02.12.1986
Sameinað þing: 23. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 1270 í B-deild Alþingistíðinda. (1105)

176. mál, lokun deilda á sjúkrahúsum

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Mig langar til að vekja á því athygli í þessu sambandi að þegar spurt er um lokun deilda á sjúkrahúsum vegna hjúkrunarfræðinga- eða sjúkraliðaskorts er aðeins hálf sagan sögð þótt því sé svarað vegna þess að stór hluti af þeirri starfsemi sem þó er enn höktandi inni á sjúkrastofnunum landsmanna er við stórlega erfið skilyrði og undirmannaður svo að tugum og hundruðum nemur á stærstu sjúkrastofnunum. Sem stjórnarmanni í stjórnarnefnd ríkisspítalanna kosnum þangað inn af Alþingi, er mér málið skylt. Ég vil nefna sem dæmi að barnaspítali Hringsins, sú merka og þýðingarmikla stofnun, er nú rekin að hluta til með þeim hætti að börnin eru send heim á kvöldin og keyrð þangað aftur á morgnana. Vegna hvers? Jú, vegna þess að það er ekki hægt að manna næturvaktir á deildum spítalans. Ef mönnum er það ekki ljóst að þarna er við mikið vandamál að etja þegar starfsemin er komin í slíkar ógöngur ætti mönnum að vera það með því að hugleiða þetta dæmi.

Ég vil svo segja, herra forseti, að við hefðum þurft miklu meiri tíma en hér gefst til þess að ræða almennt stefnu ríkisstjórnarinnar í þessum málum og viðbrögð manna við þeim mikla vanda sem við er að etja í starfsmannahaldi í opinberum rekstri.