03.12.1986
Efri deild: 16. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 1308 í B-deild Alþingistíðinda. (1146)

209. mál, sjómannadagur

Björn Dagbjartsson:

Virðulegi forseti. Ég hef verið mikill efasemdarmaður um alla þá lögbundnu frídaga sem eru hér á landi umfram það sem tíðkast svo víða erlendis. Við höfum uppstigningardag, við höfum skírdag, við höfum annan í páskum og hvítasunnu, fyrsta sumardag, frídag verslunarmanna, þingmenn höfðu frí 1. desember s.l. og frí er í skólum, mánaðarfrí og þess háttar sem að vísu er kannske ekki lögboðið.

Það er svo sem auðséð að tekjur, hvorki þjóðartekjur né tekjur heimila, aukast ekki við það að við fjölgum frídögum. Við urðum vitni að því fyrir nokkrum árum, þegar illa gekk að ná saman kjarasamningum, að orlof var lengt, en hverju það hefur skilað launþegum eða þjóðarbúinu veit ég ekki.

Ég var í haust, þegar hv. þm. Eiður Guðnason mælti fyrir sínu frv. sem hann gat um áðan, í nokkrum vafa um nauðsyn þess að lögbinda frídag sjómanna og ég er það að nokkru leyti enn. Ég er ekki alveg viss um nauðsyn þess, en ég mun vissulega fylgjast vel með í sjútvn. og hlusta grannt á málflutning þeirra hagsmunaaðila sem munu örugglega koma á okkar fund.

Sjómannadagurinn, eins og hæstv. ráðh. gat um, hefur verið haldinn hátíðlegur býsna lengi og sjómannadagurinn er vegleg hátíð í mörgum sjávarplássum úti um land. Ég minnist þess að hafa verið tvo sjómannadaga í Vestmannaeyjum þar sem voru veruleg hátíðahöld. Ég er sannfærður um að þau verða áfram hvort sem þetta verður lögbundið eða ekki. Eins hef ég átt þess kost að vera á sjómannadegi bæði á Húsavík og eins í Neskaupstað. Sérstaklega man ég eftir að þar voru verulega mikil hátíðahöld og íbúar í Neskaupstað töldu að þjóðhátíðardagur Íslands hyrfi gersamlega í skuggann af sjómannadeginum.

Ég hef sem sagt haft vissar efasemdir um að þessar þvinganir, sem vissulega eru í frv., væru nauðsynlegar. Auk þess má velta því fyrir sér hvers vegna hv. alþm. og hæstv. ríkisstjórn hafa skyndilega svo mikinn áhuga á þessu máli. Sjálfsagt er rétt, eins og hæstv. ráðh. gat um áðan, að menn vöknuðu til nokkurrar meðvitundar um mikilvægi dagsins þegar kosningadag s.l. vor bar upp á sjómannadag. Ég man eftir því að það voru ekki allir mjög ánægðir með það og er jafnvel sagt að sumir hafi setið heima á kjördegi þess vegna. En mér finnst að það bjóði heim ýmsum vandamálum að binda mjög fast í lögum að öll fiskiskip skuli vera inni ákveðinn dag. Það er ekki aðeins að það mun berast mikill afli að landi. Við getum hugsað okkur t.d. ef hér í Reykjavík kæmu skyndilega 14 skip inn sama daginn og auk þess mundu þau þá hefja veiðiferð væntanlega um svipað leyti næst. Ég á við 14 stóra togara. Eins er á Akureyri þar sem gæti orðið heimahöfn a.m.k. 8 stórra fiskiskipa á næstunni.

Það er í 5. gr. frv. gert ráð fyrir því að hægt sé að veita undanþágur frá þessum lögboðnu innkomum skipanna. Í þeirri grein og reyndar víðar í frv. er gjarnan talað um kl. 12 á laugardag, en alltaf kl. 12 á mánudagsmorgni. Að hverju leyti laugardagur kl. 12 er öðruvísi en mánudagsmorgunn kl. 12, hver áherslan er þar, skil ég ekki, það getur verið að þetta sé bara hortittur, hvers vegna lögð er áhersla á kl. 12 á mánudagsmorgni, en aftur sagt að það skuli vera kl. 12 á laugardag og sjálfsagt átt við hádegi báða dagana.

En það eru ákvæði í 5. gr. um að ákvæði 1. mgr. skuli vera frávíkjanleg ef um er að ræða skip sem ætlað er að sigla með afla sinn á erlendan markað

eða aðrir mikilvægir hagsmunir eru í húfi, enda hafi samkomulag tekist um slíkt milli útgerðarmanna og meiri hluta skipshafnar. Þarna vildi ég setja punkt. Mér finnst það ákaflega þungt í vöfum og vafasamt að það takist ætíð að viðkomandi sjómannafélag skuli hafa tilkynnt um slíkt samkomulag fjórum vikum fyrir. Maður getur vel hugsað sér að það verði breytingar í áhöfn og að það liggi alls ekki ljóst fyrir hver meiri hluti áhafnar verður nákvæmlega þennan dag. Mér finnst sem sagt nóg að það sé einfaldlega um það samkomulag milli áhafnar og útgerðar að frá þessu megi verða undantekningar.

Það er ekki aðeins að þessar fjórar vikur gætu orðið óþarflega langur tími heldur gæti allt eins verið að aðstæður breyttust gjörsamlega á þessum tíma. Við vitum að það er orðið æðimikið hagsmunamál fyrir sjómenn á t.d. fiskiskipum og þeim sem selja ísaðan fisk að nákvæmlega sé - hvað eigum við að segja - stillt inn á góða söludaga. Menn geta ekki spáð í markað á ísuðum fiski kannske fjórar vikur fram í tímann. Menn hljóta að geta komist að samkomulagi um þetta án þess að þurfi að tilkynna það með svona löngum fyrirvara.

Ég vildi að menn skoðuðu þennan möguleika og ég vil, eins og ég sagði áður, endilega hlusta grannt á hagsmunaaðila sem væntanlega koma á fund okkar í sjútvn.