02.12.1986
Sameinað þing: 23. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 1270 í B-deild Alþingistíðinda. (1104)

176. mál, lokun deilda á sjúkrahúsum

Guðrún Helgadóttir:

Herra forseti. Hér er hreyft mjög svo alvarlegu máli þar sem kemur í ljós að hundruð hjúkrunarfræðinga og sjúkraliða eru ekki í starfi eða stöður þeirra eru óskipaðar. Það er umhugsunarefni fyrir hæstv. ráðh. að dýr mannvirki skuli standa ónotuð, t.d. öldrunardeildir, meðan hundruð manna bíða eftir plássi vegna þess að ekki er unnt að manna þessar stofnanir. Vitaskuld er, eins og ráðherra réttilega benti á úr könnun Hjúkrunarfræðingafélags Íslands, um að ræða annars vegar lág laun og hins vegar skort á dagvistarrými. Ég efast t.d. um að konur í læknastétt hætti störfum vegna launa í sama hlutfalli og hjúkrunarfræðingar hætta störfum vegna sinna launa.

Ráðherrann minntist einnig á að hjúkrunarfræðingar og sjúkraliðar hverfa frá starfi vegna umönnunar barna. Hér er það skorturinn á dagvistarrýminu sem segir til sín. Við þetta verður ekki unað. Það verður að gera eitthvað í þessu. Hér ber allt að sama brunni og varðandi aðrar starfsstéttir meðal ríkisstarfsmanna. Kennarar fást ekki og réttindalaust fólk gegnir þeirra störfum vegna þess að menn lifa ekki af þeim launum sem íslenska ríkið býður þeim. Það er verkefni ríkisstjórnarinnar allrar að taka þessi mál til alvarlegrar umræðu áður en þetta þjóðfélag okkar hrynur.