02.12.1986
Sameinað þing: 24. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 1299 í B-deild Alþingistíðinda. (1136)

195. mál, leiguhúsnæði

Stefán Valgeirsson:

Herra forseti. Ég lít svo á að sú þáltill. sem hér er til umræðu eigi fullan rétt á sér. Ekki það að ég er þeirrar skoðunar að það eigi að stuðla að því þeir sem hafa möguleika á að eignast íbúð og geta staðið undir því geri það. Hitt er annað mál að það eru margir í þjóðfélaginu sem geta það ekki. Það er til skammar t.d. hvernig sumt gamla fólkið þarf að búa, m.a.s. hér í borginni. Ég gæti komið með nokkur dæmi þess. Líka má nefna í sambandi við atvinnulífið í sumum stöðum úti á landi að það er ekki hægt að fá fólk vegna þess að það eru ekki til íbúðir. Þó að menn vilji flytja í þessa staði um tíma og nauðsynlegt sé að fá þangað fólk sem hefur ákveðna þekkingu þá vilja menn ekki kaupa íbúð í stuttan tíma, jafnvel þó að þeir ætli sér að setjast þar að nokkur ár, hvað þá ef um enn skemmri tíma er að ræða.

Við vitum það, og ég þekki það af mínu starfi, að t.d. einstæðar mæður með börn hafa sumar hverjar ekki möguleika á að eignast íbúð. Það fer auðvitað eftir því hvað þær hafa fengið út úr sínu búi, ef þær hafa skilið, en margar konur, bæði ekkjur og fráskildar konur, standa eftir þannig að þær hafa ekki möguleika á því. Það er auðvitað rétt að þessar konur eiga að sitja fyrir. Það er rétt. En þeirri þörf er í dag ekki fullnægt. Það er staðreynd. Ég hef því ekki samvisku til annars en að taka alveg undir þessa till. Hún á fullan rétt á sér.

Spurningin er náttúrlega hvort þarna á að vera inni einhver tala, 250 millj. eða eitthvað meira eða minna. Ég held að sú tala sem þarna er nefnd muni ekki einu sinni fullnægja á nokkrum árum þeirri þörf sem er í okkar þjóðfélagi, þannig að við hljótum að stefna að því að jafna aðstöðumuninn, bæði að þessu og öðru leyti, og vera manneskjur til þess að hafa það takmark og gera það sem í okkar valdi stendur til að ná því. Spurningin er á hvað stuttum tíma og hvað við getum, en alla vega á að stefna að því.