02.12.1986
Sameinað þing: 23. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 1265 í B-deild Alþingistíðinda. (1098)

165. mál, herflugvöllur á Norðurlandi

Fyrirspyrjandi (Steingrímur J. Sigfússon):

Herra forseti. Ég ætla aðeins að vekja athygli á þeirri afar athyglisverðu staðreynd að þó að hæstv. ríkisstjórn hafi tekið ákvörðun um að ganga til viðræðna við tiltekna aðila hefur hún ekki kynnt sér starfsreglur þeirra betur en svo að hæstv. forsrh. kemur af fjöllum í sambandi við hluti sem ég hélt að væri almenn vitneskja og almennar upplýsingar um starfsreglur mannvirkjasjóðs Atlantshafsbandalagsins.

Í sambandi við vegi í Noregi er því til að svara að þeim er ætlað hernaðarlegt hlutverk. Það er viðurkennt. Það er æft samkvæmt því hernaðarlega hlutverki o.s.frv. Þannig tengjast þau mannvirki hernaði á þann hátt að viðkomandi sjóður telur sér fært að leggja í þá fé. Eins og ég sagði byggjast þessar reglur á því að annaðhvort eðli sínu samkvæmt eða stjórnunarlega sé um hernaðarmannvirki að ræða. Það er alveg ljóst, ég get fullvissað hæstv. forsrh. um það, að sjóðurinn mun ekki leggja fé í mannvirki á Íslandi nema þessum skilyrðum sé fullnægt öðru hvoru eða báðum.