27.11.1986
Sameinað þing: 22. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 1226 í B-deild Alþingistíðinda. (1060)

184. mál, varaflugvöllur á Akureyri

Pálmi Jónsson:

Herra forseti. Á mörgum undanförnum árum hefur verið rætt um það hver nauðsyn væri að koma upp varaflugvelli fyrir millilandaflugið að og frá Íslandi. Að athugunum á þessu máli hefur verið unnið á vegum flugmálayfirvalda og flugráð og nefndir, sem um þetta hafa fjallað, hafa komist áð niðurstöðu í þessu efni. Rætt hefur verið um a.m.k. fjóra staði sem hugsanlega fyrir varaflugvöll fyrir millilandaflugið, þ.e. Sauðárkrók, Akureyri, Húsavík og Egilsstaði.

Þær nefndir sem um þetta mál hafa fjallað hafa komist að þeirri niðurstöðu að Sauðárkrókur væri álitlegasti staðurinn fyrir varaflugvöll af þessum fjórum og þar með álitlegasti staðurinn á Íslandi og flugráð hefur eindregið lagt til að slík ákvörðun verði endanlega tekin. Hæstv. samgrh. hefur lýst í raun samþykki sínu við þessa stefnu en hann hefur ekki endanlega staðfest þær tillögur sem fyrir liggja um þetta efni vegna þess að enn skortir nokkuð á að tiltekin formsatriði séu leyst varðandi lengingu flugbrautar á Sauðárkróki og aðrar þær aðgerðir sem nauðsynlegar eru fyrir varaflugvöll. Væntanlega munu þau atriði leysast innan skamms og væntanlega þurfa þau formsatriði ekki að koma í veg fyrir endanlega ákvörðun eða staðfestingu á þeim tillögum sem fyrir liggja um þetta efni.

Ég hef ekki við höndina þau gögn sem fyrir liggja um þetta mál, hvorki frá flugráði né frá samgrn., en ég tel að sú athugun sem fram hefur farið hafi verið gerð af fullkominni vandvirkni og þar hafi ekki einungis verið athugaðir þeir möguleikar og þau náttúrlegu skilyrði, sem eru á þessum stöðum og eru mjög breytileg, heldur einnig líklegur kostnaður við framkvæmd þessa máls. Ég tel því að e.t.v. sé verið að gera tilraun til að drepa þessu máli á dreif og hefja um það einhvern kjördæmameting með því að flytja þá till. sem hér liggur fyrir til umræðu. Að sjálfsögðu er alltaf gott um það að segja að athuga stórmál vel áður en hafist er handa um verk. Væri athugunum sem á undan eru gengnar ábótavant þá væri vissulega till. af þessu tagi tímabær. Ég hef hins vegar ekki litið svo á að þær rannsóknir og þær athuganir, sem fram hafa farið á vegum flugmálayfirvalda, hafi verið gerðar út í bláinn og tel að þar hafi verið fullrar vandvirkni gætt. Þess vegna tel ég að taka megi mark á því sem flugmálayfirvöld leggja til um þessi efni.

Ég held þess vegna að við ættum heldur að sameinast um það að reyna að halda svo á málum að stefnt sé í eina átt í þessum efnum. Og að Norðlendingar ættu að sameinast um það að freista þess að fá til þess fjármagn þegar formsatriði eru leyst að hafist verði handa um þetta verk og því hrundið í framkvæmd. Ég bið því hv. flm. þessarar till. að gæta að í þessum efnum og líta til um það hvort ekki sé rétt að við höfum fullt samstarf um þessi efni og fylgjum þeirri stefnu sem yfirstjórn flugmála hefur markað í þessum efnum.

Ég skal ekki flytja um þetta efni langt mál. Ég vil þó aðeins vitna í setningar í fylgiskjali I með þessari till. en það fylgiskjal er undirritað af Sigurði Aðalsteinssyni sem ég kann ekki frekari deili á. (HBl: Hann er sonur Aðalsteins Sigurðssonar.) Já, og ég þekki hann ekkert betur fyrir það. (Gripið fram í: Hann er frá Akureyri.) Þar segir m.a., með leyfi hæstv. forseta:

„Ef við lítum á þá fjóra flugvelli, sem oft hafa verið nefndir í þessu sambandi, og liggja utan veðursvæðis Reykjanesskagans, þá eru aðflugs- og veðurskilyrði líklega best á Sauðárkróki. Síðan koma Egilsstaðir, Húsavík og loks Akureyri.“

Í fylgiskjali með þessari þáltill. er þar með þegar tekið fram að veðurskilyrði, að náttúrufarsleg skilyrði séu lökust á Akureyri af þeim fjórum stöðum sem nefndir hafa verið sem hugsanlegir í þessu skyni. Í annan stað segir hér í sama fylgiskjali, með leyfi hæstv. forseta:

„Blind-aðflugið á Akureyrarflugvelli er hið lakasta af stöðunum fjórum þótt það hafi reynst mjög vel.“

Hér segir vissulega að blind-aðflug að Akureyrarflugvelli hafi reynst mjög vel og því fer betur. Hefði það brugðist hefðu stórslys orðið. En það segir engu að síður að blind-aðflugsskilyrði að Akureyrarflugvelli séu lakari en á öllum hinum stöðunum þremur. Hvort tveggja í senn, aðflugsskilyrði og veðurfarsskilyrði og önnur náttúrufarsleg skilyrði eru þar með lakari á Akureyrarflugvelli en á hinum stöðunum þremur sem nefndir hafa verið og er talið að líklega séu best á Sauðárkróki. Þetta er auðvitað afar mikilvægt mál í þessum efnum öllum. Ef við erum í alvöru að tala um að byggja upp öryggisflugvöll, varaflugvöll fyrir millilandaflugið, þá getum við ekki gengið fram hjá því að athuga veðurfarsskilyrði, aðflugsskilyrði og önnur náttúrufarsleg skilyrði, sem eru nauðsynleg forsenda fyrir því að um öryggi farþega og flugáhafna sé að ræða ef grípa þarf til þess að nýta sér varaflugvöll. Þetta eru meginmál, þetta eru alger meginmál.

Ég leyfi mér svo enn fremur, með leyfi hæstv. forseta, að lesa hér nokkrar setningar úr viðtali við Ingimar K. Sveinbjörnsson, sem er einn reyndasti flugstjóri úr flugstjórnarliði Flugleiða, í blaðinu Íslendingi fyrir nokkrum árum.

Í viðtalinu segir Ingimar að tvær leiðir varðandi Akureyrarflugvöll komi til greina. Í fyrsta lagi óbreytt staðsetning, í öðru lagi nýr flugvöllur út á Gáseyrum, og það er hans tillaga. En varðandi þann flugvöll á þeim stað þar sem hann er nú segir hann m.a. að hann vilji ekki leggja á sína farþega að taka í blindflugi flugvél niður úr suðri í hvössu veðri og hann ræðir mikið um erfiðleika sem fylgja því að hringsóla um Eyjafjörð utan Gáseyrar, vegna þess að þar sé oft bjart þó blint sé og lokað á Akureyrarflugvelli. Hann segir:

„Við flugmenn sem fljúgum að staðaldri til Akureyrar vitum að dimmviðri er oftast meira á Akureyrarflugvelli heldur en á svæðinu við Gáseyri. Gaman hefði ég af að hafa upplýsingar um hve oft ég væri búinn að hringsóla í nálægð Gáseyrar í þokkalegu veðri þegar ekki hefur verið hægt að lenda á Akureyrarflugvelli.“

Flugmaður sem ætlar að lenda á Akureyrarflugvelli hringsólar fyrir utan Gáseyri ef hann ætlar að lenda á Akureyrarflugvelli frá norðri, þ.e. í sunnanátt. Og Ingimar ítrekar að gaman væri að vita hversu oft flugmenn frá Flugleiðum væru búnir að hringsóla á þessu svæði og komast ekki niður á flugbrautina við Akureyri einmitt þegar veðurskilyrði eru þannig. Þess vegna leggur hann til að framtíð Akureyrarflugvallar verði á þann máta að byggja hann upp við Gáseyri. Það er vitaskuld úr sögunni. En ég held að þessi hugmynd þeirra hv. þm. af Norðurl. e. verði líka úr sögunni.