02.12.1986
Sameinað þing: 24. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 1298 í B-deild Alþingistíðinda. (1135)

195. mál, leiguhúsnæði

Flm. (Kristín Ástgeirsdóttir):

Herra forseti. Hv. 2. þm. Norðurl. e. spurði hér spurninga og ég ætla að reyna að svara þeim á einhvern hátt. Ég tók það sérstaklega fram í framsögu minni áðan að þessi till. gengur út frá núgildandi lögum um Húsnæðisstofnun ríkisins og till. gengur ut frá c-lið 33. greinar. Í þeirri grein segir, með leyfi forseta, - þessi kafli fjallar um Byggingarsjóð verkamanna og félagslegar íbúðabyggingar:

„Hlutverk Byggingarsjóðs verkamanna er að annast lánveitingar til félagslegra íbúðabygginga með það að markmiði að bæta úr húsnæðisþörf láglaunafólks.“ Síðan kemur skilgreiningin á því hvað eru félagslegar íbúðir og í c-lið segir: „Leiguíbúðir sem byggðar eru eða keyptar af sveitarfélögum, stofnunum á þeirra vegum og/eða ríkisins, eða af félagasamtökum og ætlaðar eru til útleigu við hóflegum kjörum fyrir námsfólk, aldraða og öryrkja.“ Þessi tillaga gengur út frá þessum lið því við höfum nú ekki gengið svo langt að sinni að gera brtt. á þessum lið þannig að hann verði opnaður. Reyndar tel ég vera nauðsyn á því þannig að fleiri aðilar eigi rétt á lánum úr Byggingarsjóði verkamanna, t.d. félag eins og Búseti.

Þær upplýsingar sem fram koma í grg. og það sem ég tíundaði hér áðan er auðvitað fyrst og fremst rökstuðningur fyrir þörfinni á leiguhúsnæði og mér þykir hv. þm. ganga ansi langt í útlistunum sínum þegar hann fer að sjá fyrir sér leiguhjalla og jafnvel heilu hverfin. Það gilda nú þær reglur hér í skipulagi að yfirleitt er íbúðum dreift býsna mikið og hverfi eru yfirleitt blönduð svo að ég tel ekki hættu á að slík hverfi myndist, enda er það alls ekki ætlunin, og eins og hv. þm. Halldór Blöndal veit mætavel þá gilda ákveðnar reglur hjá byggingarsjóðunum um staðalíbúðir og lánin eru veitt í samræmi við það. Ég vil bara benda á það. Þar af leiðandi mundu leiguíbúðir að sjálfsögðu falla undir þær reglur.

Þessi till. gengur einfaldlega út á það að veitt sé ákveðinni upphæð, þá væntanlega inn í Byggingarsjóð verkamanna, sem hefur þessu hlutverki að gegna og að sveitarfélögin og þeir aðilar, sem núna geta byggt leiguhúsnæði samkvæmt lögunum, viti þá að þau geti gengið að þessu fjármagni. En eins og ég sagði þá gerum við ekki brtt. við lögin að svo stöddu.

Ég held reyndar að í máli hv. þm. hafi aðeins blandast inn í þetta mál önnur þáltill. sem hér liggur fyrir sem er frá Alþfl. um kaupleiguíbúðir og það er margt gott um það mál að segja, en líka ýmislegt við það að athuga.

Ég held að ég svari ekki fleiru að sinni en ítreka að þessi till. gengur út frá núgildandi lögum.