27.11.1986
Sameinað þing: 22. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 1210 í B-deild Alþingistíðinda. (1039)

180. mál, stefnumótun í umhverfismálum

Halldór Blöndal:

Herra forseti. Þessar umræður hafa verið fróðlegar og ástæða til þess að láta í ljósi ánægju yfir því, sem maður raunar vissi, að þm. hafa miklar áhyggjur af umhverfismálum og vilja koma þeim málum í fastara horf. Fyrir okkur sem stóðum að flutningi þessarar tillögu lá fyrst og fremst á bak við sú hugsun annars vegar að vekja athygli á málinu og hins vegar að undirstrika þann vilja okkar að ríkisstjórnin gerði áætlun um stefnumótun í umhverfismálum og væri tilgangur þeirrar áætlunar sá að efla alhliða umhverfisvernd og varnir gegn hvers konar mengun og öðrum skaðlegum umhverfisáhrifum, jafnframt því að vinna að varðveislu og sem skynsamlegastri nýtingu náttúrugæða landsins. Það er auðvitað rétt sem kom fram að það má hafa þennan tilgang fyllri, það má fara út í einstök atriði. Aðalatriðið er að það er mjög gott að þingið skuli taka þessi mál til meðferðar. Ég get ekki tekið undir það að við séum með þessum hætti að svíkja einn eða neinn, að við séum að bregðast einum eða neinum. Út af fyrir sig skiptir það ekki höfuðmáli hvort þessi tillaga verður samþykkt. Hitt er kjarni málsins að þm. taki höndum saman um það að samræma skoðanir sínar í umhverfismálum og að það náist fram að löggjöf verði sett um þau efni. Það er þetta sem fyrir okkur vakir.

Ég get alls ekki tekið undir það að það séu eitthvað skringileg vinnubrögð þó að sjálfstæðismenn undirstriki þau viðhorf sem þeir hafa í þessum málum og setji fram almenna stefnumörkun varðandi umhverfismál. Þetta hefur verið viðtekin regla í sölum Alþingis í viðamiklum og viðkvæmum, flóknum málum að einstakir flokkar undirstriki með þessum hætti áhersluatriði sín í viðkomandi málum. Ég þykist geta sýnt fram á það um þá flokka alla sem hafa staðið að ríkisstjórnum að einstakir þm. hafi á misjöfnum tíma séð ástæðu til samsvarandi yfirlýsingar af sinni hálfu, þó svo að þeirra flokkar hafi verið í stjórnarsamstarfi við aðra flokka. Hjá Kvennalistanum hefur ekki komið til þess enn að fulltrúar hans hafi með þessum hætti séð ástæðu til þess að lýsa einstökum áherslum en ekki mundi mér þykja það vond tilhugsun ef við gömlu skólasystkinin, ég og hv. 7. landsk. þm., ættum það eftir - ég vil nú ekki segja ættum það eftir að fara í eina stjórnarsæng en: ættum eftir að standa saman að stjórn landsins og styðja sömu ríkisstjórn.