03.12.1986
Neðri deild: 16. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 1331 í B-deild Alþingistíðinda. (1169)

196. mál, tollalög

Fjármálaráðherra (Þorsteinn Pálsson):

Frú forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um tollalög sem er 196. mál á þskj. 207.

Það var eitt af fyrstu málum núverandi ríkisstjórnar að beita sér fyrir breytingum á tollalöggjöfinni. Vorið 1983 voru sett bráðabirgðalög til að koma tollalækkunum til framkvæmda. Breyting sú á tollum var þó aðeins liður í áformum um gagngera endurskoðun á ríkisfjármálunum. Það hefur verið að því stefnt og að því unnið að gera veigamiklar breytingar á þeirri löggjöf sem mælir fyrir um tekjuöflun ríkisins, m.a. til að efla atvinnustarfsemi og atvinnuuppbyggingu og bæta starfsskilyrði atvinnuveganna. Endurskoðun tollskrárlaga svo og annarra tekjustofna ríkisins hefur verið við það miðuð að atvinnuvegunum verði almennt gert jafnt undir höfði að því er varðar aðflutningsgjöld. Þá hefur verið lagt fram á Alþingi frv. til laga um virðisaukaskatt sem miðar að því að eyða uppsöfnunaráhrifum söluskatts skv. gildandi söluskattslögum.

Í mars s.l. voru í tengslum við gerð kjarasamninga gerðar verulegar breytingar á tollskrárlögum þar sem tollar voru lækkaðir og samræmdir á matvælum og ýmsum nauðsynlegum rafmagnsheimilistækjum, auk þess sem horfið var frá þeirri gífurlegu skattheimtu sem verið hafði á bifreiðum. Þessar breytingar hafa tvímælalaust dregið stórlega úr útgjöldum heimilanna sem var ein af meginkröfum samningsaðila og ein af meginforsendum þess að þeir víðtæku samningar á vinnumarkaðnum sem gerðir voru í byrjun þessa árs náðust.

Frv. það sem hér liggur fyrir er liður í þeim áformum að einfalda þann þátt tekjuöflunarkerfis ríkissjóðs sem lýtur að innheimtu og álagningu aðflutningsgjalda og með þeim hætti að gera það skilvirkara en um leið að draga úr kostnaði sem bæði innflutningsverslunin og ríkissjóður óhjákvæmilega hljóta að axla við núverandi aðstæður. Leitað hefur verið til ýmissa hagsmunaaðila sem málið varðar og í ýmsum efnum höfð hliðsjón af ábendingum þeirra um fjölmörg atriði.

Að undanförnu hefur jafnframt verið unnið að endurskoðun þeirra gjalda sem lögð eru á innfluttar vörur og vörur framleiddar innanlands með það fyrir augum að fækka gjaldstofnum, eyða uppsöfnunaráhrifum aðflutningsgjalda í innlendri framleiðslu og að öðru leyti með niðurfellingu eða lækkun aðflutningsgjalda í því skyni að efla atvinnustarfsemi og atvinnuuppbyggingu.

Megintilgangur með framlagningu þessa frv. er hins vegar þessi:

1. Að setja heildarlöggjöf um tollheimtu og tolleftirlit þannig að jafnt viðskiptavinir tollyfirvalda sem þau sjálf séu vitandi um réttindi og skyldur varðandi innflutning og útflutning á vörum.

2. Að gera tollmeðferð á vörum sem einfaldasta og taka upp vinnubrögð sem nútímalegir viðskiptahættir krefjast.

3. Að gera yfirstjórn tollamála markvissari, m.a. með því að fela ríkistollstjóra að hafa eftirlit með og samræma störf tollstjóra í einstökum tollumdæmum.

4. Að breyta tollumdæmum þannig að sem mestrar hagkvæmni gæti í rekstri tollembætta og dregið verði sem mest úr kostnaði innflytjenda og farmflytjenda af tolleftirliti.

5. Að kveða skýrt á um yfirstjórn tollgæslunnar, samræma störf tollgæslumanna og að öðru leyti efla tollgæslu.

6. Að taka upp greiðslufrest á aðflutningsgjöldum í þeim tilgangi að stytta birgðahald og geymslutíma hjá innflytjendum og um leið geymslukostnað sem leiða ætti til lækkunar vöruverðs.

7. Að setja skýrari reglur um úrlausn ágreiningsmála til að stuðla að sem mestu réttaröryggi við úrlausn tollamála.

Það er ekki úr vegi að rifja upp helstu almenn sjónarmið sem gæta þarf þegar lagt er af stað við undirbúning og gerð nýs tekjuöflunarkerfis fyrir ríkissjóð eða breytingu á einstökum þáttum þess eins og tollakerfinu. Megintilgangur með flestum sköttum er að afla fjár til þess að standa undir opinberri þjónustu og framkvæmd. Frá sjónarmiði fjáröflunar skiptir mestu að gjaldstofnarnir séu almennir og stórir þannig að afla megi mikilla tekna með sem minnstum tilkostnaði og sem minnstri áhættu á undandrætti. Ljóst er að með þeirri ákvörðun sem tekin var 1970, er ákveðið var að Ísland gerðist aðili að EFTA og síðar með samningi við Evrópubandalagið á árinu 1973, voru lífdagar tolla sem fjáröflunartækis í raun og veru taldir. Fram til þess tíma höfðu þeir verið ein megintekjulind ríkissjóðs auk þess sem kostnaður af innheimtu þeirra var hlutfallslega lítill og hætta á undandrætti sömuleiðis ekki mjög mikil.

Eins og sjá má af fjárlagafrv. fyrir árið 1987 er gert ráð fyrir að tollar verði aðeins tæp 7% af heildartekjum ríkissjóðs en þeir voru um 30% árið 1969 þegar ákvörðun um aðild okkar að Fríverslunarbandalaginu var tekin. Það þarf því ekki að hafa mörg orð um það hvernig núverandi tollakerfi fellur að þeim meginsjónarmiðum sem nefnd hafa verið.

Annað sjónarmið sem hafa verður í huga við breytingu á skattkerfi er tekjujöfnunin. Öll skattlagning hefur tekjuskiptingaráhrif hvort sem að því er stefnt eða ekki. Þótt lagt hafi verið af stað 1970 með góð áform í huga m.a. um samræmda tollun vara er deginum ljósara að núverandi skipan bæði tollskrárinnar og eins þeirra tekjustofna sem hróflað hefur verið upp við hlið hennar virkar í mörgum tilvikum í þveröfuga átt. Prentaðar bækur eru t.d. tollfrjálsar meðan efni bóka, lesið upp á segulband, ber á annað hundrað prósent gjöld. Þessi mismunun jafnar augljóslega ekki tekjur milli sjáandi og ósjáandi svo að dæmi séu nefnd.

Þótt tekjujöfnunarmarkmiðinu sé almennt reynt að ná með beinni skattlagningu á tekjur manna og eignir auk greiðslna í gegnum almannatryggingakerfið er ekki síður hægt að hafa áhrif á tekjuskiptingu með óbeinni skattlagningu, með því að skattleggja vörur með mismunandi hætti og hafa þar með áhrif á ráðstöfunartekjur manna á ýmsa lund.

Þriðja atriðið sem hvers konar skattlagning hefur áhrif á er svonefnd efnahagsleg hvatning sem hagkerfið veitir til starfa, sparnaðar og framtaks. Þá er víst að tekjuöflun hins opinbera og framkvæmd hennar hefur áhrif á ráðstöfun framleiðsluþáttanna milli atvinnugreina, á val milli framleiðsluaðferða, neysluvöru og þjónustu, neyslu og sparnaðar, vinnu og tómstunda og yfirleitt á alla ráðstöfun efnislegra gagna og gæða í hagkerfinu. Engum dylst að uppbygging tollakerfisins skiptir miklu máli í þessu tilliti og er hverjum manni kunnugt að frá 1970 hefur verið stefnt að því til að mynda að auka möguleika iðnaðarins til þess að taka við vinnuafli frá öðrum atvinnugreinum, svo og nýju vinnuafli sem árlega bætist við á vinnumarkaðinn. Tekjuöflunarkerfið snertir hvern samfélagsborgara og hagsmuni hans beint og óbeint og er af þeim sökum eitt viðkvæmasta ákvörðunarefni stjórnvalda.

Meginreglur þær sem gilda um álagningu og innheimtu aðflutningsgjalda er nú að finna í þrennum lögum. Í fyrsta lagi gilda um álagningu aðflutningsgjalda lög nr. 120 frá 1976, um tollskrá o.fl. Í lögum nr. 59/1969, um tollheimtu og tolleftirlit, eru meginákvæðin um yfirstjórn tollamála, tollstjórnina, tollsvæði, tollhafnir o.fl. Þriðju lögin sem fjalla um tollmeðferð á vörum eru lög nr. 43/1960, um tollvörugeymslur o.fl. Í þessum lögum er að finna ákvæði er varða rekstur almennra tollvörugeymslna, tollfrjálsar forðageymslur, tollfrjálsar verslanir og svokallaðar flutningsgeymslur. Í þessum þrennum lögum er gripið á öllum helstu þáttum er snerta tollmeðferð og tollheimtu í tengslum við innflutning og útflutning á vörum. Eðlilegast er að efnisákvæðum er snerta ákveðið réttarsvið sé skipað saman í einn lagabálk. Með því fæst betri yfirsýn yfir gildandi rétt á viðkomandi sviði, réttarskipanin verður gleggri og ætla má að síður verði hætta á að ósamræmis gæti í einstökum atriðum. Við heildarendurskoðun á tollskrárlögum var þegar ákveðið að semja frv. er tæki til allra meginþátta tollkerfisins og er tollafrumvarpið árangur þess starfs. Meginefni tollskrárlaganna frá 1976 er tollnafnaskrá með tolltöxtum sem er eins og menn kannast við byggð á svonefndri Brussel-tollnafnaskrá frá árinu 1963.

Í frv. því til tollalaga sem hér liggur fyrir er gert ráð fyrir því að fyrirkomulagi tollnafnaskrárinnar verði breytt þannig að hún verði ekki lengur hluti af efnisákvæðum laganna heldur verði tollnafnaskráin viðauki við lögin ásamt tolltöxtum sem hafa lagagildi. Er gert ráð fyrir að sérstakt ákvæði verði tekið upp er auðveldi ýmsar tæknilegar breytingar á tollskránni og hægt verði að leiðrétta hana þannig að texti skrárinnar endurspegli m.a. sem nákvæmast tollun vara og dragi þannig úr hættu á mismunun tollmeðferðar á vörum eftir innflytjendum eins og nú er raunin vegna fjölmargra undanþága sem er að finna í auglýsingum og einstökum ráðuneytisbréfum.

Þannig er gert ráð fyrir að taka megi upp ný tollskrárnúmer í tollskrána í þeim tilvikum þegar tollar eru samræmdir á vörum sem gerðar eru úr mismunandi efnum eða fella niður, t.d. þegar framleiðsla er hafin innanlands á vörum sem samningar Íslands við Fríverslunarbandalagið og Evrópubandalagið taka til. Jafnframt verður hægt að taka upp ný tollskrárnúmer til þess að auðvelda framleiðendum innlendra vara að átta sig á samkeppnisstöðu sinni gagnvart innlendum aðilum eða viðkomandi hagsmunasamtökum, eða ríkinu að fylgjast með innflutningsverslun landsmanna. Heimildin felur jafnframt í sér möguleika til þess að leggja af tollskrárnúmer sem kunna að vera orðin dauður bókstafur vegna breyttra framleiðsluhátta.

Loks er lagt til að sérstök heimild verði tekin upp til þess að aðlaga tollskrána þeim breytingum sem kunna að verða samþykktar af tollnafnaskrá Tollasamvinnuráðsins varðandi flokkun vara í tollskrám. Í júní 1983 var lagður fram samningur af hálfu Tollasamvinnuráðsins um nýja vöruflokkun í tollskrá sem nefndur hefur verið Samræmda skráin. Gert er ráð fyrir að þau lönd sem gerast aðilar að skránni taki hana upp 1. jan. 1988. Samningur þessi hefur þegar verið undirritaður af Íslands hálfu og mun hljóta staðfestingu síðar.

Unnið hefur verið að því í fjmrn. að undanförnu að undirbúa upptöku þessarar skrár. Þar sem mjög æskilegt er að tengja upptöku skrárinnar þeirri tölvuvinnslu sem fyrirhuguð er á næstunni og forðast þannig tvöfaldan forritunarkostnað er stefnt að því að Samræmda skráin verði tekin upp á sama tíma. Yrði farið að fordæmi annarra landa í því sambandi.

Með lögum nr. 59/1969, um tollheimtu og tolleftirlit, var tekið upp það nýmæli að fjmrh. gæti falið tollstjóranum í Reykjavík yfirstjórn ákveðinna þátta tollamála eftir því sem henta þætti. Jafnframt var ákveðið að setja við embættið tollgæslustjóra er annaðist, auk starfa sinna við tollstjóraembættið í Reykjavík, yfirstjórn tollgæslunnar utan Reykjavíkur í umboði tollstjórans í Reykjavík, allt eftir nánari ákvörðun fjmrh. Fram til þessa hefur fjmrh. ekki nema að mjög takmörkuðu leyti notfært sér þá heimild sem hann hefur lögum samkvæmt til þess að fela tollstjóranum í Reykjavík slíka yfirstjórn. Sama gildir um störf tollgæslustjóra.

Á síðasta þingi voru sett lög um Ríkisendurskoðun. Samkvæmt þeim er Ríkisendurskoðun færð undir Alþingi og þiggur því vald sitt og umboð frá því. Ljóst er að breyting þessi útheimtir að gerðar verði á starfsemi Ríkisendurskoðunar einhverjar breytingar og mun það óhjákvæmilega hafa áhrif á starfssvið hennar, ekki hvað síst endurskoðun tollskjala sem nú heyrir undir sérstaka tolladeild í Ríkisendurskoðun. Má gera ráð fyrir að deildin í núverandi mynd verði lögð niður og verkefni hennar tvinnuð öðrum skyldum þáttum eins og almennu eftirliti með innheimtu annarra opinberra gjalda en aðflutningsgjalda. Þessi breyting mun krefjast endurskipulagningar á endurskoðun tollskjala almennt hjá tollstjórum.

Nefnd breyting á stöðu Ríkisendurskoðunar í ríkiskerfinu er þó ekki eina ástæðan sem kallar á breytta yfirstjórn tollamála. Unnið hefur verið að tölvuvæðingu embættis tollstjórans í Reykjavík. Tölvuvinnsla innflutnings, bæði að því er varðar innheimtu aðflutningsgjalda og eins öflun upplýsinga til ýmiss konar skýrslugerðar, og síðar tölvuvinnsla útflutnings mun hafa í för með sér verulegar breytingar á starfsemi embættis tollstjórans í Reykjavík og síðar hafa áhrif á starfsemi ýmissa annarra embætta, stofnana og aðila sem við það eiga viðskipti á ýmsum sviðum. Stefnt er að því að undirbúningi að tölvuvinnslunni verði að fullu lokið í júlí n.k. og tölvuvinnsla allra aðflutningsskjala verði hafin 1. september. Meðal þeirra breytinga sem gert er ráð fyrir að verði í kjölfar tölvuvæðingarinnar er að starfsemi tolladeildar Ríkisendurskoðunar flytjist yfir til embættis tollstjórans í Reykjavík, svo og endurskoðun tollafgreiðslna hjá öðrum tollembættum.

Embætti tollstjórans hefur um áratuga skeið annast tollafgreiðslu á nær öllum innflutningi landsmanna eða milli 80 og 90%. Við það embætti hefur einnig vegna umfangs innflutnings og útflutnings skapast ákveðin verkaskipting varðandi tollafgreiðslur. Embættið í Reykjavík hefur því á að skipa mannafla sem er að mörgu leyti sérhæfður í ýmsum greinum tollamála, t.d. vörugreiningu, endurskoðun tollskjala, tollgæslu o.fl. Meðal annars af þeim ástæðum sem hér hafa verið raktar og vegna þess öryggis sem tryggja verður vegna hagsmuna ríkissjóðs við tekjuöflun við núverandi aðstæður er lagt til að tekin verði upp heimild til að fela tollstjóranum í Reykjavík að gegna starfi ríkistollstjóra er hafi eftirlit og boðvald yfir tollstjórum í öðrum tollumdæmum en Reykjavík og kveðið verði nánar á um það í lögum hvaða verkefni honum skuli falin. Samkvæmt tollalögunum er gert ráð fyrir að við embætti tollstjóra starfi eins og nú tollgæslustjóri sem fari með stjórn tollgæslunnar í landinu.

Kveðið er í tillögunum nánar á um ýmis verkefni sem tollgæslustjóra er falið að sinna, eins og fjárreiður tollgæslunnar, ráðningu og stjórnun tollgæslumanna og eftirlit með störfum þeirra og samræmingu. Til þess að efla tollgæsluna í starfi og gera störf hennar virkari og auka jafnframt varnað við brotum á tollalöggjöfinni er lagt til að tekið verði upp skýrt lagaákvæði er heimili tollgæslustjóra að senda tollgæslumenn milli tollumdæma til sérstaks tolleftirlits. Með þeim hætti má veita tollgæslumönnum í einstökum tollumdæmum fyrirvaralaust aukna aðstoð þegar ástæða er talin til og koma við eftirliti sem oft og tíðum skilar ekki árangri nema beitt sé hreyfanlegum mannafla. Slíkt heimildarákvæði er í raun forsenda þess að samvinna, sem lagður hefur verið grundvöllur að með samningum við erlend tollyfirvöld, komi að fullum notum við þau löggæslustörf sem tollgæslunni er ætlað að sinna.

Um úrlausn ágreiningsmála vegna tollmeðferðar vöru gilda ákvæði 36. gr. gildandi tollskrárlaga. Þar er kveðið á um að fjmrh. eigi fullnaðarúrskurð m.a. um það hvar flokka skuli vöru í tollskrá, svo og hvað telja skuli eðlis- og tollverð vöru. Jafnframt er ráðherra veitt heimild til þess að skipa sérstaka nefnd og fela henni að gera tillögur um úrskurði þá sem fjallað er um í greininni.

Frá því þetta var tekið í lög hefur meðferð þess valds sem í greininni felst verið með ýmsum hætti. Ýmist hefur úrlausn mála verið í höndum einstakra starfsmanna fjmrn., sem kveðið hafa upp úrskurði um tollflokkun vara eða tollverð, eða skipuð hefur verið nefnd til þess að gera tillögur til fjmrh. um úrlausn máls en starfsmenn tolladeildar ráðuneytisins síðan úrskurðað formlega um úrlausn máls fyrir hönd ráðherra. Miklu varðar að sem mest festa sé í framkvæmd varðandi úrlausn þeirra ágreiningsmála sem upp kunna að rísa vegna framkvæmdar tollskrárlaga.

Í fyrsta lagi er æskilegt að mál hafi hlotið viðeigandi meðferð hjá viðkomandi tollstjórum. Er því lagt til að sérstaklega verði kveðið á um málsmeðferð hjá tollstjórum sem tryggja á sem vandaðasta meðferð á fyrstu stigum tollmeðferðar vöru.

Í öðru lagi verður að tryggja þeim sem hagsmuna eiga að gæta, bæði innflytjanda og ríkisvaldinu, áfrýjunarrétt þegar úrlausn tollyfirvalds þykir orka tvímælis. Verður að telja eðlilegast að úrskurðarvald þetta sé í höndum aðila sem starfi sjálfstætt við hlið stjórnsýsluaðila á vettvangi tollamála. Á undanfarandi árum hafa ágreiningsmál á þessu sviði aukist stórlega, en orsaka þess er m.a. að leita í aukinni innflutningsverslun landsmanna, fjölbreyttara vöruvali og flóknum fríverslunarsamningum sem hafa haft áhrif á gerð tollskrárinnar. Starf þeirra sem séð hafa um úrlausn þessara mála er orðið það umfangsmikið að fyllsta ástæða er til þess annars vegar að setja á stofn nefnd er hafi á að skipa minnst einum föstum starfsmanni og hins vegar að beina málum af þessu tagi í ákveðinn farveg er um gildi fastmótaðar reglur. Skipun tollanefndar með þeim hætti ætti að stuðla að meira réttaröryggi við úrlausn tollamála og jafnframt að flýta úrskurðum.

Á undanförnum árum hafa miklar umræður farið fram um upptöku svonefndrar tollkrítar. Tvívegis hafa verið skipaðar nefndir til þess að gera tillögur til fjmrh. um greiðslufrest á aðflutningsgjöldum og frumvörp um upptöku slíks fyrirkomulags ítrekað verið lögð fram á Alþingi en ekki hlotið afgreiðslu. Í tillögum þeim sem liggja fyrir er enn á ný hreyft hugmyndinni um greiðslufrest vegna innflutnings á vörum. Gert er ráð fyrir að frv. það sem hér liggur fyrir komi til framkvæmda frá og með 1. jan. 1987. Tölvuvæðingu við embætti tollstjórans í Reykjavík verður, eins og sagt hefur verið, lokið 1. sept. 1987, þar á meðal að taka upp sérstakt tölvuvætt bókhald vegna greiðslufrests. Ljóst er hins vegar að hann mun hafa áhrif á tekjustreymi í ríkissjóð sem taka verður tillit til við gerð fjárlaga. Þykir eðlilegast að greiðslufresturinn verði tekinn upp 1. jan. 1988 og við undirbúning fjárlaga fyrir það ár verði gert ráð fyrir nefndum breytingum en tíminn fram til þess verði notaður til þess að undirbúa framkvæmdina að öðru leyti. Greiðslufrestur á aðflutningsgjöldum í öðrum tollumdæmum verður síðan tekinn upp eftir því sem önnur tollembætti tengjast embætti tollstjórans í Reykjavík.

Í tengslum við nefndan greiðslufrest er gert ráð fyrir að reglunum um skipan gjaldeyris- og viðskiptamála verði breytt, þ.e. þeim ákvæðum er kveða á um að eigi megi tollafgreiða vöru nema staðfesting gjaldeyrisbanka liggi fyrir um að greiðsla hafi verið innt af hendi eða greiðsla tryggð með öðrum hætti. Verði það ofan á mun kvöðin um bankastimplun falla niður, enda mun hún í óbreyttri mynd koma í veg fyrir það hagræði sem að er stefnt með greiðslufresti.

Reglur um bankastimplun voru settar 1950. Ástæðan fyrir því var að sumir innflytjendur pöntuðu vörur frá útlöndum án þess að hafa innflutnings og gjaldeyrisleyfi og söfnuðust slíkar vörur því upp hér á hafnarbakkanum. Af þessum svokölluðu hafnarbakkavörum hlutust margs konar vandræði, m.a. umkvartanir erlendra sendiráða yfir vanskilum íslenskra innflytjenda og enn fremur leiddi það stundum til þess að innflytjendur, sem fylgdu öllum reglum um innflutning, voru afskiptir þegar leyfi voru veitt til innflutnings á þessum vörum. Þáverandi viðskrh., sem setti þessar reglur. vildi þar með eyða þessum órétti og jafnframt því óorði sem komst á viðskipti Íslands við erlend fyrirtæki. Bankastimplunin hefur því í reynd veitt erlendum aðilum tryggingu fyrir því að vörur yrðu ekki afhentar án þess að þær yrðu fyrst greiddar eða greiðsla tryggð. Slík gæsla tollyfirvalda á hagsmunum erlendra seljenda á sér engar forsendur nú, m.a. vegna almenns frelsis í innflutningsmálum, en veldur hins vegar innflytjendum og tollyfirvöldum verulegu óhagræði. Til fróðleiks má nefna að í öllum helstu viðskiptalöndum Íslands hefur fyrir löngu verið horfið frá slíku eftirliti af hálfu tollyfirvalda og mun Finnland, sem auk Íslands hafði í reglum um tolleftirlit slík ákvæði, hafa fellt þau úr gildi fyrir nokkrum árum.

Þótt skammt sé í að greiðslufrestur verði tekinn upp er nú í undirbúningi, m.a. við embætti tollstjóra í Reykjavík, að afgreiðslan verði einfölduð með þeim hætti að innflytjendum verði um miðjan desember heimilað að greiða aðflutningsgjöld í tveimur vörugeymslum farmflytjanda í umdæminu án viðkomu á skrifstofu embættisins. Er af þessu augljóst hagræði fyrir innflytjendur.

Samkvæmt gildandi lögum eru hvorki innflytjendur né útflytjendur skráðir hjá viðkomandi tollstjórum. Í frv. er gert ráð fyrir að veruleg breyting verði á tollafgreiðsluháttum að þessu leyti. Í fyrsta lagi er gert ráð fyrir því að innflytjandi geti tekið vöruna beint frá farmflytjanda án greiðslu aðflutningsgjalda. Til þess að svo megi verða er ljóst að taka verður upp breytta skráningu á þeim vörum sem farmflytjandi lætur frá sér fara. Skráning varanna verður að byggjast á því að um sé að ræða innflytjendur sem hafa fengið sérstaka heimild frá tollyfirvöldum til þess að fá slíka tollafgreiðslu og er því sérstök skráning innflytjenda hjá tollyfirvaldi óhjákvæmileg. Fyrst og fremst er gert ráð fyrir að þeir innflytjendur verði skráðir sem stunda innflutning sem aðalatvinnu. Í þessu sambandi verður að gera ráð fyrir að framleiðslufyrirtæki, sem flytja sjálf inn vörur til framleiðslu sinnar, verði einnig skráð. Aðrir, svo sem einstaklingar sem flytja vörur inn til persónulegra nota eða fá vörur sendar að gjöf, verða ekki skráðir. Gert er ráð fyrir að útflytjendur verði skráðir með sama hætti.

Segja má að vísir að slíkri skráningu hafi komið til við upptöku græna hliðsins við embætti tollstjórans í Reykjavík sem er leiðin til hraðari tollafgreiðslu fyrir þá innflytjendur sem sýnt hafa í samskiptum sínum við tollyfirvöld að flóknar reglur, sem nú gilda, koma á engan hátt í veg fyrir rétta tollskýrslugerð.

Á árinu 1972 skipaði þáv. fjmrh. nefnd til að hafa með höndum undirbúning að stofnun fríhafnar hér á landi. Nefnd þessi kynnti sér rekstur fríhafna erlendis. Aflaði hún sér gagna um rekstur og störf fríhafna í Danmörku, Finnlandi og Svíþjóð, m.a. um þær réttarreglur sem liggja slíkri starfsemi til grundvallar. Í áliti nefndarinnar var komist að þeirri niðurstöðu að mjög tímabært væri að hefja starfrækslu fríhafnar hér á landi. Taldi nefndin að slík starfsemi yrði til þess fallin að einfalda og auðvelda innflutningsverslun til landsins auk þess sem skapast mundu möguleikar til aðvinnslu á vörum áður en þær væru teknar til tollmeðferðar. Enn fremur segir í áliti nefndarinnar að við þetta mundu opnast möguleikar í sambandi við svokallaða transit-vöru eða gegnumflutningsvöru, svo og samsetningu á vöru að hluta, umpökkun o.fl. Nefndin skilaði með áliti sínu drögum að frv. sem hún lagði til fjmrh. og hann lagði fram á Alþingi. Það hefur hins vegar aldrei komist til framkvæmda.

Tvívegis hefur komið til kasta Alþingis till. til þál. um tollfrjálst iðnaðarsvæði við Keflavíkurflugvöll. Tillögur þessa efnis hafa verið fluttar en ekki verið samþykktar. Í frv. er lagt til að tekið verði upp heimildarákvæði til handa ríkisstjórninni til að leyfa rekstur tollfrjáls svæðis eða frísvæðis. Rekstur frísvæðis opnar möguleika á ýmsum atvinnutækifærum, bæði í verslun og iðnaði. Skilyrði til þess að koma upp slíku svæði er að nokkru leyti fyrir hendi nú þegar. Mannvirki þau sem fyrir hendi eru, t.d. á Keflavíkurflugvelli, eru á engan hátt fullnýtt.

Hér að framan hefur verið rakið meginefni þeirra breytinga sem ríkisstjórnin telur tímabært að gerðar verði á tollkerfinu til þess m.a. að færa afgreiðsluhætti í það horf að þeir falli sem best að breyttum viðskiptaháttum og flutningum á vörum til og frá landinu. Breyttir viðskiptahættir, aukin verslun og skjalaflóð því samfara krefjast meiri hraða og nútímalegri vinnslu þeirra gagna sem tollafgreiðsla hlýtur ávallt að byggjast á. Með frv. þessu hefur vonandi tekist að draga upp þann ramma sem varðar leiðina að þessum markmiðum án þess að hagsmunir ríkisins af innheimtu gjalda og löggæslu hafi verið skertir. Hversu vel tekst til er hins vegar ávallt komið undir nánari útfærslu einstakra atriða og ekki síður þeim aðilum sem eftir lögunum eiga að starfa og blása í þau lífi.

Fjölmörg önnur atriði mætti auðvitað nefna sem felast í frv. en ég vísa að því leyti til almennra athugasemda sem fylgja með frv.

Herra forseti. Ég legg til að málinu verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og hv. fjh.og viðskn.