03.12.1986
Neðri deild: 16. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 1325 í B-deild Alþingistíðinda. (1162)

211. mál, kjarasamningar opinberra starfsmanna

Svavar Gestsson:

Virðulegi forseti. Það frv. sem hér liggur fyrir er í raun og veru samningur milli félaga opinberra starfsmanna annars vegar, þ.e. Bandalags starfsmanna ríkis og bæja, Launamálaráðs ríkisstarfsmanna innan BHM og Bandalags kennarafélaga og opinberra aðila sveitarfélaga og ríkisins hins vegar.

Þessi samningur eða niðurstaða verður til með bókun sem er dagsett í fjmrn. 24. nóvember s.l. Þetta mál kemur síðan til umræðu á Alþingi þegar fáeinir dagar eru liðnir af desember og það er ætlast til þess að hv. Alþingi setji stimpil á þetta og afgreiði málið núna á þeim þremur vikum sem eftir eru fram að jólum.

Það er auðvitað slæmt að standa svona að málum, að stilla þinginu með þessum hætti upp við vegg. Þó að hér sé vafalaust um að ræða hið ágætasta mál, samkvæmt því sem ég hef kynnt mér, er hitt ljóst að með þessum takmarkaða tíma er réttur alþm. og möguleikar til að hafa áhrif á málið og texta frv. rýrður mjög verulega. Ég held að við meðferð svona mála þurfi stjórnvöld að temja sér önnur vinnubrögð, þ.e. þau að a.m.k. fulltrúar stjórnarandstöðuflokka fái auk ríkisstjórnarinnar möguleika á því að fylgjast með gerð máls af þessu tagi á undirbúningsstigi. Ég held að það sé mjög mikils um vert að um mál af þessu tagi sé víðtækt samkomulag, ekki aðeins milli ríkisstjórnarinnar og aðila vinnumarkaðarins, heldur líka innan þingsins. Og ég tel að það sé gagnrýni vert að ganga frá máli af þessu tagi af hálfu ríkisstjórnarinnar án þess að gefa stjórnarandstöðuflokkum formlega möguleika á því að hafa áhrif á málið eða a.m.k. að fylgjast með gerð þess svo að segja frá degi til dags á meðan þetta mál er að verða til sem frv.

Svo vill til að ég á sæti í þeirri nefnd sem fær þetta mál til meðferðar þannig að ég mun ekki eyða löngum tíma í að fara yfir efnisatriði frv. Ég mun fyrir mitt leyti óska eftir því í nefndinni að á vettvang hennar verði kallaðir fulltrúar samtaka opinberra starfsmanna, þeirra sem undirrituðu textann í fjmrn. 24. nóvember s.l., og óska eftir því að farið verði yfir þetta frv. grein fyrir grein í nefndinni eins og sæmir í vönduðum vinnubrögðum þingnefnda. Ég tek það hins vegar fram, fyrst og fremst vegna þeirra óska sem fram hafa komið af hálfu samtaka opinberra starfsmanna, að ég mun fyrir mitt leyti gera það sem ég get til að greiða fyrir því að þetta frv. fái sem skjótasta meðferð en áskilja mér, auðvitað, allan rétt til þess að reyna að tryggja að sú meðferð sem málið fær í þinginu verði vönduð í alla staði.

Ég vil aðeins víkja að því, í fyrsta lagi, varðandi efnisatriði þessa máls að ég hefði talið eðlilegt að ákvæði þessa frv. næðu til tollvarða og lögreglumanna með sama hætti og gildir um aðra opinbera starfsmenn. Ég tel að það sé óeðlilegt að þessir hópar séu algjörlega fyrir utan mál af þessu tagi. Og ég bendi á að þeir möguleikar sem opinberir starfsmenn hafa skv. þessu frv. til að þrýsta á í kjaradeilum og verkföllum eru í raun og veru mjög víða fremur gagnvart einstaklingum sem þjónustu eiga að njóta af hálfu ríkisins heldur en ríkinu sjálfu. Ég tel að þessar takmarkanir gagnvart lögreglumönnum og þó sérstaklega tollvörðum, veiki í raun og veru stöðu samtaka opinberra starfsmanna frá því sem verið hefur og vera þarf ef aðilar eiga að geta tekist á um kaup og kjör með eðlilegum hætti.

Ég vil víkja þessu næst, virðulegi forseti, að 5. og 6. gr. frv., en í 5. gr. er kveðið á um skilyrði þess að félög opinberra starfsmanna geti verið samningsaðilar. Þar er tekið fram í 3. tölul. 5. gr. að eitt skilyrðanna sé að félag taki til a.m.k. 2/3 starfsmanna sem undir lögin heyra og eru í starfsstétt með lögformleg starfsréttindi eða uppfylla skilyrði um formlega menntun sem jafna má til slíkra starfsréttinda og að þeir félagsmenn séu 40 eða fleiri.

Ég spyr hæstv. fjmrh. að því hvort það hafi verið rætt í viðræðum við opinbera starfsmenn hvaða líkur eru á að þessi skilyrði 5. gr. breyti félagslegri uppbyggingu Bandalags starfsmanna ríkis og bæja frá því sem nú er. Ég hygg að svo geti farið. Kannske eru menn með vísvitandi hætti að stuðla að breytingu á félagslegri uppbyggingu Bandalags starfsmanna ríkis og bæja. Ég vil alla vega inna hæstv. fjmrh. eftir því hvort um það er að ræða, en í 6. gr. frv., síðustu málsgr., segir:

„Stofnun nýs félags, sem fer með samningsumboð skv. 5. gr., skal tilkynna a.m.k. þremur mánuðum fyrir lok samningstímabils þeirra kjarasamninga sem gilda fyrir félagsmenn hins nýja félags.“

Þessi málsgr. bendir til þess alveg ótvírætt að 40 manna hópur opinberra starfsmanna, sem að öðru leyti uppfyllir skilyrði 5. gr., geti, ef hann tilkynnir það innan þriggja mánaða, gert kröfur sem fullgilt stéttarfélag fyrir hönd síns hóps. Ég skil það svo, og ég vænti að það sé tryggt, að hér sé um einhliða rétt hinna opinberu starfsmanna að ræða og það þurfi ekki annað en að uppfylla þessa tilkynningarforsendu. Það sé ekki á færi fjmrn. að vefengja á neinn hátt þessa tilkynningu skv. 3. málsgr. 6. gr. ef félagið að öðru leyti uppfyllir ákvæði þessa frv., þ.e. 5. gr. þess.

Ég vil taka það fram þessu næst, virðulegi forseti, að ég tel að það sé til bóta að fella kjaradeilunefndina niður og að koma annarri skipan á mál en gert var ráð fyrir undir kjaradeilunefndinni. Það var alltaf mjög erfitt fyrirkomulag, olli stöðugum deilum í kjaraátökum. Þess vegna var óhjákvæmilegt að leita annarra leiða en gert var ráð fyrir í gildandi lögum. Á þessum forsendum gerist það síðan að settur er upp ákveðinn listi jafnframt því sem losað er um ýmis ákvæði vegna kjarasamninga og verkfalla opinberra starfsmanna, t.d. varðandi skyldur sáttasemjara til að leggja fram tillögu í kjaradeilum á ákveðnu stigi kjaradeilunnar.

Í 11. gr. er hins vegar um að ræða ákvæði sem er áframhaldandi binding á möguleikum opinberra starfsmanna, en þar segir:

„Kjarasamningur framlengist um sex mánuði í senn með óbreyttum uppsagnarfresti hafi honum eigi verið sagt upp réttilega.“

Venjan er sú samkvæmt lögunum um stéttarfélög og vinnudeilur að samningsaðilar koma sér saman um hversu langir frestir eru teknir þegar um er að ræða uppsögn kjarasamninga og eða framlengingu þeirra. Þess vegna slær það mig þannig - nema flutt verði önnur og meira sannfærandi rök en þau að þetta sé eins og í gildandi lögum - að þarna sé um að ræða ákvæði sem sé í rauninni óeðlilegt miðað við hvað er að gerast í þessu frv. að öðru leyti. Ég vil a.m.k. áskilja mér allan rétt til að skoða þetta ákvæði 11. gr. miklu nánar.

Ég tel, eins og ég sagði áðan, virðulegi forseti, að það sé ekki ástæða til að fjölyrða frekar um mál þetta við 1. umr. vegna þess að að sjálfsögðu verði aðilar málsins kallaðir fyrir fjh.- og viðskn. þegar hún fær þetta mál til meðferðar. Ég vil þó að lokum inna eftir einu atriði varðandi III. kafla frv., sem fjallar um verkföll, 14.-25. gr. Ég sé ekki í þessum greinum ákvæði um samúðarvinnustöðvanir og inni hæstv. fjmrh. eftir því hvort það beri að skilja kafla frv. svo að um samúðarvinnustöðvanir opinberra starfsmanna gildi þess vegna hin almennu lög um stéttarfélög og vinnudeilur eða hvort um þetta mál hafi verið fjallað með öðrum hætti í viðræðum fjmrn. við samtök opinberra starfsmanna. Hér er um að ræða mjög mikilvægt atriði varðandi samskipti samtaka launafólks, Bandalags starfsmanna ríkis og bæja og annarra samtaka opinberra starfsmanna annars vegar og Alþýðusambands Íslands hins vegar. Það er eðlilegt að svo miklu leyti sem nokkur kostur er að svipaðar reglur gildi um þessa hluti hjá þessum samtökum þannig að ekki komi til árekstra á m.illi þeirra þegar um er að ræða framkvæmd vinnudeilna á hvaða stigi sem þær kunna að vera.

Ég tel þetta vera stórmál í þessu sambandi og óska eftir því að fjmrh. þegar við 1. umr. greini frá því hvað hafi farið á milli aðilanna um samúðarvinnustöðvanir og ákvarðanir um þær. Þá er ég auðvitað ekki aðeins að tala um hugsanlegar samúðarvinnustöðvanir félaga innan samtaka opinberra starfsmanna. Ég er líka að tala um samúðarvinnustöðvanir sem talið væri nauðsynlegt að grípa til vegna verkfalla sem í gangi væru á vegum Alþýðusambandsfélaganna, verkfalla sem háð eru innan þess ramma sem lögin um stéttarfélög og vinnudeilur gera ráð fyrir.