02.12.1986
Sameinað þing: 23. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 1262 í B-deild Alþingistíðinda. (1090)

165. mál, herflugvöllur á Norðurlandi

Páll Pétursson:

Herra forseti. Öll rök hníga að því að það sé skynsamlegt að koma hér upp varaflugvelli þegar við höfum efni á og að því verður verulegur sparnaður. Það er jafnframt ljóst að öll rök hníga að því og allar þær kannanir sem gerðar hafa verið sanna að sá flugvöllur eigi að vera á Sauðárkróki. Afstaða bæjarstjórnar Sauðárkróks hefur verið tvímælalaus til þessa og verður væntanlega áfram sú að þessi flugvöllur eigi að vera íslenskur og fyrir almennt flug. Hugmyndir hafa verið uppi um fjármögnun þessa flugvallar, m.a. úr mannvirkjasjóði NATO. Ég tek það fram að þær hafa ekki verið settar fram af Skagfirðingum eða heimamönnum á Sauðárkróki, m.a. með tilliti til þess hvert er hlutverk mannvirkjasjóðs. Samgrh. og utanrrh. hafa skipað nefnd í málið. Í erindisbréfi nefndarinnar kemur fram nokkuð óljós hugmynd, að því mér þykir, og talað um að byrja á sléttu, þ.e. athuga um varaflugvöll með sérstöku tilliti til Sauðárkróksflugvallar, ellegar þá Egilsstaðaflugvöll ef eitthvað kæmi upp á með Sauðárkróksflugvöll.

Það fer allt eftir því hvernig þessi hugmynd þróast hvort hún er góð eða slæm. Hugmynd prófastsins á Sauðárkróki er góðra gjalda verð og framkvæmanleg, en ég vil taka það fram, herra forseti, að ég tek afstöðu gegn hugmynd um herstöð, þ.e. að flugvöllurinn yrði með nokkrum hætti undir stjórn hersins eða mannaður af hernum að nokkru leyti, hvort heldur hann ætti að risa á Sauðárkróki eða Egilsstöðum.