27.11.1986
Sameinað þing: 22. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 1212 í B-deild Alþingistíðinda. (1043)

180. mál, stefnumótun í umhverfismálum

Hjörleifur Guttormsson:

Herra forseti. Það skiptir nú ekki öllu hvaða landshluti leggur þessum málum lið ef það er jákvætt og lasta ég það ekki þó að þm. Vesturl. hafi látið að sér kveða í umræðunni. Ég held hins vegar að það sé ekki rétt að álykta sem svo á þessu stigi máls að einhugur eða samstaða ríki um þetta efni. Ég held að ástæðan fyrir þessari hörmulegu niðurstöðu, því hversu lítið hefur miðað áfram í þessum málum, litið nokkuð til baka og þá ekki síst í tíð núverandi ríkisstjórnar sem ætlaði sér mikið skv. yfirlýsingum en hefur ekkert gert til að þoka málum fram í þá átt, sé sú að áhuginn sé ekki sá í reynd sem stundum er lýst í orði og ætla mætti af þeim tilburðum og tillöguflutningi sem hér er til umræðu. Ég held að það sé þessu máli ekki til góðs að ætla að breiða yfir að það er ljóslega verulegur ágreiningur í þessum efnum, hvert menn vilja stefna, og hann birtist m.a. í því að umræddir þm. Sjálfstfl. tala ekki um ráðuneyti sem fái yfirstjórn þessara mála í hendur, eitt ráðuneyti, heldur aðeins um samræmingu mjög almennt. Og ráðherrar sama flokks í ríkisstjórn hafa hver um annan þveran staðið gegn því að sameina þá meginþætti sem þarna eru til umræðu og tilheyra þeirra ráðuneytum undir einu ráðuneyti, félmrn., sem mest hefur verið um rætt í þessu samhengi. ég hygg að hæstv. menntmrh., sem situr hér einn úr tíu manna hópi, geti í rauninni staðfest þetta. Undir hann heyrir Náttúruverndarráð og gildir þættir þessara mála. Þannig að ég held að menn þurfi í raun að horfa framan í að þarna er greinilegur ágreiningur um málstök.

Ég vil ekki þar með segja að menn séu ekki áhugasamir um það að koma í veg fyrir háskalega mengun á Íslandi og hafsvæðum í kringum landið. En það þarf talsvert til, að haga málum þannig að draga úr mengun og koma í veg fyrir hugsanlega mengun, svo dæmi sé tekið.

Ég held að það sé mjög gagnlegt að þessi mál séu rædd hér, ég held að það sé nauðsynlegt að ræða þau í nokkurri hreinskilni. Og ég held að hið þýðingarmesta fyrir þennan málaflokk og fyrir þá sem hafa áhuga á framgangi hans hér, hvar í flokki sem þeir standa hér á Alþingi, sé að gera sér ljóst að líkurnar á að ná árangri í því sem mestu skiptir nú, þ.e. endurskipulagningu stjórnarráðsins með tilliti til þessa málaflokks, tengjast því fyrst og fremst að ný ríkisstjórn, því að núverandi er sem betur fer að syngja sitt síðasta og falla á tíma, marki stefnu í þessum málum í málefnasamningi og gangi frá endurskipulagningu áður en menn festast í ráðherrastólum. Þess vegna er það sannarlega mjög gott að þessi mál séu rædd og það þarf að ræða þau innan flokkanna þannig að það sé skýrt fyrir kjósendum í komandi kosningabaráttu hvert flokkarnir vilja halda í þessu stóra máli, hver stefna þeirra er í reynd, ekki bara einstakra þm. í flokkunum, hvað þeir vilja gera að kosningum loknum varðandi yfirstjórn þessara mála, áherslu á þessi mál, fjárveitingar til þessara mála. Í þeim efnum hefur Alþb. gert hreint fyrir sínum dyrum með landsfundarsamþykktum og tillöguflutningi hér á Alþingi þing eftir þing. Ég hef tekið eftir því að Framsfl. talar í orði um að leggja áherslu á þessi mál og það er byrjunin, það er vel, þó að lítið sjáist eftir þá í tíð ríkisstjórnarinnar í þessum málum. En sjálfstæðismenn sem flytja hér tillögu um þetta efni, ég hygg að þeir séu langþyngstir í þessum efnum, langþyngstir í raun, a.m.k. hef ég ekki séð neitt marktækt í yfirlýsingum og samþykktum flokksins um þessi mál.