03.12.1986
Efri deild: 16. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 1314 í B-deild Alþingistíðinda. (1150)

209. mál, sjómannadagur

Davíð Aðalsteinsson:

Hæstv. forseti. Við hv. þm. Vesturlands höfum áhuga fyrir mörgum málum sameiginlega, ekki síst fyrir frv. sem hér er til umræðu, frv. til l. um sjómannadag.

Þegar svipað mál var til umræðu fyrr á þessu þingi, þ.e. það frv. til l. sem hv. 5. landsk. þm. og fleiri lögðu fram og hv. 5. landsk. þm. mælti hér fyrir, lýsti ég því yfir að ég teldi það frv. fremur magurt. Það væri óhjákvæmilegt að setja í lög fyllri reglur um framkvæmd sjómannadagsins, ef ég má svo að orði komast. Það væri útilokað að hafa sjómannadaginn fortakslaust löghelgan án þess að það væru settar fyllri reglur.

Frv., sem hér er til umræðu og lagt er fram og mælt er fyrir af hálfu hæstv. sjútvrh., tekur til allra þeirra atriða sem ég minntist á í hinni fyrri umræðu nm svipað mál. Ég geri fremur ráð fyrir að hv. sjútvn., þrátt fyrir og ég efast ekki um vandaðan undirbúning þessa máls af hálfu hæstv. sjútvrh., ræði við hagsmunaaðila um framkvæmdina eins og nauðsynlegt er. Það er mjög nauðsynlegt að um þetta mál ríki einhugur. Það getur sitt sýnst hverjum, en ég legg ríka áherslu á að um máhð verði einhugur.

Varðandi 1. gr. frv. er það e.t.v. til athugunar, eins og ég hef raunar getið um áður við ekki ólíkar aðstæður og í svipaðri umræðu, að sjómannadagurinn skuli vera almennur fánadagur eins og hér er lagt til. Eins og menn vita eru hinir löghelgu fánadagar undir svokölluðum forsetaúrskurði um fánadaga. Ég ætla ekki að halda því fram að það sé óeðlileg málsmeðferð að löghelga fánadag sjómanna með þessum hætti, síður en svo, en ég mælist til þess að hv. sjútvn. athugi þennan þátt frv., hvort eðlilegra sé að þau ákvæði verði í lögum um sjómannadag eða í öðrum lögum.

En ég mæli með því að þessu frv. verði fremur hraðað. Ég fylgi því heils hugar. Ég tek að sjálfsögðu þeim rökum sem liggja til grundvallar hugsanlegum breytingum í nefnd, en legg áherslu á að málið nái fram að ganga.