02.12.1986
Sameinað þing: 23. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 1262 í B-deild Alþingistíðinda. (1091)

165. mál, herflugvöllur á Norðurlandi

Fyrirspyrjandi (Steingrímur J. Sigfússon):

Herra forseti. Sá ljóti grunur minn hefur því miður verið staðfestur að hæstv. ríkisstjórn sé að undirbúa sig, leita leiða til að koma þessu hernaðarmannvirki inn í landið og selja það þjóðinni í skrautlegum neytendapakkningum. Sá grunur varð nánast að vissu þegar einhver framsóknarlegasta yfirlýsing síðari áratuga birtist í fjölmiðlum fyrir nokkrum dögum þar sem hæstv. forsrh. lýsti því yfir að það væri alls ekki skilningur ríkisstjórnarinnar að um hernaðarmannvirki yrði að ræða. Þó að hernaðaraðilar borguðu framkvæmdina yrði þetta engu að síður borgaralegt mannvirki.

Ég vil í því sambandi vekja aftur athygli á þeim starfsreglum mannvirkjasjóðs Atlantshafsbandalagsins að leggja ekki fé í önnur mannvirki en þau sem í eðli sínu og/eða stjórnunarlega eru hernaðarmannvirki. Það er alveg ljóst að þessi regla hefur undantekningarlaust verið þar í heiðri höfð, m.a. vegna þess að viss dæmi hafa verið um að aðildarríki Atlantshafsbandalagsins og mannvirkjasjóðsins hafi verið að reyna að lauma borgaralegum framkvæmdum að einhverju leyti inn undir sama hatt og hernaðarlegum. Slíkt hefur í þeim tilfellum verið stöðvað og vísað til þeirrar reglu sjóðsins að leggja ekki fé í annað en hernaðarleg mannvirki.

Það er alveg ljóst að hér er eingöngu á ferðinni dulbúningur fyrir hernaðarmannvirki. Það er alveg ljóst að fé yrði ekki lagt í slíkt mannvirki, herra forseti, nema því fylgdu einhver ákvæði um hugsanlega yfirtöku Bandaríkjahers eða NATO á mannvirkinu á spennutímum, svipað og hliðstætt og er með flugstöðina á Keflavíkurflugvelli.

Hér er, herra forseti, og með því skal ég ljúka máli mínu, á ferðinni enn eitt hamarshöggið, svo syngur við, í kistulagningu þeirrar yfirlýstu stefnu þessarar ríkisstjórnar, sem hæstv. forsrh. hefur borið fram, að auka ekki hernaðarumsvif á kjörtímabilinu. Hér er rekinn enn einn naglinn til að festa svo rækilega líkkistulokið yfir þessari stefnu að það verður naumast rifið af.