03.12.1986
Efri deild: 16. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 1316 í B-deild Alþingistíðinda. (1154)

209. mál, sjómannadagur

Björn Dagbjartsson:

Virðulegi forseti. Ekki ætla ég að blanda mér í umræður um hvort hryggur hafi verið í frv. hv. þm. Eiðs Guðnasonar eður ei. Hvort sem honum finnst það undarlegt eða ekki leyfi ég mér að halda því fram að mér finnst svolítið skrýtið, fyrst ekki hefur verið talin ástæða til þess í fimmtíu ár að lögbinda þennan frídag sjómanna, hvers vegna rokið er upp til handa og fóta núna. Frv. hv. þm. Eiðs Guðnasonar kom fram með mjög skjótum hætti í fyrravor og það kemur fram aftur núna. Að vísu er ákaflega lítið í því frv., eins og hv. 3. þm. Suðurl. hefur sagt.

Það er misskilningur að ég hafi einhvers staðar sagt að þetta væri hættuleg viðbót við þann frídagafjölda sem við höfum. Ég held því enn fram að frídagafjöldi á Íslandi sé ekki til að bæta lífskjör. Ég held því fram enn þá að breyttir útgerðarhættir, t.d. á frystiskipum, t.d. með mikilli sölu á ísuðum fiski, geti einmitt orðið til þess að tekjur sjómanna lækki við það ef þeir eru skyldaðir til að koma inn hvernig sem á stendur á vissum degi. Ég held því enn þá fram að eins og það hefur viðgengist í fimmtíu ár geti sjómenn, útvegsmenn og fiskvinnslan komið sér saman um að halda þennan dag hátíðlegan eins og verið hefur og eins og ber að gera.