03.12.1986
Neðri deild: 16. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 1327 í B-deild Alþingistíðinda. (1163)

211. mál, kjarasamningar opinberra starfsmanna

Páll Pétursson:

Virðulegi forseti. Aðeins örfá orð við 1. umr. málsins. Ég hef tækifæri til þess sem formaður þeirrar nefndar sem málið fer til að lokinni þessari umræðu að fjalla nánar um það þar. Ég vil þó við 1. umr. málsins láta í ljós ánægju mína yfir þessu frv. Þarna er um samning að ræða sem ég held að hafi tekist dável og hafi verið unnið skynsamlega að og ég kann þeim þakkir sem festu hann á blað. Það er alveg ljóst að á þeim lögum sem í gildi eru hafa komið í ljós ýmsir annmarkar og ágreiningur hefur risið um túlkun á ýmsum ákvæðum laganna. Þannig held ég að fullkomin ástæða sé til að finna betra form á þessi vandasömu og viðkvæmu samskipti. Ég held að það hafi verið unnið skynsamlega að undirbúningi þessarar lagasetningar hér til og ég vonast eftir því að Alþingi beri jafnframt gæfu til að vinna skynsamlega að sínum hluta.

Einn nefndarmaður, hv. 3. þm. Reykv., var með ákveðnar óskir um málsmeðferð í nefndinni. Ég get skýrt frá því strax að ég mun reyna að verða við óskum hans um að nefndarmenn fái þær upplýsingar sem þeir óska eftir. Ég mun hins vegar jafnframt reyna að hraða meðferð málsins í nefndinni og halda langa fundi og tíða. Ég treysti því að nefndarmenn sjái sér fært að mæta vel og reiðulega og vinna að málinu af gaumgæfni.

Ég held að flest þau ákvæði, sem hér er lagt til að breytt verði, séu til bóta. Ég lýsi sem sagt ánægju minni með þetta frv. og ánægju okkar framsóknarmanna. Og ég mun reyna að verða við þeim óskum sem hv. 3. þm. Reykv. setti fram varðandi málsmeðferð í fjh.- og viðskn. deildarinnar.