27.11.1986
Sameinað þing: 22. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 1243 í B-deild Alþingistíðinda. (1067)

184. mál, varaflugvöllur á Akureyri

Stefán Guðmundsson:

Herra forseti. Ég kem ekki hér upp til þess að hæla málsmeðferðinni. Ég ætla hins vegar aðeins að benda á fskj. II með þessari till. sem flm. var að tala um og það sem þeir nota sem vopn í sinni baráttu. (SJS: Þetta eru upplýsingar í málinu.) Þetta er vopn sem þið notið í ykkar baráttu og er flutt í útvarpinu, viðtal við Hilmar Baldursson, en þar segir hann, og ég les það enn og aftur:

„Ég er sammála þeirri niðurstöðu sem komist hefur verið að varðandi samanburð á Akureyri og Sauðárkróki“ - og ég bið nú hv. 1. flm. að hlusta vel - „að flugtæknilega og veðurfarslega er Sauðárkrókur mun betri kostur, en ég sé ekki í sjónmáli að búinn verði til varaflugvöllur á Sauðárkróki kostnaðarins vegna.“

Ég segi fyrir mig, og ég sagði það hér áðan, að í mínum huga er þetta ekki bara spursmál um Sauðárkrók eða Akureyri, Húsavík eða Egilsstaði. Það er nr. 1, 2 og 3 í mínum huga að við séum að byggja varaflugvöll öryggisins vegna, bæði farþega- og flugáhafna, hvort sem það kostar milljóninni meira eða minna.

Þar sem menn eru að tala um kostnaðartölur í þessu sambandi og segja að það eigi eftir að malbika flugvöllinn á Sauðárkróki og það eigi eftir að byggja flugstöð á Sauðárkróki, þetta sé allt búið á Akureyri, vil ég spyrja: Meinar þá hv. 1. flm. þessarar till. að það eigi ekki að setja slitlag, hvort sem völlurinn verður varavöllur eða ekki? Það eigi ekki að setja slitlag á flugvöllinn á Sauðárkróki? (SJS: Hvers konar útúrsnúningar eru þetta?) Meinar þessi sami flm. það einnig að það eigi ekki að byggja flugstöð við Sauðárkróksflugvöll, hvort sem við erum að tala um að hann verði varaflugvöllur eða ekki? Vitaskuld verður þetta gert. (SJS: Auðvitað. ) Já, auðvitað. Þess vegna þurfa menn að taka þetta með í reikninginn þegar þeir tala um kostnaðartölur milli þessara tveggja framkvæmda. (SJS: Ég tók það fram í bæði skiptin.) Nei, það gerði hv. flm. ekki. Það er nú svo með suma að þeir tala nú svo oft að menn hlusta ekki og það á einmitt við þennan hv. þm. (SJS: Þetta er málefnalegt.)

Vegna þess að ég gat ekki klárað hér áðan í máli mínu það sem þessir ágætu menn sem sömdu skýrsluna skrifuðu undir, ætla ég aðeins að lesa niðurlagið á því sem þeir segja um álit sitt á Sauðárkróksflugvelli, og ég ætla að fara yfir það allt saman aftur þannig að það verði enginn misskilningur þar um. Þar segja þeir:

„Lengd flugbrautarinnar er 2014 metrar en talið mögulegt að lengja hana tiltölulega kostnaðarlítið um 290 metra til norðurs og 60 metra til suðurs. Þannig fengist flugbrautin 2364 metrar fyrir lendingu til norðurs og 2264 metrar til lendingar til suðurs. Með verulegum kostnaði má fá nánast ótakmarkaða flugbrautarlengingu til suðurs. Undirstaða vallarins er góð. Umhverfi flugvallarins er ákjósanlegt og óhindrað aðflug úr báðum áttum. Fjarlægð frá Sauðárkróki er 4 km og ætti flugvöllur og bær að geta notað slökkvilið sameiginlega.“

Um þetta hafa þegar farið fram umræður sem skiptir gífurlega miklu máli í því kostnaðartali sem menn eru hér að tala um. Síðan segir: „Sauðárkrókur er næst Keflavík þeirra valla sem um ræðir.“ Menn hafa ekkert komið inn á það hér. Það er einnig mjög stórt mál að fjarlægðin skuli ekki vera meiri til Reykjavíkur en raun ber vitni. Innan örfárra ára munu menn fara þetta nokkuð léttilega á flutningabílum á svona fjórum tímum spái ég nú. (Gripið fram í.) Já, ég spái því að þeir muni gera það allléttilega, þannig að menn sjá að það er mikill kostur að losna við að þurfa að fara austur yfir Tröllaskaga eða vestur yfir. Og svo heldur áfram:

„Í samanburði við Húsavík mun Sauðárkrókur vera veðurfarslega hagstæðari þar sem hann stendur í skjóli Tröllaskaga sem dregur úr skýjafari og úrkomu í norðaustanátt og þar af leiðandi mun vera snjóléttara á flugvellinum og nágrenni en almennt gerist á Norðurlandi.“

Ég vildi að þetta kæmi hér fram af því að ég gat ekki klárað þennan lestur hér áðan sem þessir heiðursmenn höfðu skrifað undir.

Ég undirstrika það enn og aftur að í mínum huga er það öryggið sem skiptir meginmáli og það hlýtur að vera það sem við erum að sækjast eftir þegar við erum að tala um að byggja upp varaflugvöll fyrir millilandaflugið.