03.12.1986
Neðri deild: 16. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 1340 í B-deild Alþingistíðinda. (1171)

213. mál, fólksflutningar með langferðabifreiðum

Samgönguráðherra (Matthías Bjarnason):

Herra forseti. Frv. það sem ég legg hér fram er til endurskoðunar á gildandi lögum um skipulag á fólksflutningum með langferðabifreiðum nr. 29 frá 23. mars 1983. Frv. er samið í samgrn.

Enda þótt gildandi lög um þetta efni séu aðeins rúmlega þriggja ára gömul liggja fyrir því brýnar ástæður að ég legg þetta frv. fram nú. Ég legg áherslu á að frv. verði afgreitt eins fljótt og unnt er. Fyrir því liggja m.a. þær ástæður að skipunartími núverandi skipulagsnefndar fólksflutninga rennur út nú um áramótin og að sérleyfi fyrir nýtt fimm ára sérleyfistímabil verða veitt í byrjun næsta árs. Meginbreytingarnar í þessu frv. frá gildandi lögum eru þessar:

1. Umferðarmáladeild er lögð niður og 5. gr. í gildandi lögum því felld út.

2. Skattur á sérleyfishafa og hópferðaleyfishafa er afnuminn.

3. Ákvæði um rétt sveitarfélaga til einkaréttar á rekstri strætisvagna eru gerð skýrari og víðtækari en nú er.

4. Fulltrúum í skipulagsnefnd er fækkað úr sjö í fimm.

Auk þessara breytinga eru gerðar tillögur um ýmsar minni háttar lagfæringar. Með þessum breytingum er stefnt að því að framkvæmd þessara mála verði einfaldari og ódýrari en nú er jafnframt því sem stefnt er að auknu frjálsræði í þessum mikilvæga málaflokki eins og ég mun frekar gera grein fyrir hér á eftir.

Verkefnum umferðarmáladeildar hefur fækkað verulega á síðustu árum. Þannig eru hópferðaleyfi nú gefin út til fimm ára í senn í stað eins árs áður, eða til sama tíma og sérleyfin gilda. Á þessu ári var Umferðarmiðstöðin seld Félagi sérleyfishafa og Bifreiðastöð Íslands og fækkaði þá enn þeim verkefnum sem deildin hafði. Annar þeirra tveggja starfsmanna sem deildin hefur, þ.e. forstöðumaður deildarinnar, fer á eftirlaun nú um áramótin. Ætlunin er að flytja þau verkefni sem eftir verða í deildinni, fyrst og fremst útgáfu sérleyfa og hópferðaleyfa, sem eru gefin út eins og ég hef þegar sagt til fimm ára í senn, til ráðuneytisins og þá án þess að auka þar við starfsfólki.

Rétt er að taka það fram að útgáfu leiðabókar verður hætt en hún hefur verið gefin út árlega allt frá því að Póstur og sími hafði skipulag fólksflutninga með höndum. Eðlilegt er að útgáfa bókarinnar, ef hún þykir nauðsynleg, sé í höndum flutningsaðila sjálfra eins og er í öðrum greinum flutninga.

Í gildandi lögum er ákvæði um að greitt skuli gjald af hverju farþegasæti í leyfisskyldum bifreiðum og skuli því varið til að standa straum af kostnaði við rekstur skipulagsnefndar fólksflutninga og umferðarmáladeildar. Þetta gjald er áætlað í fjárlögum fyrir næsta ár 3 millj. kr. Við það að umferðarmáladeildin er lögð niður fellur þetta gjald eðlilega niður en kostnaður við rekstur skipulagsnefndar fólksflutninga er ekki teljandi.

Eins og ég sagði áður eru ákvæði um rétt sveitarfélaga til einkaréttar á rekstri strætisvagna gerð skýrari og víðtækari en nú er. Ástæðan fyrir þessu er að á vegum sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu og samgrn. hefur að undanförnu verið unnið töluvert mikið að könnun á hagkvæmni samræmingar á almenningsvagnasamgöngum á höfuðborgarsvæðinu. Áhugi sveitarfélaganna á þessu máli er verulegur og horfur á ýmsum breytingum á almenningsvagnasamgöngum á þessu svæði. Í gildandi lögum er einkaleyfi bæjarfélags til strætisvagnareksturs einungis fyrir akstur innanbæjar. Nauðsynlegt er að þetta ákvæði gildi einnig um akstur til nærliggjandi sveitarfélaga. Hjá því verður ekki komist þegar um er að ræða þéttbýl sveitarfélög sem eru sambyggð eða allt að því, eins og Reykjavík, Kópavogur, Garðabær og Hafnarfjörður. Raunar má segja að þetta ákvæði hafi þegar komið til framkvæmda þar sem er akstur Strætisvagna Kópavogs til Reykjavíkur.

Fari svo að sveitarfélög yfirtaki rekstur sérleyfis samkvæmt þessu ákvæði finnst mér rétt að undirstrika að í frv. er haldið óbreyttu ákvæði gildandi laga um það að ráðherra skuli heimilt að binda einkaleyfi því skilyrði að einkaleyfishafinn skuli skuldbundinn að kaupa þær fasteignir og bifreiðar, sem notaðar höfðu verið til reksturs á viðkomandi leið og teljast nauðsynlegar til hans, á verði sem samkomulag verður um milli aðila. Með þessu á að verða tryggt að sérleyfishafinn verði ekki fyrir fjárhagslegum skakkaföllum þótt viðkomandi sveitarfélag yfirtaki sérleyfið í formi einkaleyfis.

Loks er lagt til í frv. að fækkað verði um tvo fulltrúa í skipulagsnefnd fólksflutninga, úr sjö í fimm. Lagt er til að aðild Búnaðarfélagsins að nefndinni falli niður. Að vísu er aðild þess að nefndinni orðin næsta gömul eða allt frá árinu 1945.

Hins vegar hefur orðið gjörbreyting á þjóðfélaginu á þessum áratugum, ekki hvað síst í samgöngum og skipulagningu þeirra. Tel ég að því hlutverki sem fulltrúa Búnaðarfélagsins var ætlað að gegna í upphafi verði jafn vel gegnt af fulltrúa Sambands ísl. sveitarfélaga sem fyrir er í nefndinni. Jafnframt tel ég rétt að gera þeim sem aðild eiga að nefndinni jafnt undir höfði og því er fulltrúum Félags sérleyfishafa fækkað úr tveimur í einn. Fulltrúi Alþýðusambands Íslands er fulltrúi launþega að sérleyfis- og hópferðaakstri í skipulagsnefndinni.

Ég hef gert grein fyrir þeim meginbreytingum sem þetta frv. felur í sér frá gildandi lögum, en auk þess eru ýmsar minni háttar breytingar sem gerð er grein fyrir í athugasemdum við einstakar greinar frv.

Ég vona að í máli mínu hafi komið skýrt fram hvers vegna ég legg þetta frv. fram nú og óska eftir því að Alþingi reyni að hraða afgreiðslu þess af þeim ástæðum sem ég hef áður greint frá. Svo að ég dragi þær ástæður fram í örfáum orðum í lok máls míns eru þær að skipunartími núverandi skipulagsnefndar rennur út um áramótin, fyrir dyrum er veiting sérleyfa fyrir allt landið, verkefni umferðarmáladeildar hafa dregist verulega saman svo að ekki er þörf fyrir hana lengur og loks er með frv. reynt að greiða fyrir þeirri endurskipulagningu á almenningssamgöngum sem fyrirsjáanleg er á höfuðborgarsvæðinu.

Herra forseti. Ég legg til að að lokinni þessari umræðu verði frv. vísað til 2. umr. og hv. samgn.