02.12.1986
Sameinað þing: 23. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 1273 í B-deild Alþingistíðinda. (1109)

176. mál, lokun deilda á sjúkrahúsum

Fyrirspyrjandi (Kristín Ástgeirsdóttir):

Herra forseti. Ég þakka ráðherranum fyrir svörin. Þetta eru gagnmerkar upplýsingar sem hafa komið fram þó að ekki sé hægt að segja að þær komi á óvart því að þetta ástand hefur mörgum verið ljóst.

Ég tek innilega undir það með heilbrrh. að ástæðan fyrir stöðu þessara mála er fyrst og fremst launamálin, vinnutíminn, skortur á barnaheimilum og sú mikla ábyrgð sem fylgir þessum störfum. En allar þessar upplýsingar leiða mig til þeirrar niðurstöðu að það sem fyrst og fremst þurfi að gera sé að reyna að bæta launakjörin og ég skora á ráðherrann að beita sér í þeim málum. En það þarf líka að skoða allt heilbrigðiskerfið í heild og athuga hvaða leiðir er hægt að fara innan þess til að bæta aðstöðuna. Hæstv. ráðherra nefndi það að hún væri að reyna að sækja hjúkrunarfræðinga til útlanda og manni dettur nú í hug Florence Nightingale, að það sé verið að reyna að höfða til hins góða hugarfars. En staðreyndin mun vera sú, því miður, að þegar hjúkrunarfræðingar koma heim frá útlöndum snarlækka þeir í launum, þannig að þetta er auðvitað engin lausn.

Ég þekki sjálf dæmi um tiltölulega nýútskrifaðan hjúkrunarfræðing sem hætti starfi á sjúkrahúsi og gerðist flugfreyja og fékk þrisvar sinnum hærri laun hjá Flugleiðum en í heilbrigðiskerfinu. Að öllu þessu þarf að hyggja.

Það er líka vert að velta því fyrir sér hvort það skólakerfi sem við höfum nú megnar að uppfylla þörfina fyrir hjúkrunarfræðinga, hvort sú menntun sem veitt er í Háskóla Íslands dugar til þess að fullnægja þörfinni.

Herra forseti. Ég gæti haft langt mál um þetta, en ég ítreka þakkir til ráðherrans og þakka öðrum sem tekið hafa til máls um þetta.