04.12.1986
Sameinað þing: 25. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 1349 í B-deild Alþingistíðinda. (1183)

Afstaða til stöðvunar kjarnorkuvígbúnaðar

Hjörleifur Guttormsson:

Herra forseti. Ég vil vekja athygli hæstv. forseta og þingheims á þeirri staðreynd að fyrir þinginu hefur legið mál, 151. mál, um afstöðu Íslands til stöðvunar kjarnorkuvígbúnaðar, lagt fram 13. nóv. s.l. og vísað til utanrmn. 25. nóv. og skilað var áliti af minni hl. í gær. Það álit liggur fyrir á þskj. 238.

Tillaga þessi varðar afstöðu Íslands til stöðvunar kjarnorkuvígbúnaðar á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna. Er mælt var fyrir máli þessu í nóvembermánuði var vakin athygli á að hraða þyrfti afgreiðslu þessa máls þannig að þingið gæti tekið afstöðu til þess. Atkvæði voru greidd á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna í gær um þá tillögu sem þarna er um rætt og þar féllu atkvæði 139 með, 12 á móti, en fjögur ríki sátu hjá og í þeim hópi Ísland.

Ég tel, herra forseti, að það sé óhæfa í raun að nú annað þingið í röð skuli Alþingi ekki taka afstöðu til þessa máls og að það skuli gerast nú á þessu þingi, með þeim hætti sem raun ber vitni, að meiri hl. í utanrmn. hefur ekki séð ástæðu til þess að skila áliti um þessa tillögu til þingsins þannig að hún kæmist á dagskrá og hefur hagað sinni málsmeðferð þannig að þinginu gefst ekki kostur á að greiða atkvæði um þessa tillögu og þar með um afstöðu utanrrh. sem ræður atkvæði Íslands á allsherjarþinginu. Ég tel þetta vera hina mestu óhæfu í raun að svona skuli haldið á málum og skil ekki þann meiri hl. í utanrmn. sem vill ekki fá fram afstöðu hér í þinginu til málsins og hefði talið að hæstv. utanrrh. hefði einnig átt að vinna að því að úr því væri skorið hvort hann hefði hér meiri hluta í þinginu fyrir þessari afstöðu sinni. Ísland er þarna sett í hóp 16 ríkja sem ekki greiða atkvæði með umræddri tillögu á vettvangi Sameinuðu þjóðanna en 139 með, þar á meðal öll önnur Norðurlönd en Ísland. Hér er ekkert smámál á ferðinni og það er mikið umhugsunarefni að það skuli vera þingsköp á Alþingi sem gera það kleift að þæfa mál með þeim hætti sem hefur gerst og koma í veg fyrir að þingviljinn komi í ljós í tæka tíð.

Ég vek athygli á því, herra forseti, að á öðrum þjóðþingum Norðurlanda, ég hygg t.d. í danska Folketinget, séu þingsköp með þeim hætti að hægt sé að fá fram atkvæðagreiðslu með skjótum hætti, t.d. í tengslum við fyrirspurnir, um mál og afstöðu stjórnvalda og þannig hefur danska þingið að meiri hluta til tekið afstöðu andstæða utanrrh. og ríkjandi stjórn til mikilsverðra utanríkismála. Það væri eðlilegt að mínu mati að endurskoða þingsköpin hjá okkur í ljósi þess sem hér hefur gerst, þegar tiltekinn meiri hl. í þingnefnd notar sér aðstöðu sína með þeim hætti sem hér um ræðir.

Í utanrmn. voru haldnir þrír fundir þar sem tillaga þessi var á dagskrá en því var borið við að menn gætu ekki haft samráð við sína þingflokka á þeim tíma og var það þó full vika sem um var að ræða þannig að það er auðvitað öllum ljóst að hér er með vísvitandi hætti verið að komast hjá því að afgreiða mál úr nefnd og gera þinginu kleift að taka afstöðu.

Ég mælist til þess, herra forseti, að tekin verði á vettvangi forystu Alþingis, forseta þingsins, afstaða til þingskapa að þessu leyti og horft verði til þess sem gerist í öðrum þjóðþingum nágrannalandanna og sem kemur í veg fyrir að hægt sé að hindra að þingið taki afstöðu til þýðingarmikilla mála eins og t.d. í þessu tilviki.

Ég vænti þess, herra forseti, að vilji sé fyrir því, virðulegur forseti stuðli að því, að þetta verði tekið upp á vettvangi forystu þingsins og þingsköpum verði breytt þannig að tryggt sé að hægt sé að fá fram atkvæðagreiðslur í þinginu um þýðingarmikil mál án þess að þau þurfi að ganga til nefndar eins og gert var í þessu tilviki. Þess utan tel ég nauðsynlegt að tillagan á þskj. 161 fái þinglega afgreiðslu þrátt fyrir þá atkvæðagreiðslu sem fram fór á vettvangi Sameinuðu þjóðanna í gær vegna þess að það er nauðsynlegt að leiða þingviljann í ljós, engu síður þó að atkvæði hafi þarna fallið, og fá úr því skorið hvort hæstv. utanrrh. hefur meiri hluta í þinginu fyrir þeirri afstöðu sem hann tók til þessa máls. Ég vænti þess að meiri hl. í utanrmn. sjái til þess að álit komi hér inn í þingið þótt seint sé þannig að Sþ. fái þetta mál til efnislegrar meðferðar að fenginni afstöðu meiri hl. í utanrmn.

Ég bendi einnig á að það er annað mál sem fyrir nefndinni liggur sem hefði átt að vera komið hér fram þannig að afstaða gæti legið fyrir í rauninni efnislega um sama mál, 12. mál þingsins, um frystingu kjarnorkuvopna, flutt af þm. Kvennalista, en einnig það mál liggur nú í utanrmn. án þess að það fengi þar afgreiðslu.

Ég vænti að þm. skilji alvöru þessa og það er ekki bara það tilvik sem hér um ræðir, svo alvarlegt sem það er, heldur fordæmið og möguleikinn sem hér er til þess í rauninni að koma í veg fyrir að þingið fái með eðlilegum hætti fjallað um mikilsverð mál eins og afstöðu til utanríkismála, í þessu tilviki stöðvunar kjarnorkuvígbúnaðar.