02.12.1986
Sameinað þing: 23. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 1271 í B-deild Alþingistíðinda. (1107)

176. mál, lokun deilda á sjúkrahúsum

Kolbrún Jónsdóttir:

Herra forseti. Ég skal hafa það örstutta athugasemd um þær upplýsingar sem komu fram hér og hafa reyndar komið fram á þingi áður. Fyrir þremur árum síðan var gerð könnun og kom hún út á prenti í riti hjúkrunarfræðinga þar sem þessar ástæður voru nefndar, hvað liggur að baki því að skorturinn er svo mikill eins og raun ber vitni, og eru þær engin ný sannindi. Það er sem sagt lág laun, það er, eins og fram hefur komið, vaktavinnan. Það hefur ekkert verið gert á þessum þremur árum og það finnst mér aðalmálið. Við getum ekki alltaf beðið eftir nýrri og nýrri könnun þegar fram kemur hér, og það hefur verið öllum hv. þm. ljóst, að ekkert hefur verið gert á þessum þremur árum. Það var lögð fram þáltill. um að skipuð yrði nefnd af ríkinu til þess að gangast í að leysa þessi vandamál eða alla vega koma með tillögur til úrbóta og hún var ekki einu sinni samþykkt á hv. Alþingi.