04.12.1986
Sameinað þing: 25. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 1352 í B-deild Alþingistíðinda. (1186)

Afstaða til stöðvunar kjarnorkuvígbúnaðar

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Hér gerist það enn þá einu sinni að meiri hluti þingsins heldur þannig á þingstjórninni að mál kemst ekki til meðferðar í tæka tíð, það er alveg ljóst. Og þegar þingflokkur Framsfl. ber því við að ekki hafi verið tími til að fjalla um málið er það viðbára-það var ekki vilji hjá Framsfl. til þess að fjalla um málið. Þeir voru á móti því að málið kæmi til atkvæða vegna þess að þeir höfðu lent í því fyrir nokkrum misserum, þegar þeir ætluðu einu sinni að hafa sjálfstæða afstöðu í utanríkismálum, að vera reknir til baka eins og ræflar og beygja sig fyrir íhaldinu. Þeir vildu ekki láta það endurtaka sig að þeir yrðu berir að slíku og þess vegna kom Framsfl. í veg fyrir það ásamt Sjálfstfl. og Alþfl. að þetta mál yrði afgreitt í þinginu með eðlilegum hætti.

Hér er að mínu mati komið að stórkostlega alvarlegum hlut í störfum hins virðulega Alþingis ef það getur gerst ár eftir ár að þingið kemur því ekki við að tjá vilja sinn í máli af þessu tagi þegar auk þess er um að ræða mál sem hefur verið lagt fyrir þingið aftur og aftur, nákvæmlega samhljóða mál lá fyrir þinginu í fyrra. Ég held að það sé óhjákvæmilegt, ef menn vilja bera einhverja virðingu fyrir því og störfum Alþingis, sem ég veit að menn vilja, og bera virðingu fyrir sínum eigin verkum, að þm. hljóti að taka á þessu máli og gera ráðstafanir til þess að þingsköpum verði breytt þannig að þau séu ekki notuð til þess að lýðræðislegur vilji þingsins fái ekki að koma í ljós. Þingsköp eru til að greiða fyrir lýðræðinu en ekki til að hindra að eðlilegar niðurstöður, lýðræðislegar og þingræðislegar, fáist hér á hv. Alþingi. Þessi vinnubrögð sem hér hafa verið uppi geta lamað Alþingi sem aðhaldsstofnun að ríkisstjórn og ráðherrum á hverjum tíma og eru þess vegna í rauninni hættuleg.

Í danska þinginu eru þær reglur í þingsköpum að unnt er að fara fram á atkvæðagreiðslu um mál í fyrirspurnatíma eða undir umræðum um skýrslu forsætisráðherra. Ég hygg að það eigi að skoða það mjög vandlega hvaða ákvæði er unnt að setja í þingsköp til tryggingar því að vilji þingsins fái að koma í ljós án þess að með þeim ákvæðum sé í rauninni þrengt að möguleikum þingsins til að ræða mál. Það er ekki það sem menn eru uppi með hugmyndir um heldur hitt að afgreiðsla fáist með eðlilegum hætti.

Hitt er svo einnig alvarlegt, herra forseti, í þessu efni að í 15. gr. þingskapa er algjörlega óyggjandi ákvæði um það að utanrrh. á að leita til utanrmn. í málum af því tagi sem hér eru uppi og það ákvæði bendir auðvitað til þess að þegar uppi er ágreiningur eða deilur í slíkri nefnd sé honum rétt og skylt, utanrrh., að hlutast til um að vilji þingsins fái að koma í ljós. Í 15. gr. þingskapa segir svo með leyfi hæstv. forseta:

„Utanríkismálanefnd starfar einnig milli þinga og er ríkisstjórninni til ráðuneytis um meiri háttar utanríkismál, enda skal ríkisstjórnin ávallt bera undir hana slík mál jafnt milli þinga sem á þing tíma.“ Hér er alveg skýrt hvað þessi stofnun, hið virðulega Alþingi, segir um þessi mál og telur að utanrrh. eigi að vinna með þeim hætti sem greint er í 15. gr. þingskapanna. Ég hlýt þess vegna að taka mjög eindregið undir þau orð hv. 5. þm. Austurl. að hér er komið að býsna alvarlegum vanda fyrir Alþingi Íslendinga og það er óþolandi ef hlutir verða látnir ganga svona fyrir sig áfram.

Ég vil einnig leyfa mér í tengslum við þetta að benda á, herra forseti, að ef forysta þingsins sér sér ekki fært að flytja tillögur af því tagi sem hér voru nefndar af hv. 5. þm. Austurl. er auðvitað sjálfsagður hlutur að þeir aðrir þm. sem eru þeirrar sömu skoðunar og hann og ég í þessu efni beiti sér fyrir slíkum tillöguflutningi þannig að það verði tryggt að lýðræðislegur vilji Alþingis Íslendinga fái að koma fram og það verði ekki beitt bolabrögðum af neinu tagi til að koma í veg fyrir slíkt jafnvel þó að þau bolabrögð séu kölluð tímaleysi í einstökum þingflokkum eins og hér hefur gerst í þingflokki Framsfl.