuneyti. Ég held að það sé eina skynsamlega leiðin í þessu máli.

Herra forseti. Efnislega getur ekki verið ágreiningur um þessa tillögu í stórum dráttum. Hins vegar ber að harma hver vinnubrögð hafa verið viðhöfð við flutning málsins og þau eru ekki líkleg til að skapa málinu brautargengi, því miður. En vonandi tekst þó að ná hér á þinginu, áður en þing verður rofið, samstöðu um aðgerðir í þessum málum vegna þess að það er ljóst að ríkisstjórnin getur ekki leyst þetta verkefni, enda þótt það væri ofarlega á hennar málalista fyrir tæpum fjórum árum. Þess vegna verður þingið að taka þetta mál í sínar hendur, taka völdin af ríkisstjórninni, móta hér einarða og skynsamlega stefnu. Þau vinnubrögð sem þessir sjö þm. Sjálfstfl. hafa viðhaft eru, eins og ég segi, því miður ekki til þess fallin að veita þessu máli brautargengi og greiða leið í gegnum þingið. Þar hefði verið skynsamlegra að fara aðrar leiðir og tryggja breiðari stuðning við málið.