02.12.1986
Sameinað þing: 24. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 1297 í B-deild Alþingistíðinda. (1134)

195. mál, leiguhúsnæði

Sigríður Dúna Kristmundsdóttir:

Herra forseti. Síðasti hv. ræðumaður fór geyst í ræðu sinni og illt þykir mér að sitja þegjandi undir ræðum sem slíkum þannig að ég sé mig tilknúna til að segja hér nokkur orð.

Hér er til umræðu þáltill. um byggingu leiguhúsnæðis. Um það er væntanlega ekki deilt, hv. þm., að þörfin fyrir leiguhúsnæði er gríðarleg. Á undanförnum sex árum hafa alls verið byggðar 67 leiguíbúðir hér á landi. Þörfin sem sveitarstjórnir á landinu áætla að sé fyrir leiguhúsnæði og sem fern félagasamtök sem hafa innan sinna vébanda þá sem helst þurfa á leiguhúsnæði að halda áætla er alls 2900 íbúðir. 250 millj. eru varla upp í nös á ketti til að svara þessari þörf. Ég held að hv. þm. þurfi ekki að hafa jafngríðarlegar áhyggjur af því og hann hafði í ræðustól áðan að það ætti að fara að veita, ef þessi till. yrði samþykkt, af almannafé í stórum stíl til þeirra sem ekki nenna eða vilja sjá um að borga af og hugsa um sitt húsnæði, eins og þm. orðaði það.

Hv. þm. byrjaði ræðu sína á því að hann teldi nauðsynlegt að mæta þörfum þriggja hópa sem hann nefndi sérstaklega hvað þetta varðar, þörfum aldraðra, þörfum öryrkja og þörfum námsmanna. Ef hv. þm. les grg. með till. sem hv. þm. Kristín Ástgeirsdóttir var að enda við að mæla fyrir þá kemur mjög skýrt fram í þeirri grg. að þessir hópar eru ótvíræðir forgangshópar. Þar er talað sérstaklega um námsmenn, það er talað sérstaklega um fatlaða, það er talað sérstaklega um gamalt fólk og það er talað sérstaklega um einstæða foreldra. Síðan er talað sérstaklega um sérþarfir landsbyggðarinnar þar sem oft fæst ekki fólk til starfa vegna skorts á leiguhúsnæði. Þetta eru þau fimm atriði sem nefnd eru í grg. með till. Ég sé ekki að hv. þm. hafi nokkra ástæðu til að ætla að fyrir þær 250 millj. sem þarna er lagt til að leggja fram verði lagt út í einhverja óráðsíu með leiguhúsnæði eins og helst mátti marka af hans orðum.

Hitt er svo aftur annað mál að Kvennalistinn er þeirrar skoðunar að fólk eigi hér á landi að geta valið um það hvort það byggir sjálft eða hvort það býr í leiguhúsnæði og líka fólk sem ekki tilheyrir þeim hópum sem við höfum hér rætt um. Hv. þm. talaði ákaflega óvirðulega um þann hóp og helst var á honum að skilja að það væri fólk sem ekki vildi borga afborganir og vexti af húsnæðislánum eins og annað fólk, fólk sem ekki nennti að sjá um hús sín og þar fram eftir götum. Ég vil benda hv. þm. á að fólk borgar húsaleigu í leiguhúsnæði og það án þess að hljóta nokkur eignarréttindi af húsnæðinu þannig að það er einfaldlega spurning um val, hvort fólk vill greiða fyrir sína búsetu í einhverju húsnæði án þess að eignast það, eða hvort það vill greiða fyrir búsetu sína og eignast það líka. Það er allt og sumt sem þarna skilur á milli.

Þm. fór líka geyst með að honum fannst vanta útfærslu á þessari till. Hann spurði: Hver eiga að vera stærðarmörk íbúða? Hvar eiga að vera tekjumörk þeirra sem fá inni í svona húsnæði eða fá fjármagn til að byggja það? Hvar eiga leiguhjallahverfin að rísa? Þm. Kvennalistans ætla sér ekki þá dul að ákveða slíkt í þingsölum. Slíkt ráðstjórnarlag viðgengst einfaldlega ekki í þingflokki Kvennalistans. Hér á landi höfum við Húsnæðisstofnun þar sem sitja fulltrúar stjórnmálahreyfinga og stjórnmálaflokka. Eins og flm. gerði grein fyrir er gert ráð fyrir að því fé, sem varið yrði til byggingar leiguhúsnæðis samkvæmt þessari till., yrði ráðstafað til Húsnæðisstofnunar ríkisins og hún mundi síðan ráðstafa því áfram. Þar eru auðvitað teknar slíkar ákvarðanir.

Virðulegi forseti. Ég held að ég hafi þessi orð ekki mikið lengri. Það sem skín út úr þessu öllu saman er það að hv. síðasti ræðumaður talar fyrir ákveðinni stefnu í húsnæðismálum. Það er sjálfseignarstefnan. Ekki unir hann við að þau nýju húsnæðislög, sem voru sett hér í lok síðasta þings, eru einhver mesta niðurnegling á sjálfseignarstefnunni sem nokkurn tíma hefur verið gerð hér á landi. Þá herskyldu, sem ég vil nefna svo, að koma sér upp eigin húsnæði, vilja sjálfstæðismenn greinilega leggja á alla hér á landi og það í svo miklum mæli að ekki má víkja frá hársbreidd án þess að hér fari allt í háaloft.