02.12.1986
Sameinað þing: 23. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 1258 í B-deild Alþingistíðinda. (1084)

164. mál, hernaðarframkvæmdir

Fyrirspyrjandi (Steingrímur J. Sigfússon):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. utanrrh. fyrir svörin. Það var eins og ég átti von á og vænta mátti af fyrri reynslu dálaglegur listi sem hann las upp, hæstv. utanrrh., um nýframkvæmdir og það er alveg greinilegt að ekki er verið að tjalda til einnar nætur þar sem menn eru að byggja félagsheimili og ýmiss konar slíka aðstöðu til að geta hreiðrað betur um sig, látið fara betur um sig þarna á Miðnesheiðinni. Og 250 íbúðir er út af fyrir sig ekki svo lítið, a.m.k. ef miðað er við íbúðabyggingar landsmanna sjálfra í sumum landshlutum.

Ég vil sérstaklega taka það fram og lýsa yfir minni skoðun á því að ég tel að aðild Íslendinga að mannvirkjasjóði Atlantshafsbandalagsins sé í alla staði óeðlileg og ég hlýt að mótmæla því að yfirleitt sé verið að eyða tíma í að athuga þá hluti. Ég skildi hæstv. utanrrh. svo að það yrði einhvers konar hagrænt mat lagt til grundvallar því hvort af slíkri aðild yrði eða ekki. M.ö.o.: það er ekki talin ástæða til að velta því fyrir sér pólitískt séð eða með tilliti til stöðu okkar Íslendinga í utanríkismálum hvort við eigum að ganga í þennan sjóð eður ei heldur er látið líta svo út sem það sé fyrst og fremst eitthvert mat á hagkvæmni sem þar eigi að ráða ferðinni. Ég mótmæli því algerlega og tel engar forsendur, burtséð frá stöðu okkar að öðru leyti, til þess að við förum að ganga inn í þennan sjóð. Ég vil þá spyrja hvert yrði næsta skrefið ef við gerðumst formlegir aðilar að þessum sjóði. Yrði það þá ekki áframhald á sömu braut sem mundi enda á því að Íslendingar vopnuðust sjálfir, kæmu hér á fót her o.s.frv.? Það er a.m.k. ekki órökrétt framhald af þeim breytingum sem orðið hafa og þessari athugun. Ég skora á hæstv. utanrrh. að verja tíma sínum betur en að bollaleggja um aðild að þessum sjóði sem, eins og menn vita, hefur það í starfsreglum sínum að veita ekki fé nema til uppbyggingar hernaðarlegra mannvirkja og hernaðarlegra mannvirkja eingöngu. Það er rétt að hæstv. utanrrh. hafi það vandlega í huga, m.a. með tilliti til þeirrar fsp. sem er næst á dagskrá, herra forseti.