02.12.1986
Sameinað þing: 23. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 1281 í B-deild Alþingistíðinda. (1120)

206. mál, fjárveitingar til Alþýðuskólans á Eiðum

Fyrirspyrjandi (Hjörleifur Guttormsson):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðh. svör hans. Eins og fram kom í máli ráðherrans skortir sannarlega mjög mikið á að gert sé ráð fyrir þeim fjárveitingum til héraðsskólanna til viðhalds og stofnkostnaðar sem þörf er á samkvæmt máli ráðherrans og ég hygg að hann hafi alls ekki verið of stórtækur í þeim tölum sem hann nefndi, t.d. 10-20 millj. kr. sem þyrftu til að koma vegna Alþýðuskólans á Eiðum eins saman, en fleiri stofnanir eiga þarna í hlut sem eru að berjast um sama fjármagn. Mér sýnist líka að það hafi ekki af hálfu menntmrn. verið staðið að mati á þessari fjárþörf með nógu skilmerkilegum hætti eins og einnig raunar kom fram hjá hæstv. ráðh. og er ég ekkert að sakfella hann fyrir það persónulega, en mér sýnist að héraðsskólarnir hafi orðið hornreka í sambandi við mat á fjárþörf og úr því þyrfti sannarlega að bæta.

Mér sýnist, eftir að hafa aflað mér upplýsinga frá Fjárlaga- og hagsýslustofnun, að fjvn., sem nú á að fjalla um það erfiða verkefni að skipta þeim reytum sem ríkisstjórnin hefur ætlað til þessara hluta og bæta þar væntanlega einhverju við, hafi í rauninni ekkert fyrirliggjandi á að byggja til hvaða verkefna eigi að verja eða á hverju eigi að byggja þá skiptingu sem um er að ræða. Mér er til efs, en hæstv, ráðh. getur e.t.v. skorið úr því hér, að fjvn. hafi þær upplýsingar handa á milli sem ráðherrann var m.a. að vitna til. En sé svo ekki hvet ég ráðherrann eindregið til að koma þeim upplýsingum hið skjótasta til nefndarinnar. Það er vafalaust áhugaefni okkar beggja sem þm. Austurlandskjördæmis að þarna verði úr bætt og þörfin er sannarlega brýn. Það má ekki gerast að lífvænlegar skólastofnanir á þessu sviði gjaldi þess, þó að í einhverjum landshlutum og í vissum tilvikum hangi þessar stofnanir á horriminni varðandi aðsókn. Tengsl þeirra við framhaldsskólakerfið og reyndar grunnskólann líka á sumum svæðum er ekki sem skyldi, en þessu er ekki til að dreifa við Alþýðuskólann á Eiðum eins og hér hefur komið fram og því er afar nauðsynlegt að hugað sé að málum hans varðandi þessa undirstöðuþarfir.

Ég nefni það líka að lokum, herra forseti, að sumir héraðsskólanna, sem hafa verið leigðir til hótelhalds á sumrum, hafa getað notið þess að lappa upp á húsnæðið, það brýnasta, með leigutekjum. Nú veit ég ekki hvert stefnir í þeim efnum, en ég veit að Eiðaskóli hefur notið þess í nokkru á undanförnum árum. Ég held að það þurfi að gæta þess að þær tekjur verði ekki frá þessum skóla teknar a.m.k., því að það er áreiðanlega mikil þörf á því að geta hagnýtt það fé sem kemur inn vegna þessara nota sérstaklega.