27.11.1986
Sameinað þing: 22. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 1246 í B-deild Alþingistíðinda. (1069)

184. mál, varaflugvöllur á Akureyri

Flm. (Steingrímur J. Sigfússon):

Herra forseti. Aðeins örfá orð í tilefni ummæla sem hér hafa fallið eftir að ég lauk máli mínu síðast. Í fyrsta lagi varðandi það hverjir flm. eru á þessu þskj. þá er nú m.a. því til að svara að ég óttaðist kannske fremur hið gagnstæða. Ef ég hefði flutt þetta mál einn þm. úr þessu tiltekna kjördæmi þá hefðu menn talið einhver annarleg sjónarmið, svo sem eins og atkvæðaveiðar, liggja að baki, þannig að ég taldi ekki óeðlilegt að bjóða öðrum þm. úr þessu kjördæmi upp á að vera þarna með mér til að það væri þá í raun og veru afgreitt. En málið er í eðli sínu stærra en það að vera málefni eins einasta staðar, sérstaklega fyrir okkar hönd þar sem ekki eru í raun á ferðinni væntingar um einhver geysileg umsvif eða uppbyggingu í því tilfelli að ákveðnar úrbætur yrðu gerðar á Akureyrarflugvelli.

Ég vil svo bara segja við hv. 5. þm. Norðurl. v. að það er mikill misskilningur ef hann heldur að grg. og fskj. með þessari till. séu einhver sérstaklega úthugsuð lævís vopn í þessu máli. Hann notaði orðið, með leyfi forseta, „vopn“. Svo er ekki. Bæði í grg. og fskj. eru ágætar upplýsingar um málið sem hafa m.a. komið sér mjög vel fyrir hv. þm. Norðurl. v. vegna þess að málflutningurinn þar er heiðarlegur og þar eru lögð rök með og á móti málinu. Það eru lögð rök fyrir því og gegn því að Akureyrarflugvöllur gæti þjónað þessu hlutverki og þar eru sagðir kostir þess að hafa þennan flugvöll á Sauðárkróki. (Gripið fram í.) Þetta er ágætur málflutningur þar sem menn taka málefnalega á hlutum og tíunda bæði rök og gagnrök og það er það sem mestu máli skiptir í þessu og ég held að hv. þm. ættu að fagna því að svo vandaður tillöguflutningur og fylgiskjalagerð er hér á ferðinni.

Ég vil bara segja að síðustu, herra forseti, að það er mjög mikilvægt að reyna að byggja upp í okkar flugmálum með tilliti til fyllsta öryggis. En það er mjög víða í okkar þjóðfélagi sem öryggi er ábótavant og við höfum ekki efni á að veita okkur fyllsta öryggi. Væri hv. formaður fjvn. hér nærri mér mundi hann minnast þess að fátækt þjóðarinnar m.a. hefur þýtt það að öryggismál á sjúkrahúsum, á vistheimilum, á dvalarheimilum fyrir vangefna og þroskahefta og fatlaða eru í ólestri vegna peningaleysis, vegna þess að við teljum okkur væntanlega ekki hafa efni á því að leggja nægilegt fé í eldvarnar og öryggiskerfi á stöðum eins og sjúkrahúsum og Kópavogshælinu. Svo tala menn hér um það að við getum leyft okkur að ganga eingöngu út frá því að eitthvert fyllsta öryggi verði fyrir þennan varaflugvöll sem notaður yrði tvisvar til þrisvar á ári á meðan aðrir hlutir eru í jafnmiklum ólestri og raun ber vitni.

Það væri æskilegt, herra forseti, að við værum svo rík þjóð að við hefðum efni á því að kaupa okkur alls staðar fyllsta öryggi í öllum tilfellum en það á langt í land, því miður. Þess vegna er hér spurning um forgangsröðun verkefna og spurning um peninga ekki síður en öryggi. Því miður.

Umræðu (atkvæðagreiðslu) frestað.