03.12.1986
Efri deild: 16. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 1317 í B-deild Alþingistíðinda. (1156)

209. mál, sjómannadagur

Skúli Alexandersson:

Virðulegi forseti. Ekki ætla ég að blanda mér í umræðuna um hrygglosið eða hryggbrotið eða hvað það er á milli hv. þm. Árna Johnsen 3. þm. Suðurl. og 5. landsk. þm., en ég undirstrika enn á ný að flutningur frv. hv. 5. landsk. þm. Eiðs Guðnasonar vakti ákveðna athygli á þessu máli. Ég hef vissan grun um að þó að það hafi kannske ekki verið burðugt og ekki með sterka hrygglengju hafi það verið viss hvati að því að málið er komið til umræðu núna.

En það sem kom mér til að koma upp í ræðustólinn aftur var einkennileg skilgreining hv. 5. þm. Norðurl. e. á því að þetta mál sé komið hér til umræðu. Hann sagði að hér væri rokið upp til handa og fóta eftir að þessi hátíðisdagur væri búinn að vera í fimmtíu ár til að lögbinda hann. Hvað skyldu vera mörg lögin, sem eru samþykkt á hv. Alþingi, sem að einhverju leyti er hægt að vísa aftur í fimmtíu ár, hundrað ár og jafnvel miklu meira? Það eru skrýtin rök fyrir því að ekki skuli vera sett lög að þetta sé nú búið að vera svona í fimmtíu ár og hvernig í ósköpunum standi á því að breyta eigi þessu eitthvað núna. Ef nokkuð er íhaldssemi er það nú þetta. Það er kannske svo að hv. þm. þyki gott að vera kallaður íhaldsmaður.

En hann var einnig að halda því fram að tekjur heimila mundu ekki aukast við það að einum lögbundnum frídeginum væri bætt við. Ég hef frekar trú á því að það muni gerast, með ákveðinni bindingu frídaga muni ýmsir hlutir nýtast betur en með allri þeirri kraftasókn sem hér er beitt í sambandi við sjávarútveg. Það hefur sýnt sig að ýmislegt hefur breyst til hins betra við það að vinnutími hefur verið styttur. Við minnumst þess að í verkfallinu 1978 gerðist það að verkamannafélagið Dagsbrún setti á yfirvinnubann. Hvað kom út úr því dæmi? Það kom út úr því dæmi að þau fyrirtæki sem voru þá rekin aðeins með dagvinnunni skiluðu sömu afköstum og ef þar hefði verið unnið tíu stundir eða lengur.

Það þarf stundum að taka á með lagasetningu þeirri kraftavinnu og þeirri kraftasókn sem beitt er á ýmsa vegu í þjóðfélaginu. Það þarf að taka fram fyrir hendurnar á ýmsum atvinnurekendum á þann veg að það sé bundið með lögum að fólk skuli hafa frí, hvort sem það er frí á venjulegum hvíldartíma eða á hátíðisdögum sem þessum.