03.12.1986
Neðri deild: 16. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 1328 í B-deild Alþingistíðinda. (1164)

211. mál, kjarasamningar opinberra starfsmanna

Fjármálaráðherra (Þorsteinn Pálsson):

Frú forseti. Ég þakka þær undirtektir sem fram hafa komið í ræðum hv. 3. þm. Reykv. og 2. þm. Norðurl. v. og þann vilja sem fram hefur komið að greiða fyrir framgangi málsins. Auðvitað er það svo að það er skammur tími til stefnu og á marga lund hefði verið æskilegt að Alþingi hefði getað tekið lengri tíma til umfjöllunar um svo mikilvægt mál. Það var reyndar ásetningur ríkisstjórnarinnar að leggja þetta mál fram fyrr á þinginu, en við töldum að það bæri að gefa sér tíma til að freista þess að ná samstöðu við þau heildarsamtök sem hér eiga hlut að máli. Ég tel mjög mikilvægt að sá tími sem notaður var í því skyni hefur borið þennan árangur og samtök opinberra starfsmanna hafa lagt sig fram um að ná hér samkomulagi. Það hefur auðvitað gert að verkum að málið er að því leyti betur undirbúið en ella þegar það kemur nú fyrir Alþingi.

Vegna ummæla hv. 3. þm. Reykv. um 5. gr. frv. og spurningar um hvort henni væri ætlað að hafa áhrif á félagslega uppbyggingu Bandalags starfsmanna ríkis og bæja, þá er því til að svara að það er ekki stefnt að því með frv. að hafa nein áhrif á uppbyggingu félagslegrar skipunar opinberra starfsmanna. Það hefur frá öndverðu í þessu starfi verið afstaða fjmrn. að opinberir starfsmenn ættu að ráða því sjálfir með hvaða hætti þeir haga skipulagi og uppbyggingu félagsstarfs síns. Hér er hins vegar gert ráð fyrir að félög opinberra starfsmanna geti breytt sínu skipulagi ef þau kjósa svo. Hér eru sett þau skilyrði sem menn urðu sammála um að félög yrðu að uppfylla til að njóta réttinda samkvæmt þessu frv. og það er ekki, eins og fram kemur af greininni, á neinn hátt háð samþykki ráðuneytisins. Séu skilyrðin uppfyllt hafa þau félög sem í hlut eiga þann rétt sem lögin mæla fyrir um.

Að því er varðar spurningu um samúðarvinnustöðvun kemur glöggt fram í III. kafla frv. og 14. gr. þess að það er gert ráð fyrir að heimild til að gera verkfall sé í þeim tilgangi að stuðla að framgangi krafna sinna í deilu um kjarasamning. Það er m.ö.o. ekki gert ráð fyrir því í þessum lögum frekar en þeim lögum sem í gildi hafa verið um verkfall opinberra starfsmanna að verkfall opinberra starfsmanna sé gert í öðrum tilgangi en að hafa áhrif á framgang þeirra krafna sem viðkomandi félög opinberra starfsmanna hafa sett fram.

Þó að eðlilegt sé að svipaðar meginreglur gildi um samningsrétt og fyrirkomulag samninga hjá opinberum starfsmönnum og félögum á almennum vinnumarkaði er það auðvitað svo að það gilda að ýmsu leyti önnur sjónarmið varðandi opinbera starfsmenn. Því er hér fyrst og fremst að því stefnt að tryggja þennan rétt að þessu leyti. Mér er ekki kunnugt um að í viðræðum aðila í þeim viðræðunefndum sem fjölluðu um frv. af hálfu opinberra starfsmanna annars vegar og hins vegar af hálfu fjmrn. hafi komið fram athugasemdir við þessa skipan málsins.