02.12.1986
Sameinað þing: 23. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 1253 í B-deild Alþingistíðinda. (1075)

29. mál, alþingiskosningar og þinghald

Hjörleifur Guttormsson:

Herra forseti. Ég ætla mér hvorki að túlka stjórnarskrá eða lög um kosningar til Alþingis. Hitt vildi ég segja að það er afar óheppilegt að það skuli lagt upp til þings eins og nú var gert, án þess að búið væri að draga ramma um þinghaldið, þingflokkar og forusta þingsins og ríkisstjórn væri búin að koma sér saman um hvenær kjósa skyldi til Alþingis. Þetta er mjög óheppilegt og því er nauðsynlegt að mínu mati að forustan hér í þinginu reyni að ná landi í þessu máli sem allra fyrst. Almennt séð hlýtur að vera æskilegt að menn geti bundið sig nokkurn veginn við sama dag eða sama árstíma þegar kosið er til Alþingis og það fari ekki eftir tilviljanakenndu þingrofi hvenær næst er kosið. Þetta finnst mér vera umhugsunarefni. Ég vil líka benda á að í alþingiskosningum og aðdraganda þeirra er æskilegt að lýðræðislegur undirbúningur geti farið fram með þátttöku sem flestra. Það hagar þannig til á Íslandi að að vetrarlagi er þetta víða nánast ókleift vegna samgönguerfiðleika. Við höfum heyrt það, herra forseti, frá formanni stærsta þingflokksins á Alþingi að það sé hætt að snjóa í byrjun apríl og því eigi að vera í lagi að kjósa 11. apríl eða svo. En við höfum ekki frétt af því, ekki á Austurlandi a.m.k., að það sé tryggt. (Gripið fram í: En í Garðabænum?) Aprílmánuður getur verið mjög erfiður um samgöngur á norðanverðu og austanverðu landinu og á Vestfjörðum eins og menn þekkja. Um þetta verða menn auðvitað að fjalla af viti og miða við íslenskar aðstæður.