20.10.1986
Efri deild: 4. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 178 í B-deild Alþingistíðinda. (108)

3. mál, frídagur sjómanna

Karl Steinar Guðnason:

Virðulegi forseti. Mér er það mikil furða hversu þetta mál er viðkvæmt hjá einstaka þingmanni. Ég minnist þess að þegar 1. maí var lögbundinn á sjöunda áratugnum var lagagreinin mjög svipuð þessu og þótti eðlilegt.

Að það þurfi álitsgerðir um þetta mál er allt gott og blessað. Ég hef reyndar rætt það við formann Sjómannasambandsins og ég hygg að það sé honum mjög að skapi að samþykkja þessa tillögugrein svona. Ef einhver álitsgerð skyldi koma fram er mjög eðlilegt að hún verði tekin fyrir í allshn. og rædd þar. Það hefur engum dottið í hug, a.m.k. ekki okkur flm., að þessi till. verði samþykkt nema kalla til forustumenn sjómannasamtakanna hjá allshn. Þannig ganga mál fyrir sig á Alþingi.

Ég tel mjög eðlilegt að gengið verði frá þessu máli sem allra fyrst, ekki reynt að tefja það og eyða því líkt og gert var á síðasta þingi. Það var kannske fullseint fram komið, það má vera, en önnur mál, sem seinna voru flutt, voru þó samþykkt.

Ég minnist þess að fyrir nokkrum árum hét sjútvrh. íslenskum sjómönnum því að dagurinn yrði lögbundinn. Það hefur ekki orðið af því enn þá. Hverjir hafa tafið það væri fróðlegt að vita, en við unum ekki við að svo verði lengur.

Ég hef ekki aðeins rætt við formann Sjómannasambands Íslands um þetta heldur allmarga sjómenn og hef aðgang að fundargerðum sjómannasamtakanna og ekki minnist ég þess að þar hafi nokkurn tíma komið fram andúð á því að þetta yrði samþykkt. Öðru nær. Það er eðlilegt að frvgr. verði svona. Vissulega mætti breyta henni ef annað kæmi í ljós, en að vera með fullyrðingar um slíkt hér í miklum skaphita er alveg óþarfi.

Varðandi framkvæmd þessarar lagasetningar minni ég á að þegar 1. maí var samþykktur sem almennur frídagur verkamanna var gengið frá þeim atriðum sem undanþágu þurftu við í samningum og það er gert líka eftir því sem nauðsyn krefur hverju sinni. Þrátt fyrir að 1. maí sé almennur frídagur og verkalýðsfélögin telji það helga skyldu verkamanna að taka sér frí þann dag eru ýmis störf sem þarf að vinna og er almennur skilningur á að þarf að vinna og þarf að gera. Þannig held ég að þetta þurfi ekki að fara svo mjög fyrir brjóstið á mönnum ef menn eru samþykkir því að sjómenn skuli fá þann heiðursvott að dagurinn verði lögskipaður frídagur. Ef menn eru ósammála því að svo verði geta menn tafið málið, en það er af því illa að svo verði gert. Allar athugasemdir geta komið fram í nefnd og nefndin getur síðan af fullri reisn samþykkt þetta mál íslenskum sjómönnum til sóma og Alþingi einnig.