27.11.1986
Sameinað þing: 22. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 1216 í B-deild Alþingistíðinda. (1050)

Greiðslur afurðastöðva til bænda

Egill Jónsson:

Herra forseti. Það er að sjálfsögðu virðingarvert hjá hv. 5. þm. Austurl. að spyrja ríkisstjórnina eftir því sem hún er ýmist búin að eða er um þessar mundir að leysa. Ég vek athygli á því að það er síst meiri dráttur á lausn þessara mála núna en verið hefur, m.a. á þeim tímum sem hv. þm. og fyrirspyrjandi var í ríkisstjórn.

En það sem vekur óneitanlega sérstaka eftirtekt mína er það tillitsleysi og vanmat sem hv. þm. hefur á rétti framleiðendanna í þessum efnum, á rétti bændanna í landinu, sem reyndar er alveg ótvíræður. Það er vert að undirstrika að það sem komið hefur fram, m.a. í útvarpi að undanförnu, um getuleysi afurðastöðva byggist að sjálfsögðu á þeim mikla misskilningi að afurðastöðvar eiga ekkert val í þessum efnum. Það er lögbundið að greiða út afurðaverðið. Að sjálfsögðu hafa þeir sem keyptu gert sér það ljóst þegar þeir festu kaup á vörunni.

Ég vil þessu til staðfestingar lesa upp álit þriggja lögmanna við svari sem þeir voru beðnir að gefa hér á Alþingi þegar búvörulögin voru í meðferð í hv. Nd. Þessir lögmenn voru Jón Þorsteinsson, Benedikt Blöndal og Gaukur Jörundsson. Í svari þeirra segir svo, með leyfi forseta:

„Að lokum viljum við taka fram að í 18. gr. frv. er því slegið föstu að enginn megi kaupa eða selja búvöru innanlands á öðru verði en ákveðið hafi verið samkvæmt ákvæðum þess. Skiptir því engu hvort um er að ræða umboðssölu eða ekki. Framleiðanda ber það grundvallarverð sem ákveðið hefur verið, hvorki hærra né lægra.“ - Ég endurtek, herra forseti: „Framleiðanda ber það grundvallarverð sem ákveðið hefur verið, hvorki hærra né lægra.“

„Í 29. gr. frv. eru ákvæði um gjalddaga. Heimilt er að semja um aðra gjalddaga, en slíkir samningar hljóta að vera einstaklingsbundnir. Ef frv. verður að lögum falla núgildandi samningar í þessu efni úr gildi, hvort sem þeir eru einstaklingsbundnir eða fólgnir í stofnsamþykktum félaga, og ber að fara eftir reglum 29. gr. nema nýir samningar takist um aðra greiðslutilhögun en þar er ákveðin.“

Á móti framleiðslulögunum greiddi hv. 5. þm. Austurl. atkvæði og á móti þeirri mikilvægu réttarbót sem hér fékkst greiddi hann þar af leiðandi atkvæði. Það kemur því úr hörðustu átt þegar þessi maður er að sækja rétt fyrir bændurna á Íslandi eftir þeim lögum sem hann hefur sjálfur verið á móti þegar þau hafa verið til meðferðar á Alþingi.