02.12.1986
Sameinað þing: 23. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 1254 í B-deild Alþingistíðinda. (1079)

163. mál, úrbætur í ferðaþjónustu

Samgönguráðherra (Matthías Bjarnason):

Herra forseti. Þessi þál. um úrbætur í ferðaþjónustu er svohljóðandi:

„Alþingi ályktar að fela samgrh. að láta gera úttekt á aðstöðu til ferðaþjónustu á helstu ferðamannastöðum í einstökum landshlutum. Úttektin skal m.a. ná til gistiaðstöðu, veitingaþjónustu, samgangna, leiðsögu og leiðamerkinga, eftirlits, aðgangs að áhugaverðum stöðum, upplýsingaþjónustu og hreinlætisaðstöðu. Á grundvelli slíkrar úttektar skal gerð áætlun um úrbætur. Verk þetta skal unnið í samráði við ferðamálasamtök landshlutanna.“

Ráðuneytið hófst strax handa um framkvæmd þál. m.a. með því að skrifa ferðamálasamtökum landshlutanna bréf þar sem farið var fram á að þau gæfu nauðsynlegar upplýsingar og hefðu samstarf við ráðuneytið um gerð þeirrar úttektar og áætlunar um úrbætur sem þál. gerir ráð fyrir. Jafnframt var í ráðuneytinu hafin víðtæk upplýsingasöfnun um ferðamál, m.a. um framboð á gistirými sem nánar verður fjallað um hér á eftir.

Til að greiða fyrir skýrslugerð ferðamálasamtakanna var haldinn sameiginlegur fundur með þeim í september s.l. þar sem reynt var að samræma vinnu þeirra að þessu verkefni. Hafa nú borist skýrslur frá öllum ferðamálasamtökum, nema ferðamálanefnd Reykjavíkurborgar sem treysti sér ekki til slíkrar skýrslugerðar að svo stöddu. Sumar þessar skýrslur eru mjög ítarlegar og hefur ráðuneytið því gert útdrátt úr þeim þar sem fram á að koma hverju helst er talið ábótavant til móttöku ferðamanna í hverjum landshluta um sig og hvað er helst til úrbóta. Áður en skýrslan verður gefin út verður haft frekara samráð um efni hennar við fulltrúa landshlutasamtakanna. Til að gefa nokkra hugmynd um hvað þetta verk er viðamikið má geta þess að vélritaður texti er nú um 50 bls. og töfluefni um 70 bls. Þessu verki er þó ekki lokið, en endanleg skýrsla ætti að verða tilbúin í janúarmánuði n.k. Sérstaklega mikil vinna hefur verið lögð í að afla sem fyllstra upplýsinga um framboð og gistirými í einstökum landshlutum og hugsanlega aukningu þess á næstu 2-3 árum.

Samkvæmt skýrslunni er fjöldi herbergja á heils árs hótelum nú 1772, en það er 44% aukning frá árinu 1983 er herbergi voru talin 1228. Hugsanlega hefur eitthvað verið vantalið þá sem nú er talið með. Á sama hátt eru herbergi í sumarhótelum talin vera 1329, en þau voru 991 árið 1983 sem jafngildir 34% aukningu. Heildartala hótelherbergja í landinu er samkvæmt þessu 3101 með rúmlega 6000 rúmum. Framkvæmdir í byggingu gistirýmis hafa því verið verulegar á undanförnum árum og er þá einungis átt við gistihús en ekki heimagistingu, sem litlar upplýsingar eru til um, né heldur gistingu á sveitabæjum, en þar eru nú boðin fram 452 rúm í 192 herbergjum í heils árs gistingu. Loks er framboð á um 700 rúmum á farfuglaheimilum.

Verulegar áætlanir eru nú uppi um byggingu nýs gistirýmis. Hvað Reykjavík snertir verða tekin í notkun 57 herbergi fyrir 82 gesti á Hótel Sögu á næsta ári. Þá eru uppi hugmyndir um stækkun á Hótel Esju og Hótel Holti. Nokkrir aðilar í viðbót hyggjast byggja ný hótel í Reykjavík, svo sem Ólafur Laufdal, Guðbjörn Guðjónsson og Jón Ragnarsson.

Á Akureyri eru uppi hugmyndir um stækkun Hótel KEA um 20 tveggja manna herbergi og fleiri framkvæmdir eru þar á döfinni. Víða annars staðar um land eru menn með áætlanir um byggingu gististaða. Verður því ekki annað séð en þessum þætti ferðamála hafi verið vel sinnt og unnt verði um allt land að sinna að þessu leyti ört vaxandi straumi innlendra og erlendra ferðamanna.

Í væntanlegri skýrslu verður fjallað um aðra meginþætti ferðamála en gistiaðstöðu, þó misjafnlega mikið, svo sem framboð og nýtingu samgöngutækja til farþegaflutninga, veitingastaði, mannafla, gjaldeyristekjur og umhverfisvernd. Loks verður reynt að spá um fjölgun erlendra ferðamanna nokkur ár fram í tímann. Sú spá er þó ýmsum annmörkum háð þegar litið er til þess að aukning erlendra ferðamanna til Íslands hefur oft verið sveiflukennd og erfitt að átta sig á hvaða lögmálum hún lyti. Þó munu flestir vera sammála um að bjart sé nú fram undan fyrir þessa atvinnugrein og ástæða til að binda vonir við umtalsverða aukningu í henni, þjóðinni til hagsældar.