02.12.1986
Sameinað þing: 24. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 1287 í B-deild Alþingistíðinda. (1124)

131. mál, heimilisfræðsla

Guðrún Helgadóttir:

Herra forseti. Ég er hingað komin til þess að lýsa stuðningi við þessa tillögu, hvað varðar efni hennar, þó að mér sé ljóst að sjálfsagt er erfitt að móta stefnu í þessum þætti skólamála nema í samhengi við almenna stefnumörkun í skóla- og menntamálum sem nú sárlega skortir.

Ég get verið sammála flestu því sem stendur í grg. og vil aðeins leyfa mér að víkja að því að varðandi grunnskólakennslu held ég að flest hafi verið til bóta sem unnið hefur verið þar á síðustu árum nema eitt. Og það er einmitt kennsla í handmennt. Ég leyfi mér að halda þessu fram sem foreldri, er átt hefur fjölda barna í grunnskóla, og mér satt að segja ofbýður hve lítil áhersla er lögð á að kenna börnum það mikilvæga atriði, eins og hv. þm. Stefán Valgeirsson minntist á áðan, að hafa ofan af fyrir sér, að geta skapað eitthvað með höndunum. Ég held að þetta sé eitt mikilvægasta uppeldisatriði í lífi hverrar manneskju. Og ég verð að segja það alveg eins og er að handavinnukennsla t.d. í grunnskólum er aldeilis fyrir neðan allar hellur í þeim skólum sem ég hef kynnst. En ég vil taka skýrt fram að öll önnur kennsla var til mestu fyrirmyndar. En það er greinilega ekki í tísku lengur að vinna í höndunum hluti sér til ánægju. Ég held að það sé mjög mikilvægt að þetta sé ekki látið dankast svona einmitt á þeim tímum sem við lifum á, þegar manneskjan getur látið mata sig á nær allri afþreyingu.

Varðandi húsmæðraskólana hygg ég að það sé alveg rétt að þeir skólar hafa í raun og veru orðið tímanum að bráð. En það er ekki endilega það sama og að þeir geti ekki nýst til nokkurs hlutar. Mér er fullkunnugt um það að á Norðurlöndum er nám í hússtjórnarskóla virt sem stig í ýmsum námsgreinum, t.d. fóstrunámi, jafnvel hjúkrunarnámi ef ég man rétt og fleiri slíkum störfum. Auðvitað mætti athuga hvort ekki væri hægt að byggja þetta nám þannig upp. Hins vegar held ég að einhver þáttur þess hve heimilisfræðsla í grunnskólunum er léleg stafi hreinlega af skorti á kennurum. Nú er mér ekki kunnugt um hvort það er hreinlega skortur á menntuðum kennurum eða hvort það er sama sagan og annars staðar í stéttinni að menn vilji ekki stunda kennslu vegna lágra launa og lélegra kjara. Það þori ég ekki um að segja.

Ég get tekið undir margt sem hv. þm. Kristín Halldórsdóttir sagði hér áðan. Húsmæðraskólar eiga sér langa og merkilega sögu og áttu áreiðanlega ólítinn þátt í menntun kvenna áratugum saman og hafa unnið sér mikið til gildis í íslensku menningarlífi. En það er enginn vafi á því að það þarf að kanna hvernig þessum skólum megi breyta.

Ég hef oftlega minnst á úr ræðustól að menn sýni lítinn áhuga á framleiðslu listiðnaðar hér á landi. Aðrar þjóðir hafa getað selt listiðnað í stórum stíl. Nægir þar að nefna Finna. Ég er ekki í vafa um að þetta geta Íslendingar líka gert. Stór hópur íslenskra kvenna vinnur verulegt magn af slíkri vöru árlega. Nægir að nefna allan ullariðnaðinn sem unninn er á heimilum. Það mætti því svo sannarlega athuga hvort þær konur sem þessa atvinnu stunda gætu ekki nýtt sér kennslu í þessum skólum þegar þeim hefði verið breytt á einhvern vitrænan máta og endurmenntast með einhverju árabili og haldið þannig við og aukið kunnáttu sína.

Ég vil, herra forseti, halda því fram að hér sé hið merkasta mál á ferðinni og ég treysti því að hæstv. ráðherra geri þegar í stað gangskör að því að kanna leiðir til að kippa þessum málum í liðinn fremur en að láta stórhýsi standa svo til auð og ónotuð. Satt að segja er sorglegt að aka fram hjá Húsmæðraskóla Reykjavíkur, einu glæstasta stórhýsi Reykjavíkurborgar hér við Sólvallagötu, og sjá varla lífsmark í þessari miklu stofnun sem á árum áður hýsti 70 heimavistarnemendur.

Ég vil hins vegar beina þeim tilmælum til hæstv. forseta þessarar deildar hvort ekki sé tími til kominn þegar von er á að hv. þm. mæli hér fyrir málum að viðkomandi hæstv. ráðherra sé viðstaddur þá umræðu. Það telst orðið til tíðinda að ráðherra í viðkomandi málaflokki taki til máls þegar þingmenn mæla fyrir máli. Einhvern veginn finnst mér í þessu fólgin lítilsvirðing á málatilbúnaði þeirra og með því gefið í skyn að ekki sé líklegt að málinu sé ætlað að ná fram að ganga. Ég vildi því biðja hæstv. forseta að taka þetta mál upp á næsta forsetafundi. Fer ég þess hér með á leit að ráðherrar verði beðnir um að vera viðstaddir þegar þingmenn tala fyrir málum í þeim málaflokkum sem þá varða.

En að lokum: Ég þakka flm. þessarar till. til þál. sem hér er á dagskrá og skora á hæstv. ráðherra að vinna að endurskipulagningu á starfsemi þessara umræddu skóla.