02.12.1986
Sameinað þing: 23. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 1273 í B-deild Alþingistíðinda. (1110)

176. mál, lokun deilda á sjúkrahúsum

Heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra (Ragnhildur Helgadóttir):

Herra forseti. Mér var að berast skjal úr ráðuneytinu sem fyllir dálítið betur það sem ég var að segja. Sá kafli sem ég mun vitna til hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Hjúkrunarfræðingar voru einnig spurðir um hvað þeir teldu vera meginástæður fyrir skorti á hjúkrunarfræðingum. Mynd 12 sýnir hvaða atriði hjúkrunarfræðingarnir töldu mikilvægust í þessu sambandi. Eins og sjá má sýna þessar niðurstöður sem byggðar eru á óbundnu vali að flestir, eða 35%, nefndu mikið vinnuálag. Næstflestir, eða 16%, nefna síðan lág laun, 14% nefna óreglulegan vinnutíma og 11% nefna vandamál við barnagæslu.“

Önnur mynd sýnir svör þátttakenda við sömu spurningu en nú eru svörin bundin þannig að svarendur eru beðnir að raða viðeigandi atriðum í forgangsröð. Flestir, eða 41% svarenda, telja að lág laun séu mikilvægasta ástæðan fyrir hjúkrunarfræðingaskortinum. 22% nefna óreglulegan vinnutíma, 15% nefna að vinnan samrýmist illa heimilisstörfum. Álíka margir nefna mikið vinnuálag og vandamál vegna barnagæslu, eða um 9%.

Þetta vildi ég, herra forseti, láta koma fram því að hér var um að ræða mjög vandaða og vísindalega úttekt.