02.12.1986
Sameinað þing: 23. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 1254 í B-deild Alþingistíðinda. (1077)

29. mál, alþingiskosningar og þinghald

Ólafur G. Einarsson:

Herra forseti. Það er aðeins örstutt athugasemd og hún er við þau orð sem höfð voru eftir mér, að mér skildist, að ég hefði einhvern tímann sagt að ekki snjóaði í apríl. Þau orð eru hins vegar eftir Dagblaðinu Vísi en ekki eftir mér, í fyrirsögn við viðtal sem var haft við mig. Ef menn hefðu haft fyrir því að lesa viðtalið hefðu þeir fengið að vita það sem ég raunverulega sagði.

Hafandi alist upp úti á landi veit ég vel að það getur snjóað í apríl. Það vill svo til að ég man eftir kafsnjó þann 9. júní þar sem ég ólst upp. Ef menn ætla að velja dag þar sem alls ekki geti snjóað er líklega best að færa sig yfir í júlí. Það er einna öruggasti mánuðurinn, held ég.

Ég vil svo aðeins segja að það er mín bjargföst skoðun að það eigi að kjósa áður en kjörtímabilinu lýkur, en ég get vel fallist á 25. apríl sem var einn af þeim mörgu dögum sem hæstv. forsrh. taldi koma til greina.