27.11.1986
Sameinað þing: 22. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 1230 í B-deild Alþingistíðinda. (1062)

184. mál, varaflugvöllur á Akureyri

Stefán Guðmundsson:

Herra forseti. Ég ætla aðeins að leggja orð í belg. Ég verð að segja fyrir það fyrsta að ég varð undrandi þegar ég sá þá þáltill. sem hér liggur fyrir. Ég hélt satt að segja að Norðlendingar allir bæru gæfu til að standa saman í þessu máli þegar niðurstöður lægju fyrir sem hinir hæfustu menn hafa unnið að. Ekki er rétt að segja Norðlendingar allir. Þetta er ekki einkamál okkar Norðlendinga. Þetta er málefni allra. Þetta verður öryggisvöllur fyrir Íslendinga alla og reyndar miklu fleiri. Þess vegna bið ég menn að fjalla um þetta mál af sem mestri hófsemi og taka rökum í þessu máli.

Það eru í þessari þáltill. nokkrir punktar sem mig langar til að byrja á að fara yfir. Hér stendur í grg., ef ég má lesa hana, með leyfi forseta:

„Í því sambandi hefur verið rætt um ýmsa staði norðanlands og austan án þess að menn hafi orðið á eitt sáttir um hvar best væri að hafa slíkan flugvöll.“

Það má vel vera að þetta sé að einhverju leyti rétt. Auðvitað verða menn aldrei allir á eitt sáttir, en þeir menn sem kvaddir hafa verið til og unnið hafa þær áætlanir sem niðurstöður munu verða byggðar á hafa orðið á eitt sáttir. Ég hélt satt að segja að flm. þessarar till. vissu það.

Hér segir neðar, með leyfi forseta: "... hvort Akureyrarflugvöllur, sem fyrir er í fullum rekstri, getur ekki þjónað þessu hlutverki með litlum úrbótum.“

Ég átta mig ekki alveg á því hvað menn eru að fara þarna. Ég verð að segja það. Ég næ því bara ekki, en það kemur sjálfsagt fram, um hvað menn eru að tala. Eru menn ekki fyrst og fremst að tala í þessu máli um öryggisþáttinn? Það er það sem vinnan hefur verið lögð í.

Hér stendur einnig í fskj. sem merkt er I og Sigurður Aðalsteinsson skrifar undir, flugstjóri: „Mikið hefur verið rætt um hugsanlegan varaflugvöll fyrir millilandaflugið, en því miður hafa sjónarmið flestra verið lituð af eiginhagsmunum eða héraðaríg.“

Ég ætla að lesa aðeins á eftir áður en ég lýk máli mínu úr þeirri skýrslu sem liggur fyrir. Ég held að það hljóti að vera erfitt að átta sig á því hvað menn eru að fara. Eru það þeir menn sem hafa verið með einhvern héraðaríg, hinir hæfustu flugstjórnarmenn sem til hafa verið kallaðir eða þeir sem sitja í flugráði? Ég held að við séum ekki að gera málinu greiða með að fjalla um það á þennan hátt.

Auðvitað segir Sigurður meira. Hann segir nærri neðst í sinni grg.:

„Blind-aðflugið á Akureyrarflugvelli er hið lakasta af stöðunum fjórum þótt það hafi reynst mjög vel.“

Mér finnst að þetta sanni að Akureyrarflugvöllur er síst inni í þessari mynd.

Hér er einnig á fskj. II viðtal Alberts Jónssonar fréttamanns við Hilmar Baldursson flugmann sem birtist í Ríkisútvarpinu 13. nóv. s.l. Þar segir Hilmar Baldursson: „Ég er sammála þeirri niðurstöðu, sem komist hefur verið að varðandi samanburð á Akureyri og Sauðárkróki, að flugtæknilega og veðurfarslega er Sauðárkrókur mun betri kostur, en ég sé ekki í sjónmáli að búinn verði til varaflugvöllur á Sauðárkróki kostnaðarins vegna.“

Hver eru rökin fyrir þessu? Vita ekki flm. þessarar till. að flugvöllurinn á Akureyri er styttri en flugvöllurinn á Sauðárkóki? Menn eru alveg klárir á því? Er það ekki? Mér heyrist það ekki. Flugbrautin á Akureyri er styttri en flugbrautin á Sauðárkróki. Að vísu er rétt að það er eftir að malbika Sauðárkróksflugvöll, en dettur mönnum í hug að Sauðárkróksflugvöllur verði ekki malbikaður hvort sem hann verður varaflugvöllur eða ekki? Dettur mönnum í hug að þó ekki sé búið að byggja flugstöð við Sauðárkróksflugvöll heldur sé þar lélegur timburskúr, einn sá lélegasti á landinu, verði svo til frambúðar hvort sem við erum að tala um varaflugvöll eða flugvöll sem á að þjóna innanlandsfluginu? Vitaskuld verður byggð flugstöð við Sauðárkróksflugvöll eins og aðra flugvelli.

En af hverju er ekki búið að malbika Sauðárkróksflugvöll? Af hverju ekki? (SJS: Fara ekki peningarnir í flugstöð suður á Keflavíkurflugvelli?) Nei, ekki er það rétt. Menn hafa m.a. verið að bíða eftir ákvörðun í þessum efnum. Menn mega ekki hlaupa yfir þann þátt, sem hefur verið tekinn með inn í þessa mynd, það er að leggja hita í flugbrautirnar á Sauðárkróksflugvelli. Það á sem sé að leggja hita í brautirnar og búa hann þannig afísingarbúnaði. Það yrði fyrsti og eini flugvöllurinn í heiminum sem hefði slíkan búnað. En ég er sannfærður um það, og það segja mér fleiri sem um þetta hafa fjallað af tæknimönnum, að ekki sé vafamál að það muni fleiri vellir og það miklu fleiri fylgja á eftir ef sú tilraun, sem þarna er verið að tala um að gera, mundi gefast vel. Þess vegna hafa menn haldið að sér höndum með það að leggja slitlag á Sauðárkróksflugvöll þangað til þetta lægi fyrir og tilraunin yrði gerð. Það liggur fyrir samþykkt frá bæjarstjórn Sauðárkróks um að heitt vatn sé til staðar til að leggja í þessa framkvæmd.

Í umsögn þeirra sérfræðinga sem fengnir voru til að fjalla um þessi mál kemur óyggjandi fram að Sauðárkróksflugvöllur sé heppilegastur flugvalla til að gegna því hlutverki sem hér er verið að fjalla um. Það er einnig ljóst að varaflugvöllur, og þá er sama hvort hann er á Sauðárkróki eða einhvers staðar annars staðar, en þær skýrslur sem ég hef séð um þetta byggja á því að varaflugvöllur sé á Sauðárkróki, sparar Íslendingum marga tugi milljóna króna á ári. (SJS: Er þá ekki best að fá hann sem fyrst?) Jú, það væri best að fá hann sem fyrst.

En ég verð að segja um þennan sparnað að við megum ekki um of mæna á hann. Það er öryggið sem skiptir hér mestu máli og á að vera númer 1, 2 og 3. Ég viðurkenni að á Sauðárkróki, eins og kemur fram í tillögunni, eru ekki eins og á Akureyri góð hótel, veitingahús. Það er fallegt á Akureyri. Það er rétt. Það er einn fallegasti staður landsins. Það er allt rétt, en menn lenda ekki á því. Ég viðurkenni líka að þar eru fleiri sjoppur og sjallar á Akureyri en á Sauðárkróki. (ÓÞÞ: Menn geta nú lent á því.) Já, menn gætu lent á því fyrir norðan, það er rétt, og hafa gert. En þetta er ekki spurningin. Spurningin er um öryggið. Spurningin er um öryggi farþega og flugáhafna.

Að endingu vil ég lesa aðeins, með leyfi forseta, það sem segir í áliti þeirra manna sem til voru kvaddir um þessa fjóra valkosti. Um Akureyri segir:

„Nefndin telur að möguleikinn til blindflugs á Akureyri sé fyrir ofan það mark sem nauðsynlegt telst til þess að nota þann flugvöll sem varaflugvöll í millilandaflugi.“

Egilsstaðir: „Brautarlengd á Egilsstöðum er um 1500 m, en hægt er að lengja brautina í 1800 m. Nauðsynlegt yrði að skipta alveg um jarðveg. Aðflugsskilyrði eru ekki góð. Umtalsverð hindrun í aðflugi.“

Húsavík: „Flugbrautin er 1560 m. Er talið mögulegt að lengja hana í 2700 m. Lenging þyrfti að vera til norðurs því með lengingu til suðurs yrðu aðflugstæki illa staðsett og líklega ekki hægt að fá hallageisla fyrir aðflug úr suðri. Talið er að undirstaða flugvallarins sé óviss þar sem byggt er á hrauni. Umhverfi vallarins er betra en á Egilsstöðum og Akureyri. Hindrun til suðurenda flugbrautarinnar gerir aðflug óhagstæðara en á Sauðárkróki sem er hindrunarlaust.“

Um Sauðárkróksflugvöll segir, herra forseti, og nú er ég alveg að ljúka máli mínu: „Lengd flugbrautarinnar er 2014 m, en talið er mögulegt að lengja hana tiltölulega kostnaðarlítið um 290 m. Með umtalsverðum kostnaði má fá nánast ótakmarkaða brautarlengingu til suðurs. Undirstaða vallarins er góð.“

Hér er sagt miklu meira um ágæti Sauðárkróksflugvallar, bæði um bygginguna og veðurfarsskilyrðin, en niðurlagsorðin eru þessi: „Með tilliti til ofanritaðs er það sameiginleg skoðun nefndarinnar að Sauðárkrókur sé hagstæðasta valið um varaflugvöll í millilandaflugi og mæti þeim kröfum sem gera verði til slíks flugvallar.“

Undir þetta rita Jóhannes Snorrason flugstjóri, sem var formaður nefndarinnar, Arngrímur Jónsson, Jón Óttar Ólafsson, Magnús Guðmundsson, Reidar Kolsö og Stefán Gunnarsson.

Ég vona að menn sjái að hér hafa hinir hæfustu menn verið kvaddir til til að finna lausn á þessu máli. Ég bið þess vegna menn að tefja ekki framgang þessa máls og efna til óvinafagnaðar, allra síst á milli okkar Norðlendinga.