02.12.1986
Sameinað þing: 24. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 1304 í B-deild Alþingistíðinda. (1140)

195. mál, leiguhúsnæði

Flm. (Kristín Ástgeirsdóttir):

Herra forseti. Ég vil þakka fyrir þær hressilegu umræður sem hér hafa orðið um þessa till. en mig langar að segja það að lokum að ég er mjög sammála hv. þm. Halldóri Blöndal um það að það þyrfti að efla verkamannabústaðakerfið. Sumir eru mjög gagnrýnir á það en ég held að það kerfi hafi reynst mörgum vel. En því miður hefur ekki tekist að fullnægja þeim þörfum sem því kerfi er ætlað að uppfylla. Því miður. (Gripið fram í: Það er málið.) Já, og það sem meira er, eins og efnahagsmál hafa þróast hér á landi á undanförnum árum hefur komið í ljós að það eru allnokkrir sem ekki ráða einu sinni við þau kjör sem verkamannabústaðakerfið býður upp á. Þess eru allmörg dæmi að íbúðir í verkamannabústöðum hafi lent á nauðungaruppboðum nú á undanförnum mánuðum, því miður.

Mig langar að benda hv. þm. Halldóri Blöndal á það að fólk hugsar misjafnlega og sumir geta einfaldlega haft þá stefnu í lífinu að eiga ekki neitt, langa bara ekki til þess að eiga nokkurn skapaðan hlut og vilja ekki láta eignir, það sem mölur og ryð fá grandað, binda sig. Mér finnst að það eigi að vera sjálfsögð regla í samfélaginu að fólk geti valið, að það sé ekki verið að stefna öllum inn á eina braut.

Að lokum, herra forseti, vil ég ítreka það að þessari till. verði vísað til félmn.

Umræðu (atkvæðagreiðslu) frestað.