27.11.1986
Sameinað þing: 22. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 1235 í B-deild Alþingistíðinda. (1064)

184. mál, varaflugvöllur á Akureyri

Halldór Blöndal:

Herra forseti. Það kom mér ekki á óvart að hv. 5. þm. Austurl. gat ekki fjallað um samgöngumál

okkar og öryggismál í öðrum tón en þeim að draga taum þeirra sem honum eru kærastir. Hann kallar

það hernaðarframkvæmdir ef við Íslendingar reynum að búa þannig um okkar öryggi að við getum

verið sæmilega tryggir gagnvart risanum í austri. Á sama tíma og frændur vorir á Norðurlöndum hafa

vaxandi áhyggjur af yfirgangi hins austræna risa stendur þessi þm. hér upp og veifar sprota Þórarins

Þórarinssonar framan í okkur og er nú ekki við góðu að búast ef það var hans gagn og gaman að lesa

skrif Þórarins Þórarinssonar um utanríkismál. Ég verð nú að segja að það væri hægt að hugsa sér

skemmtilegri og hollari lestur ungum piltum en þennan og raunar mesta furða hvað hv. þm. hefur á

ýmsum málum þó skynsamlegar skoðanir að hafa orðið að búa við þetta í æsku sinni.

Ég vil segja það fyrst að það er síður en svo að hægt sé að lesa úr þessari tillögu sem hér liggur

fyrir neina andstöðu við það að hér verði byggður varaflugvöllur búinn fullkomnum tækjum annars

staðar en á Akureyri ef það verður talið af okkur sjálfum og frændþjóðum okkar í

Atlantshafsbandalaginu nauðsynlegt vegna öryggis okkar sjálfra og sameiginlegs öryggis þessara

frændþjóða. Það skyldi enginn maður túlka þessa tillögu á þann veg og er hreinn útúrsnúningur svo

ekki sé meira sagt. Hitt hlýtur að vera eðlilegt að við þm. Norðurl. e. viljum fá úr því skorið hvort þeir

möguleikar sem gert er ráð fyrir í tillögunni séu raunhæfir og hvort minni háttar úrbætur á

Akureyrarflugvelli teljist fullnægjandi sem varaflugvöllur. Ég held að menn verði að skilja tillöguna

eins og hún er orðuð.

Hitt er svo annað mál að ef menn vilja á annað borð verja miklu fé til varaflugvallar hljóta

sjónarmiðin að verða önnur og þá vil ég segja að engu að síður geti komið til álita að kanna hvort sú

hugmynd sé ekki enn tímabær sem sá reyndi flugmaður, Ingimar K. Sveinbjörnsson, gerði grein fyrir í

Íslendingi fyrir tíu árum síðan eða svo, að kannaðir verði möguleikar á því hvað kosti að byggja nýjan

flugvöll við Gáseyri og er skýringin auðvitað sú að á Akureyri er völ á miklu meiri þjónustu hvort sem

við erum að tala í sambandi við öryggismál, hótelrými eða eitthvað annað. Þar er mikið og gott

sjúkrahús, fullkomin læknisaðstoð við hendina ef slys ber að garði, þar er miklu fullkomnara slökkvilið

en á Húsavík og þar fram eftir götunum. Um þessa hugmynd segir Ingimar K. Sveinbjörnsson í sinni

grein sem hv. 1. þm. Norðurl. v. vitnaði til áðan og ég þakka honum fyrir að hafa tekið af mér ómakið

að lesa það upp sem hann gerði hér og vísa til ræðu hans um þau efni. Þeir punktar sem hann minntist á

verða auðvitað líka að koma fram til þess að rétt mynd fáist af því sem Ingimar vill segja. En þar segir

hann, með leyfi hæstv. forseta:

„Um kosti þess að byggja nýjan flugvöll við Gáseyri: Þeir eru að aðflug og brottflugsmöguleikar

yrðu betri, hægt væri að byggja þverbraut inn í Hörgárdal, þá yrði sennilega hægt að lenda í hvassri

austan- og vestanátt. Flugvöllurinn gæfi byggðarlaginu mjög stöðugar samgöngur. Á Akureyri yrði

minni hávaði frá þotum í framtíðinni. Flugvöllurinn yrði góður varaflugvöllur fyrir innanlands- og

millilandaflug.

Gallar: Á byggingu nýs flugvallar þar er aðeins einn galli: hann er lengra frá aðalbyggð.“

Enn fremur segir flugmaðurinn, með leyfi hæstv. forseta:

„Ég tel að nýr flugvöllur á Gáseyri gæti orðið mjög fullkominn flugvöllur. Það er mjög mikill

kostnaður fylgjandi því að gera flugvöll þannig úr garði að aðflugsaðstaðan verði sú sama og er í dag í

Keflavík. Þá framkvæmd er ekki hægt að réttlæta nema um flugvöllinn séu miklir flutningar, þ.e.

farþegar og frakt. Eins og nú er þá eru bara tveir flugvellir á landinu fyrir utan Keflavík sem hafa mikla

flutninga og það eru Reykjavík og Akureyri. Ég tel að með byggingu flugvallar á Gáseyri og

lagfæringu á Reykjavíkurflugvelli þá væri hægt að nálgast mjög aðflugsmöguleika þá sem eru í

Keflavík í dag. Ég tel að strax ætti að hefja rannsóknir á svæðinu við Gáseyri, rannsaka jarðlag, vindátt

og vindstyrkleika og gera þannig rannsóknir á sama tíma á núverandi Akureyrarflugvelli svo bera megi

þær saman.“

Auðvitað bera þessi orð það með sér að þau eru sögð og skrifuð fyrir tíu árum en eftir stendur hitt

ef við á annað borð teljum nauðsynlegt að byggja varaflugvöll sem nýtist bæði vegna öryggis okkar,

vegna þeirrar gæslu sem höfð er uppi frá Íslandi til þess að við getum staðið við okkar hlut sem

fullgildur aðili í varnarsamstarfi vestrænna lýðræðisþjóða og til allrar hamingju eru nú flestir þm. hér

inni þannig gerðir að þeir vilji hyggja nokkuð að öryggi sjálfra sín og barna sinna og taka mark á því

sem er að gerast úti í hinum stóra heimi. Ef við viljum leggja út í slíkt samstarf og ef frændur vorir eru

reiðubúnir til að leggja fram fé að sínum hluta til slíks varaflugvallar verður einnig að endurskoða hvort

sú gamla hugmynd um varaflugvöllinn að Gásum sé enn góð og skynsamleg. Ég held að nauðsynlegt sé

að þessi skoðun komi strax inn.

Það er ekkert launungarmál að það kom þm. mjög á óvart þegar það fréttist á sínum tíma að

ákveðið væri að varaflugvöllur væri staðsettur á Sauðárkróki. Það má færa fyrir því rök að

skynsamlegra hefði verið til dæmis að endurskoða með hliðsjón af þeirri hugmynd önnur

flugvallarstæði í Aðaldal en það sem varð fyrir valinu að lokum og þar fram eftir götunum. Ég skal

ekki hafa um það svo sem fleiri orð.

Hv. 5. þm. Norðurl. v. segir að við Norðlendingar eigum ekki að bítast um það hvaða

framkvæmdir séu gerðar beggja vegna Tröllaskaga. Þó heyrist mér á þm. Norðurl. v. að þeir kippist

mjög við þegar við kollegar þeirra fyrir austan skagann óskum eftir að fá sanngjarna og eðlilega

rannsókn á því hvort skynsamlegt kunni að vera að leggja í bili a.m.k. aukna áherslu á það að bæta

Akureyrarflugvöll.

Ég vil svo aðeins til gamans að lokum segja það að þegar ég heimsótti flugturninn á Akureyri með

samgrh. fyrir tveimur árum að ég ætla hafði hæstv. samgrh. nýlega lýst því yfir að hugur hans stæði til

þess að varaflugvöllur kæmi á Sauðárkróki. Einn flugstjórinn á Akureyri vatt sér þá að honum og

óskaði eftir því að fá stöðu sem flugumferðarstjóri á þeim flugvelli, hann taldi að hann mundi hafa af

því góðar tekjur en hins vegar yrði vinnudagurinn hægur og ekki mikil umferð sem um þann flugvöll

færi þannig að ólíku væri saman að jafna eða erlinum á Akureyrarflugvelli. Þannig að það má horfa á

þetta með ýmsum hætti en ég vil, herra forseti, að lokum aðeins ítreka það að útilegging hv. 5. þm.

Austurl: á þessu máli er auðvitað algjörlega út í hött og eingöngu í samræmi við hans áráttu að geta

aldrei litið á sjálfstæðismál Íslendinga, hvort sem þau varða samgöngur við önnur lönd eða öryggi

okkar yfir höfuð að tala, án þess að halda á loft þeim sjónarmiðum sem eftirminnileg skil voru gerð á

fréttamannafundi í Háskólabíói af þeim manni sem nú er æðsti maður Sovétríkjanna.