27.11.1986
Sameinað þing: 22. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 1213 í B-deild Alþingistíðinda. (1044)

180. mál, stefnumótun í umhverfismálum

Davíð Aðalsteinsson:

Herra forseti. Ræða hv. 1. þm. Vesturl. vakti furðu mína, ekki síst þau orð hans að aðrir hv. þm. Vesturl. hefðu komið í þennan ræðustól einvörðungu í þeim tilgangi að nöldra út í þessa tillögu. Þá hefði maður búist við, að þeim orðum hv. 1. þm. Vesturl. sögðum, að hann hefði gert tilraun til þess að fara efnislega ofan í þessi mál, viðra skoðanir sínar sem auðvitað fara saman við tillöguflutninginn, að hann hefði gert tilraun til þess að gera frekari grein fyrir tillögunni. Hann er einn af flm. hennar. En það var aldeilis ekki. Niðurstaða mín er sú að hv. ágætur þm. hafi einvörðungu komið í þennan ræðustól til þess að nöldra og vera með ómerkilegar umvandanir vegna orða samþm. sinna.