03.12.1986
Neðri deild: 16. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 1329 í B-deild Alþingistíðinda. (1165)

211. mál, kjarasamningar opinberra starfsmanna

Svavar Gestsson:

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. fjmrh. fyrir hans ábendingar og vil láta það koma hérna fram þegar við 1. umr. af minni hálfu að ég tel það mjög veigamikinn galla á frv. og þessari löggjöf í heild þegar með þessum hætti er reynt að byggja hindranir á milli félaga opinberra starfsmanna annars vegar og verkalýðsfélaga á hinum almenna launamarkaði hins vegar að því er varðar samúðarvinnustöðvanir. Við höfum þegar nokkra reynslu í þessum efnum þar sem til árekstra hefur komið og ég óttast að þó að mjög margt í þessu frv. sé til bóta geti þetta ákvæði og hin þrönga túlkun fjmrh. á ákvæðum frv. orðið til þess að fjölga árekstrum framvegis en ekki fækka milli hinna almennu verkalýðsfélaga annars vegar og félaga opinberra starfsmanna hins vegar.

Ég tók hins vegar glöggt eftir því sem hæstv. ráðh. sagði í lok máls síns varðandi það að þetta mál hefði ekki komið til umræðu við meðferð málsins milli fjmrn. og BSRB. Ég mun þess vegna inna forvígismenn BSRB, BHM og Bandalags kennarafélaga eftir því hverju það sæti að þessi mál hafi ekki sérstaklega komið til meðferðar.