02.12.1986
Sameinað þing: 23. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 1264 í B-deild Alþingistíðinda. (1095)

165. mál, herflugvöllur á Norðurlandi

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Mér þykir vænt um að forsetinn er farinn að teygja túlkun þingskapa með þeim hætti sem hér kom fram. Sakarefni hv. 5. þm. Norðurl. v. var býsna athyglisvert og nýstárlegt og rýmkar bersýnilega möguleika okkar þm. á að taka til máls í fyrirspurnatímum.

Ég vil í tilefni af þessari umræðu leyfa mér að óska eftir því að hæstv. forsrh. geri grein fyrir afstöðu Framsfl. Hann mun hafa lýst því yfir, hæstv. forsrh., að hann væri á móti því að það yrði til hernaðarmannvirki í Skagafirði með þeim hætti sem hér er verið að ræða um.

Nú er það alveg ljóst að ef Bandaríkjamenn setja peninga í þennan flugvöll eru þeir um leið að gera kröfur um að þetta sé hernaðarmannvirki, getur ekkert annað verið. Með öðrum orðum: Verður forsrh. og Framsfl. á móti því að varaflugvöllur verði til í Skagafirði eða annars staðar með framlögum frá Bandaríkjamönnum? Mun Framsfl. beita sér gegn því? Ef Framsfl. hins vegar fellst á þær hugmyndir sem hér eru uppi er hann að taka ákvörðun um þriðju herstöðina frá því að ríkisstjórn Steingríms Hermannssonar kom til valda. Það eru radarstöðvarnar á Vestfjörðum og Norðurlandi eystra og það er þessi ákvörðun, sem Sjálfstfl. er bersýnilega að þrýsta fram, að það verði tekin ákvörðun um herstöð í Skagafirði. Það er nauðsynlegt að hæstv. forsrh. geri grein fyrir afstöðu sinni og flokks síns í þessu máli.